Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1995, Page 98
102
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
áhersla á að takmarka jarðrask en beita þess í stað fjarkönnun og aðferðum
fornvistfræði til að draga fram upplýsingar um hlutverk og gerð mannvirkja
og sögu mannvistar í Nesi. Hafa verið gerðar tilraunir með margskonar að-
ferðir, allt frá hitamyndatöku úr lofti til kortlagningar á fosfatmagni í tún-
inu, og er í mörgum tilfellum um algerar nýjungar í íslenskri fornleifafræði
að ræða. Nú þegar hefur gríðarmiklu af upplýsingum verið safnað um
mannvist og mannvirkjaleifar í Nesi og er líklega ekki ofsagt, að fyrir utan
þá staði sem grafnir hafa verið upp í heild, þá séu fáir minjastaðir á Islandi
jafn kyrfilega rannsakaðir og bæjarstæðið í Nesi.
Rannsóknum í Nesi er ekki lokið, en þar sem ekki er útlit fyrir að frekari
athuganir verði gerðar á kirkjustæðinu í bráð, verður í þessari grein gerð
grein fyrir helstu niðurstöðum úr uppgrefti í kirkjugarðinum 1995. Hér er
ekki um uppgraftarskýrslu að ræða en áætlað er að sú skýrsla verði birt
ásamt öðrum skýrslum um rannsóknir í Nesi í tímaritinu Archaeologica Is-
landica. Samhliða vettvangsvinnu var gerð athugun á ritheimildum um
kirkju og kirkjugarð í Nesi. Er þar fyrst og fremst um að ræða vísitatíur frá
17. og 18. öld en þær hafa að geyma margskonar vísbendingar bæði um
kirkjurnar og kirkjugarðinn.
Sá háttur er hér hafður á við framsetningu, að fyrst er gerð grein fyrir
helstu niðurstöðum uppgraftarins að því marki sem þær koma kirkjunni í
Nesi við. Þar á eftir eru raktar heimildir, fyrst um kirkjubygginguna og síð-
an um kirkjugarðinn, sem finna má í vísitatíum. Að lokum eru allar þessar
vísbendingar dregnar saman til að draga fram mynd af kirkjustæðinu og
stærð kirkjugarðsins.
Mörgum áleitnum spurningum um kirkju og kirkjugarð í Nesi er enn
ósvarað, en þó hefur með litlum tilkostnaði og lágmarksjarðraski tekist að
afmarka kirkjugarðinn og benda á kirkjustæðið. Þó að hlutverk þessarar
greinar sé fyrst og fremst að gera grein fyrir niðurstöðum rannsókna 1995
þá er það öðrum þræði einnig að benda á þann auð heimilda sem til er um
fornar byggingar. Það á bæði við um heimildir sem finna má á skjalasöfnum
- en fornleifafræðingar veigra sér oft við að kynna sér slíkar heimildir eða
vita alls ekki af þeim - og um heimildir sem lesa má út úr mannvistarleifum
í jörðu.
Rannsóknir í Nesi sumarið 1995
I ritheimildum eru engar vísbendingar um staðsetningu kirkjunnar í
Nesi. Ekki er vitað hvort kirkjan hefur alltaf staðið austan á bæjarhólnum
né hvort kirkjur þær sem byggðar voru 1675 og 1785 voru byggðar á eldri
grunnum eða við hliðina á eldri kirkjum.