Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Síða 116
120
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
ulden = klokke og auk þess tveimur pilsum, því innra að sjá með áföstum
upphlut.10 Af dönskum ritum um búningasögu er að skilja að klokke hafi á
seinni hluta 18. aldar verið þröngt nærpils tilheyrandi tiskufatnaði kvenna, á
19. öld hluti af undirfatnaði/vinnufatnaði bændakvenna, þ.e. pils með áföst-
um ermalausum bol úr grófgerðu ullarefni, og í lok 19. aldar prjónanærpils;
enn fremur var orðið á 19. öld haft um ermalausa, kjóllaga flík á smábörn,
bæði drengi og telpur.11
Likt og Bjarni í sinni skrá nefnir Skúli íslensk heiti nokkurra flíka í riti sínu.
Hvorugur þeirra gefur upp íslenskt nafn á nærpilsinu klocke/klokke, en Skúli
gerir að því leyti betur en Bjarni að hann segir flíkina úr ull, prjónaða, og væri
nærtækt að ætla, einnig vegna seinni tíma málvenju, að nærpils þetta hafi
verið nefnt klukka. Sá er þó vandinn, að ókunnugt er um notkun þessa is-
lenska orðs um klæðnað fyrr en undir miðja 19. öld og þá aðeins í tveimur til-
vikum, báðum um smábarnaflík.12 í dansk-íslenskri orðabók Konráðs Gísla-
sonar frá 1851 er klukka sem flík ekki nefnd að séð verður, en flíkin klokke
lögð út sem nærpils eingöngu.13 Það er raunar fyrst í danskri orðabók Jón-
asar Jónassonar frá 1896 sem höfundur hefur komið auga á að flíkin klokke
sé þýdd bæði sem nærpils og klukka, og í orðabók Sigfúsar Blöndal, 1920—
1924, að íslenska orðið klukka sé sagt merkja bæði barnakjól og prjónað
millipils, hið síðara þýtt þar með orðunum Klokke og Uldklokke.14
En svo vikið sé aftur að fataskrá Bjarna með brúðunni, er ekki síður at-
hyglisvert en framangreint það sem þar segir um skófatnað íslendinga, þar eð
leifar af smíðuðum skóm er fundist hafa í fornleifauppgröftum á síðari árum,
sem og fleira, benda til hins sama, þ.e. að smíðaðir skór hafi fyrrum verið
notaðir hér á landi í þó nokkrum mæli. Væri fróðlegt ef það yrði kannað nán-
ar áður en allt of langt líður. Enn fremur má nefna að það sem í bréfinu segir
um að silfrið á brúðu af þessu tagi hefði þurft — eða yrði — að útvega i Kaup-
mannahöfn, gæti bent til að algengt hafi verið, um þetta leyti að minnsta
kosti, að láta smíða kvensilfur þar. Einnig þetta atriði kynni að reynast ein-
hverjum fróðlegt rannsóknarefni.
IV. Lokaorð
Engin vitneskja er um hvar Bjarni Pálsson fékk brúðuna, en nærtækt er að
ímynda sér að Rannveig kona hans, dóttir Skúla Magnússonar fógeta, hafi út-
búið hana. Ekki er heldur neitt vitað hvað af brúðunni hefur orðið. Sennilega
er hún löngu glötuð, en ef svo óliklega skyldi vilja til að hún ætti eftir að
koma í leitirnar, yrði trúlega hægt að átta sig til muna betur en nú er á búningi
kvenna hér á landi á sjöunda tug 18. aldar.
18.2. 1983