Morgunblaðið - 26.08.2001, Síða 17

Morgunblaðið - 26.08.2001, Síða 17
LISTIR MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 26. ÁGÚST 2001 17 Í KAUPMANNAHÖFN var á föstudag opnað fyrsta norræna safnið tileinkað nútíma glerlist. Undirbúningur að stofnun safns- ins hefur tekið mörg ár. Þar verða verk eftir alla helstu gler- listamenn Norðurlandanna, en einn Íslendingur, Vignir Jóhanns- son, á verk á opnunarsýningunni. Safnið er byggt inn í tvo neð- anjarðarvatnstanka, en tankarnir voru byggðir á sínum tíma í þeim tilgangi að safna góðu vatni fyrir Kaupmannahafnarbúa. Það voru þó Carlsbergverksmiðjurnar sem notuðu tankana lengst af til að geyma vatn til ölgerðar. Vignir Jóhannsson segir að unnið hafi verið að því í mörg ár að fá tank- ana til afnota fyrir safnið. Hann segir safnið mjög sérstakt, og mörg þau verk sem verða á opn- unarsýningunni sérstaklega búin til fyrir það. „Ég er búinn að vera að vinna í mínum verkum í á ann- að ár. Safnið er neðanjarðar, og það er raki hérna inni. Gólfið er blautt og rakinn speglast fallega í verkunum – þetta er mjög sér- kennileg stemmning.“ Íslensk stemmning í verkum Vignis Vignir segir mikinn heiður að því að hafa verið boðið að vera með á fyrstu sýningu safnsins. „Ég er að gera svolítið öðruvísi verk en hinir. Miðillinn hjá mér er hert gler sem ég brýt – ég safna sallanum svo saman og bræði hann upp á nýtt. Þannig heldur hann kristallaforminu – það sést að þetta er kurl og þetta er svolítið ískennt; minnir á ís eða vatn. Ég hef að undanförnu verið að vinna með svipað þema; vatn og polla og tímann og vatnið. Tíminn og vatnið er heiti á einu verka minna hérna.“ Vignir segir hafa skapast góðan samstarfsanda með þeim hópi sem stendur að sýningunni í gler- listasafninu og að þetta verði byrjun á meira samstarfi. „Við ætlum að setja saman sýningu sem á að ferðast um Norðurlöndin næstu 4–5 árin en svo ætlum við að vera með glersýningu úr þessu safni í nýja sigurboganum í París í nokkra mánuði á næsta ári.“ Blaðamaður er svolítið undr- andi á því að safni fyrir glerlist skuli hafa verið komið fyrir neð- anjarðar – gler er jafnan látið njóta sín í birtu. „Jú – það er von þú spyrjir. En þetta kemur vel út. Öll lýsing í safninu er mjög kont- rolleruð. Maður stendur í myrkri með ljós á bak við myndirnar, og samspil ljóssins og verkanna er hannað. Þetta er mjög dramatískt að sjá og gaman að koma þarna inn. Það má segja að þetta sé eins og gamall kastali með myrkum hvelfingum og stemmningin er dularfull. Margar af myndunum eru miðaðar við dagsbirtu, en í safninu er einungis notast við raf- ljós.“ Það var borgarstjórinn í Kaup- mannahöfn sem opnaði safnið í gær, en það heitir Cysternerne, Muséet for moderne glaskunst. Vignir Jóhannsson sýnir í nýju norrænu glerlistasafni Tíminn og vatnið eftir Vigni Jó- hannsson á sýningu í nýja gler- listasafninu í Kaupmannahöfn. Ískenndur glersalli – Tíminn og vatnið – sýndur neðanjarðar ÍSLENSKI arkitektinn og hönnuðurinn Sigurð- ur Gústafsson hefur hlotið hin sænsku Bruno Mathsson-verðlaun fyrir húsgagnahönnun sína. Er þetta í fyrsta skipti sem Íslendingur hlýtur verðlaunin, en að sögn dómnefndar féllu verð- launin honum í hlut fyr- ir húsgögn, „sem stöð- ugt bjóða upp á óvænta samsetningu hins formfasta og hins gáskafulla og órökræna.“ Hefur Sigurður við hönnun sína leitað fanga innan hugmynda- fræði módernismans og útfært á sinn persónulegan hátt. Sigurður nam arkitektúr og hönnun í Danmörku og Noregi á árunum 1983-1990 og rekur nú sína eigin arkitektastofu. Meðal þeirra muna sem hann hefur hannað má nefna stólana Tangó, Keflavík og ruggustólinn Rock’n Roll, en Sigurður kveðst við vinnu sína gjarnan leita hugmynda á æsku- slóðum sínum í sjávarþorpi á Norðurlandi. Verðlaunin nema 100.000 sænskum krónum, eða um 960.000 íslenskum krónum. Sigurði Gústafssyni veitt viðurkenning Sigurður Gústafsson Erindi um Gunnar Gunnarsson ÓSKAR Vistdal flytur erindi að Skriðuklaustri sem hann kallar „Gunnar Gunnarsson og Noregur“ í dag kl. 17.30. Óskar fjallar um þær viðtökur sem Gunnar og skáldverk hans fengu í Noregi á fyrri hluta 20. aldar og skrif norskra rithöfunda og gagnrýnenda um Gunnar. DJASSKVARTETTINN Dúett Plús leikur á Café Ozio í kvöld, sunnudagskvöld, kl. 21.30. Á efnisskránni eru klassískir djassstandardar í bland við annað, þ. á. m. nokkur íslensk þjóðlög. Dúett Plús á Ozio ♦ ♦ ♦

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.