Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1995, Page 56
60
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
ofurlítið upphleypt. Fæturnir eru í ilskóm. Hylki af þessu tagi komust í tísku
á tímum 22. konungsættar og var hugmyndin sú að ef eitthvað kæmi fyrir
múmíuna sjálfa gæti sálin dvalist í hylkinu. Þetta brot er um 19 cm að hæð
og 27,2 cm að lengd. Hæðin þar sem það beygist um ökklana er 11 cm og
4,3 cm yfir tærnar.
Líklega eru fótstykkið og dánargríman af sömu múmíunni eða gerð á
sama verkstæði. Liturinn og handbragðið benda ótvírætt til þess. Hvor
tveggja er frá tímum Ptólemaíættarinnar.19 Kannski eru þetta hlutar af
múmíunni sem Fiske talar um í bréfinu frá 16. des 1888.
17. Máluð tréstytta af Ptah-Sokar-Osíris. Kringum hálsinn eru skraut-
bekkir og framan á lóðrétt helgileturslína. Á höfðinu er fjaðradjásn með sól-
diski. Styttan er frá tímum 26. konungsættar (664 f.Kr.-525 f.Kr.)20 og er 50,5
cm að hæð og stendur á sökkli. Sökkullinn er 4 cm að hæð, 26,5 cm að
lengd, 9,4 cm að breidd og gegnheill. Á framanverðum sökklinum er fálki,
tákn Hórusar. Styttur sem þessi voru haugfé og stundum var sökkullinn
holur að innan og eintaki af Bók hinna dauðu komið þar fyrir. Ptah-Sokar-
Osíris var guð sköpunar, dauða og framhaldslífs samsettur úr þrem guðum.
Þeir voru Ptat sem var guð sköpunar í Memfis, Sokar sem var guð grafreita
og einnig frá Memfis og svo Osíris guð undirheima.
18. Máluð tréstytta af Ptah-Sokar-Osíris. Höfðbúnaðurinn er svartur og
svart lausskegg er bundið við hökuna. Andlitið unglegt og grænmálað.
Ofan til eru skrautbekkir og fyrir neðan þá lárétt helgileturslína. Á hvorri
hlið er mynd af Hórusi með sóldiskinn á höfðinu. Styttan er 38 cm að hæð,
þar af er fótstallurinn 3,5 cm. Líklega frá svipuðum tíma og nr. 17.
19. Tréstytta af Ptah-Sokar-Osíris sem hefur einhverntíma verið rauðmál-
uð en ekkert skraut er lengur sjáanlegt á henni. Líklega hefur þó verið lína
með híeróglífri framan á henni. Augun eru illa gerð og sennilega máluð á
eftir að styttan fannst. Styttan hefur verið með lausskegg sem nú er brotið
af og sést farið eftir það neðan á hökunni. Styttan er 24 cm á hæð, fremur
klunnalega gerð. Ekkert er hægt að segja um aldur hennar.
20. Shaptistytta úr ljósum leir, mógrá að lit. Höfuðbúnaðurinn er svartur,
andlit rauðleitt og lausskegg er bundið við hökuna. Styttan er 32,4 cm að
hæð og mjög þung. Þetta er elsti gripurinn í safninu sem hægt er að aldurs-
greina með nokkurri vissu og er frá tímum Miðríkisins, nánar til tekið 12.
konungsætt (1991 f.Kr.-1786 f.Kr.).
Shaptistyttur voru lagðar í grafir með mönnum og áttu að vinna fyrir þá
í öðru lífi. Þar þurfti að sinna ýmsum störfum svo sem að hlynna að flóð-
görðum og huga að uppskeru og það átti shaptistyttan að gera. Yfirleitt
voru margar shaptistyttur lagðar í gröfina með hverjum manni, stundum
ein fyrir hvern dag ársins. Þær voru gjarnan í múmíulíki. Fyrst voru þessar