Eimreiðin - 01.01.1899, Blaðsíða 7
7
var latnesk málfræði daglegt brauð barnanna i skólunum, fyrst
orðmyndafræði, þá orðskipunarfræði, bragfræði o. s. frv. Þegar
fornritin voru lesin, var ekki hirt um að auðga andann á hugsana-
gnóttinni, heldur að safna saman glósum, orðtækjum, spakmælum
og dæmum, og rita það upp, til þess að geta soðið það saman
síðar og notað það við mælskuæfingar sínar í bundnu og óbundnu
máli bæði skriflega og munnlega. I mörgum skólum lærðu menn
aðeins hin fyrstu undirstöðuatriði í grísku. Móðurmálið var blátt
áfram útilokað frá skólunum, og var börnunum hegnt, er þau töl-
uðu það, jafnvel þótt utan kenslustunda væri. Skólinn, sem átti
að vera mannúðlegur og samkvæmur anda húmanismans, varð
gróðrarstía skaprauna og heimsku bæði fyrir lærisveina og kennara.
Og við fornmálakensluna á háskólunum voru fyrirlestrarnir að
sama skapi og að mestu leyti undirbúningur undir ræðuhöldin
og rökræðurnar, og lenti alt að lokum i slíkum fánýtum hégóma.
Það hlaut auðvitað að koma afturkast gegn þessu, og kom
það einkum á 18. öldinni. Það var margt sem stuðlaði að því:
sívaxandi áhrif frá Frakklandi, píetisminn (oftrúin), hinar nýju kenn-
ingar uppeldisfræðinnar, heimspekin nýja og náttúruvísindin, sem
þá voru að lifna, og svo hinar nýju þjóðlegu bókmentir, sem
brutust fram þrátt fyrir alla fornaldaraðdáunina. Fornmálakenslan
varð óvinsæl; málfræðin veslaðist upp við háskólana þýzku. Aftur
á móti hélt latínan hásætinu í hinum lægri skólum, en þó voru
henni sett nokkuð þrengri takmörk; móðurmálið og gagnfræðin
fóru að komast að. En ég get ekki orðlengt um þetta; aftur á
móti verð ég að minnast á þá endurnýjun húmanismans, sem
kom fram seinast á j 8. öld. Hún var runnin frá nýja háskólanum
i Göttingen og ruddi sér einkum til rúms á Þýzkalandi. Seinna
átti þessi stefna einkum heima í Halle og varð F. A. Wolf helzti
frömuður hennar. Fylgismenn hennar dáðust ákaflega að forn-
grískum mentum og fyrirmyndarþjóðinni fullkomnu, Grikkjum;
gekk þessi aðdáun stundum tilbeiðslu næst. Viðkvæðið hjá þeim
var, að menn skyldu kynnast vel bókmentum þeirra og samlaga
sig öllu lífi þeirra; þá myndu menn öðlast hina sönnu »ment-
un«, göfga fegurðartilfinning sína og huga sinn. Þessi hreyfing
vakti nýja gullöld fyrir málfræðina við háskólana; nú var hún
nálega sett í hásætið, en áður hafði hún verið þjónustukona guð-
fræðinnar. Grískan varð fortakslaust aðalmálið og nú lásu menn
hin grísku rit, til þess að kynnast efni þeirra og hugsunum, skilja