Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Qupperneq 18
24
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Á seinni hluta 19. aldar skrifuðu ýmsir um byggðina á Þórsmörk. 1877 lýsti
Kálund (1877, bls. 261) Kápurananum sem uppblásnum, en að þar sæjust
greinileg merki byggðaleifanna; dýrabein og muni úr steini og bronsi fann
hann þar, en áður höfðu fundist mannabein þar.
Árið 1883 ferðaðist Sigurður Vigfússon um Rangárvöllu og kom m.a. á
Þórsmörk. Hann taldi byggðaminjarnar á Kápu vera Miðmörk þá sem nefnd
er í Njáls sögu; Neðstamörk hafi verið að Þuríðarstöðum, en Efstamörk innar
á Mörkinni og sé ekkert eftir af henni. Hann fann ýmsa hluti af málmi á
staðnum, svo og manna-, hunda-, hross- og nautsbein. Taldi hann skóg hafa
verið á Kápu og sagði, að enn væru þar óeyddar jarðtorfur, ein eða tvær
mannhæðir á hæð (Sigurður Vigfússon, 1892, bls. 38—9).
Árið 1886 skrifaði Páll Sigurðsson í Árkvörn um þessar byggðaminjar. Var
hann sömu skoðunar og Sigurður um staðsetningu Merkurbæjanna þriggja
sem nefndir eru í Njáls sögu, en taldi Steinfinnsstaði hafa verið sunnan
Krossár, samanber örnefnin Steinsholtsá og Steinsholt. Byggðaleifunum á
Kápu, þar sem hann taldi Miðmörk hafa verið, lýsir hann á eftirfarandi hátt:
Nokkru innar, hér um á miðri Þórsmörk hinni fornu, nú fremst á Al-
menningum, í svo nefndri Kápu, sést enn merki fyrir skálastæði og fleiri
húsatóptum, þar hefir fundizt sitthvað smávegis, svo sem brýni, hringju-
brot og plata, álíka stór og manns lófi, og var höggvin sundr um rúma Vi
parta, en hitt heilt, og héldu smiðir þeir, er skoðuðu þetta, að væri bóla af
skildi, eða einhver hertygjaplata, og í því blendíngr járns og kopars
(bronze). Þar finnst enn í sandinum mikið af beinum, bæði nauta, hrossa,
sauða og jafnvel svína, og vorið 1860 fann ég í hól þeim, er suðr er ör-
skammt frá bæjarstæðinu næst Þröngá, og austan við svo nefnda Grautar-
lág, mannsbein blásin út úr rofi vestan í hólnum; voru það fót- og lærlegg-
ir, viðlíka stórir og meðalmanns þessa tíma, og höfðu fætr legið til suð-
vestrs; ekki fann ég fleiri bein, en ég var líka áhaldalaus, að grafa þar
nokkuð til (Páll Sigurðsson, 1886, bls. 511).
Skálastæðið, sem Páll nefnir, er freistandi að ætla, að hafi verið á þeim
stað, sem merktur er (A) á 2. mynd, en lítil merki sér nú um aðrar húsatóftir.
Hluturinn, sem hann telur e.t.v. vera skjaldarbólu, virðist vera sá sami sem
lýst er í Sýslu- og sóknarlýsingunni hér að framan, en hann er nú ekki til og
hefur e.t.v. verið notaður til smíða.
Árið 1887 nefndi Brynjúlfur Jónsson (1887, bls. 58) þessar byggðaleifar í
grein um landnám Sighvats rauða, sem dæmi um það hversu rústir aflagist af
völdum náttúruaflanna. Sagði hann, að um 1840 hafi rúst bæjarins, að sögn
Sigurðar ísleifssonar á Barkarstöðum, verið glögg, 60 feta löng. Um 30 árum
síðar var hleðslugrjótið dreift um allt.