Eimreiðin - 01.01.1895, Page 1
Brautin.
En ef við nú reyndum að 'brjótast það beint,
þó brekkurnar verði þar hærri?
Vort ferðalag gengur svo grátlega seint,
og gaufið og krókana höfum við reynt —
og framtíðar landið er fjærri.
Að vísu’ er það harmur, að vísu’ er það böl,
hvað við erum fáir og snauðir;
en það verður sonunum sárari kvöl
að sjá að við kúrum í þessari möl,
og allir til ónýtis dauðir.
Þar bíða þó óðöl hins ónumda lands
að entum þeim klungróttu leiðum:
sú friðkeypta ættjörð hvers frjálsborins manns,
sem felur hin skínandi sigurlaun hans
að baki þeim blágrýtis heiðum.
Og munið, að ekki var urðin sú greið
til áfangans þar sem við stöndum,
því mörgum á förinni fóturinn sveið,
er frumherjar mannkynsins ruddu þá leið
af alheimsins öldum og löndum.
Og opt hefur frægasta foringjans blóð
á fjöllunum klappirnar skolað,
en það hefur örvað og eggjað hans þjóð,
því alltaf varð greiðara þar sem hann stóð.
það blóð hefur blágrýtið holað.
i