Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1982, Síða 157
160
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
bæði fyrr og síðar hefur orðið kyndilmessa þó verið nær allsráðandi. Ekki er
með öllu ljóst, hvernig á því nafni stendur, en benda má á þrjú atriði:
1) hljóðlíkinguna við engilsaxnesku candel mœssan, en þaðan mun orðið
hafa borist í íslensku einsog margt fleira í kirkjumáli,
2) ekki er víst, að á þessum tíma hafi verið glögg skil milli merkingar
orðanna kyndill og kerti,
3) hugsanlegt er, að í nefndri skrúðgöngu utan kirkju hafi reynst ókleift að
bera logandi kerti úti í norrænu þorraveðri og því verið notaðir kyndlar.
í þessu sambandi má benda á Alþingissamþykkt um helgidagahald, líklega
frá 1562, þar sem amast er við ýmsum katólskum helgidögum:
,,Hin þriðja Maríumessa, er hún bar hann í musterið, þá Símeon játaði
hann sannan Guð og sannan mann, sem af fornri venju kallast kyndilmessa af
þeim kyndlum, sem vér höfum borið á þann dag í höndum vorum, hvað verið
hefur fölsk dýrkan og login dýrð.“54
Orðinu hreinsunarhátíð bregður þó einnig fyrir í trúarlegum ritum, og
stundum er hún einungis nefnd Maríumessa.55 Einnig hefur fundist dæmi um
heitið Ijósamessa, sem trúlega er til komið fyrir þýsk áhrif (Lichtmess).56
Munnmæli hafa verið á kreiki um þær leifar hins katólska siðar, að leitast
hafi verið að ljóma bæinn upp með kertaljósum meir en ella á kyndilmessu.
Og nú hefur fundist nokkuð öruggt dæmi um þá siðvenju að steypa eitt kerti
öðrum stærra fyrir jólin, en kveikja ekki á því fyrr en á kyndilmessu og láta
það þá standa á kvöldverðarborðinu. Þetta dæmi er frá 19. öld úr
Staðarsveit.57
Eins og áður sagði hófst vetrarvertíð víðast á Suðurlandi fyrsta virkan dag
eftir kyndilmessu eftir tímatalsbreytinguna árið 1700. En á kyndilmessudag
sjálfan átti hver fiskimaður að vera kominn að sínum hó eða keip.58
Enn sterkari trú virðist hafa verið á kyndilmessu en Pálsmessu varðandi
veðurfar og í samræmi við vísuna áðurnefndu. Af því er sagan um Bárð Ás-
mundsson í Hólakoti i Eyjafirði, sem dó gamall skömmu eftir 1860. Hann
trúði fast á þetta einsog margir fleiri og var alltaf að fara út á kyndilmessu að
gá til veðurs. Einu sinni, þegar hann kom inn, var hann bæði hryggur og reið-
ur, kvaðst hafa séð ,,einn bölvaðan sólskinsblett i Kerlingu.“59 En svo rammt
kvað jafnvel að þessu, að sumir húsbændur breiddu fyrir glugga, ef sólin
skein í heiði þennan dag, svo að sólarljósið gæti ekki skinið inn í híbýlin.
Enda var sú trú til, að jafnlangt myndi snjóa inn í bæinn og sólin næði að
skína i hann þennan dag. Samskonar trú þekktist á Bretlandseyjum.60 Þá eru
einnig til sagnir um að húsbændur héldu hjúum sínum dálitla veislu, ef illviðri
var á kyndilmessu, en hættu við, ef glaðnaði til. Skal sem dæmi þessa tekin
saga eftir Vestfirðingi, sem fæddur var árið 1900: