Eimreiðin - 01.01.1899, Blaðsíða 89
89
þess ekki nema 12 klukkustundir. Menn hafa tekið ljósmyndir af
tunglinu og öðrum stjörnum, og stundum hafa menn fundið nýjar
stjörnur á myndunum, sem menn svo gátu séð í sjónpípu, er menn
vissu hvar þeirra var að leita. LMeð því að rannsaka liti ljóss
þess, er stjörnurnar senda frá sér, geta menn ráðið í, hver efni
séu í stjörnunum, og hafa þau reynst að vera hin hin sömu, sem
á jörð vorri. Náttúrufræðingar Norðurlanda hafa lagt töluverðan
skerf til rannsóknanna í öllum þessum fræðurn.
Hér skal nú ekki farið frekar út í rannsóknirnar í þessum
vísindagreinum, hversu þýðingarmiklar sem þær kunna að vera.
Aftur á móti skal minst nokkuð frekar á nýjustu uppgötvanir í
efnafræði og eðlisfræði, enda hafa þær eigi hvað minsta vísindalega
þýðingu, og langmesta þýðingu fyrir verklegar framfarir.
Merkilegustu uppgötvunina í efnafræði á síðustu árum hafa
þeir án efa gjört ensku náttúrufræðingarnir Raleigh lávarður og
Ramsay hákólakennari. Þeir fundu árið 1895 loftkent frumefni í
andrúmsloftinu, sem menn þektu ekki áður, og var það kallað
ARGON (hið aðgjörðalausa). Tildrög þessarar uppgötvunar var
tilviljun ein, eins og svo oft hefur komið fyrir áður í sögu vísind-
anna. Raleigh lávarður tók eftir því, að einn lítri (hér um bil sama
sem einn pottur) af köfnunarefni, sem dregið var úr andrúmsloftinu
og hreinsað, var ofurlítið þyngri en einn litri af köfnunarefni, sem
unnið var á annan hátt. Mismunurinn var raunar ekki nema
x/167 úr grammi (gramm er ^/500 úr pundi), en hann þóttist viss
um, að hann hefði mælt og vegið nákvæmlega; hann fór því að
leita að orsökum þessa óvænta mismunar ásamt með Ramsay há-
skólakennara. Loks komust þeir að því, að köfnunarefni það, sem
dregið var úr andrúmsloftinu, var ekki hreint, heldur var saman
við það dálítið af þessu nýja efni, sem er þyngra í sér en hreint
köfnunarefni, og olli það mismuninum. Svona gengur það líka
við flestar uppgötvanir; með því að rannsaka afbrigði komast
menn að nýjum sannindum. Náttúrufræðingurinn rekst á eitthvað,
sem hann á ekki von á, sem kemur ekki heim við skoðanir þær
eða reglur, sem menn þangað til höfðu fylgt; hann ályktar þá, að
annaðhvort sé skoðunin skökk og reglan röng, eða að honum
sjálíum hafi skjátlast. Hann heldur því áfram rannsóknunum, unz
hann finnur orsakir afbrigðisins, og annaðhvort gjörir hann þar
með nýja uppgötvun, eða hann gengur úr skugga um að honum
hefur skjátlast.