Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1995, Blaðsíða 95
Orri Vésteinsson
KIRKJA OG KIRKJUGARÐUR
í NESI VIÐ SELTJÖRN
I Básendaveðrinu aðfaranótt 9. janúar 1799 fauk síðasta kirkjan í Nesi við
Seltjörn. Hún var aðeins tæplega fimmtán ára gömul en 1785 höfðu
kirkjubændur í Nesi, þeir Jón Sveinsson landlækirir og Björn Jónsson
apótekari, látið byggja þar glæsilega nýja timburkirkju. Kirkjan, sem hún
leysti af hólmi, var byggð 1675. Hún var með hliðarveggi úr torfi og grjóti
og hefur verið dæmigerð fyrir bændakirkjur á stórbýlum á sínum tíma. Sú
kirkja hafði lengi verið hrörleg og þrátt fyrir margvíslegar tilraunir til
endurbóta varð að lokum ekki komist hjá því að reisa nýja kirkju frá grunni.
Nýja kirkjan var bæði stór og vönduð og með gríðarháum klukkuturni, sem
hefur átt fáa sína líka á íslandi. Hún var líka eingöngu úr timbri, sem var
nálega einstakt á seinni hluta 18. aldar þegar fiestar kirkjur voru með torf-
veggjum, og er greinilegt af lýsingum að hvergi var til sparað við gerð henn-
ar og að hin nýja kirkja hefur átt að sóma sér vel við hlið steinhússins, sem
byggt hafði verið fyrir landlækninn í Nesi 1761-65.
Þó að nýja kirkjan hafi verið glæsileg þá var hún þó ekki úr steini eins og
kirkjurnar í Viðey og á Bessastöðum, sem byggðar höfðu verið um tuttugu
árum fyrr. Tími steinhúsanna var að líða undir lok og sömuleiðis var upp-
bygging á embættismannabústöðum í nágrenni Reykjavíkur að stöðvast.
Nýja kirkjan í Nesi var raunar síðasta stórbyggingin, sem reist var í nágrenni
Reykjavíkur á seinni hluta 18. aldar, og ein sú fyrsta til að verða útþenslu
Reykjavíkur að bráð. Sama ár og hún reis af grunni var ákveðið að flytja
biskupsstól frá Skálholti til Reykjavíkur og 1790 hófst bygging nýrrar dóm-
kirkju úr steini þar. Eftir að hin nýja dómkirkja var vígð 1794 var ákveðið að
stækka Reykjavíkursókn með því að leggja kirkjurnar í Laugarnesi og Nesi
niður og sameina allar þrjár sóknirnar með kirkju í Reykjavík. Kirkjan í
Laugarnesi var aflögð strax 1794 en áætlanir þessar mættu meiri andstöðu í
Nessókn og var Neskirkja ekki lögð niður fyrr en 1797.
Eftir að kirkjan var aflögð var byggingin seld apótekaranum í Nesi og
mun hann hafa notað hana m.a. til að þurrka í lyfjagrös þar til hún fauk.