Morgunblaðið - 03.07.2003, Blaðsíða 32
MINNINGAR
32 FIMMTUDAGUR 3. JÚLÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Það er mín eigin persónu-lega skoðun að gagn-rýni, viðhorf, aðsendargreinar og pistlar þarsem ritfærir menn fá að
láta ljós sitt skína, segja skoðanir
sínar, sé eitthvert áhugaverðasta
lesefni sem fyrir finnst. Ég hreint
iða í skinninu að fá að vita hvað
öðrum finnst um alla mögulega
hluti og ómögulega. Hvað finnst
þessum gagnrýnanda um kvik-
myndina sem ég sá í gær eða plöt-
una sem ég er að hlusta á núna?
Hvað hefur leiðtogi stjórnarand-
stöðunnar að
segja um síð-
ustu verk rík-
isstjórn-
arinnar? Hvað
hefur þessi
maður sem ég
hef aldrei
heyrt getið að segja um þetta mál
sem ég hef hvorki haft áhuga né vit
á fram að því, og hvað hefur hinn
náunginn sem skrifar undir dul-
nefni að segja um skoðanir gagn-
rýnanda plötunnar sem ég er enn
að hlusta á, afstöðu stjórnarand-
stöðuleiðtogans eða viðhorf náung-
ans sem ég er búinn að gleyma
hvað heitir en skrifaði um málið
þarna sem ég vissi ekkert um en
þó meira en áður, reyndar út frá
heldur einhliða forsendum. Já, ég
er meira að segja farinn að bera
mig eftir skoðunum sem viðraðar
eru í skjóli nafnleyndar á hinum
ýmsu spjallrásum og -þráðum á
gamla góða Veraldarvefnum. Ég
þrífst á skoðanaskiptum annarra,
læt mig þau miklu varða og tel það
staðfastlega miklu varða. Eða það
er allavega mín eigin persónulega
skoðun.
En hvaða máli skiptir það hvað
öðrum finnst? Einhverjum náunga
út í bæ sem maður þekkir ekki
einu sinni og maður veit vel að hef-
ur allt annan smekk en maður
sjálfur – á öllu. Hvað er maður að
eyða tíma í slíkt, að láta slíkar
skoðanir og skoðanir annarra al-
mennt sig svona miklu varða, ergja
sig, stuða og jafnvel særa.
– Hvað er þetta maður? Það
skiptir ekki máli hvað öðrum
finnst.
Eru þetta ekki hollráð sem mað-
ur hefur oftsinnis þegið með þökk-
um og finnst þá jafnan réttmæt
ábending? Þetta er jú bara, eftir
allt saman, skoðun einhvers eins,
sem á jafnan rétt á að hafa sínar
skoðanir og hver annar, þarmeð
talið maður sjálfur.
En að viðkomandi sé að básúna
þessar skoðanir sínar á torgum en
ekki maður sjálfur, kannski er
það einkum það sem ergir mest.
Hvað og hver segir að skoðanir
viðkomandi séu eitthvað merki-
legri eða réttari en manns eigin?
Og ef þær eru það ekki, hvað er
hann þá að viðra skoðanir sínar
fyrir opnum tjöldum? Ekki hefur
mér verið boðið það, enda ekkert
víst að maður myndi þiggja slíkt
boð? Hvaða áhuga ætti ég svo sem
að hafa á því að hrópa viðhorf mín
á torgum? Hver myndi líka hafa
áhuga þessum viðhorfum mínum?
Hvaða máli skipta þau? Ja, jafn-
miklu og viðhorf annarra svo sem,
sem reyndar skipta engu máli ef út
í það er farið.
Auðvitað skipta skoðanir máli.
Auðvitað skiptir máli að orðið skuli
vera laust, að sem flestir geti viðr-
að skoðanir sínar á opinberum
vettvangi, í prenti, á ljósvaka og á
Neti. Og á það jafnt við „ómerki-
legar“ sem „merkilegar“ skoðanir,
,„rangar“ sem „réttar“, öfgafullar
sem meinalitlar. Auðvitað á það að
vera réttur hvers og eins að tjá sig
svo lengi sem það meiðir ekki eða
brýtur í bága við lög og reglur. Og
auðvitað er eðlilegt að maðurinn
hafi áhuga á því að kynna sér þess-
ar skoðanir annarra og líka nauð-
synlegt. Þótt ekki væri nema til
þess að hrista upp í sínum eigin
fyrirfram ákveðnu skoðunum,
stuðla að því að maður viðhaldi
gagnrýnni hugsun. En þá verður
líka að hafa hugfast að viðhorf eru
bara viðhorf annars manns og ber
að varast að taka þau bókstaflega,
oftúlka þau og líta á sem stað-
reyndir eða alhæfingar. Auðvitað
alhæfir sá sem segir skoðun sína,
auðvitað fleygir hann fram fullyrð-
ingu: „BKI er besta kaffið í heimi.“
Það má alveg fullyrða slíkt undir
nafni. Samkeppnisráð hefur enn
ekki látið sig varða skoðanir ein-
staklinga og notkun þeirra á efsta
stiginu dýrmæta. Því er um að
gera að grípa gæsina, hika ekki við
að nota það, „Bítlarnir eru bestir“,
„Rolling Stones eru verstir“,
hljómar sterkar en Bítlarnir eru
betri og Stones (eitthvað) verri.
Málið er bara að rökstyðja nægi-
lega sitt mál og sé það gert er um
merkilega skoðun að ræða og les-
efni hið besta, alveg burtséð frá
hvort maður sé sammála fullyrð-
ingunni eður ei. Það er ekki til
neitt sem heitir rétt skoðun eða
röng á huglægum viðfangsefnum á
borð við listir, bara vel eða illa rök-
studd. „Nirvana er ofmetin hljóm-
sveit“ og „Sally Fields er víst besta
leikkonan“ eru huglægar fullyrð-
ingar en eru og verða aldrei stað-
reynd, því það er ómögulegt að
sannreyna þær. Og einum manni
getur vel fundist ákveðnir tón-
leikar sorglega lélegir á meðan
annar hrífst svo mjög að hann sér
ástæðu til að mótmæla op-
inberlega viðhorfi hins. Tvö ólík
viðhorf þar, en eiga bæði rétt á sér
– einfaldlega vegna þess að það
getur enginn sagt af eða á hvort
tónleikar hafi verið sorglegir eða
ekki. Á meðan skemmta hinir sér
konunglega við lestur þessara
ólíku viðhorfa jafnvel þótt fæstir
geti tekið afstöðu til málsins því
þeir voru ekki á umræddum tón-
leikum. Það eru nefnilega þegar á
botninn er hvolft þessu ákveðnu
viðhorf, umbúðalausu skoðanirnar
sem veita lesandanum mesta
ánægju. Fátt er fúlara en að lesa
eitthvað sem á að heita gagnrýni
eða viðhorf en er síðan bara eitt-
hvað innihaldslaust blaður, aumk-
unarverð flóttatilraun álitsgjafa
undan því að þurfa að taka afstöðu,
klór í bakkann skyldunnar vegna
miklu fremur en áhugans.
Þetta er allavega mín eigin per-
sónulega skoðun, sem er jú auðvit-
að ákveðið viðhorf, rétt eins og
hvað annað.
Þetta er
ákveðið
viðhorf
Fátt er fúlara en að lesa eitthvað sem á
að heita gagnrýni eða viðhorf en er síð-
an bara eitthvert innihaldslaust blaður,
aumkunarverð flóttatilraun álitsgjafa
undan því að þurfa að taka afstöðu …
VIÐHORF
Eftir Skarp-
héðin Guð-
mundsson
skarpi@mbl.is
✝ Einar Már Guð-varðarson fædd-
ist 9. febrúar 1954 í
Reykjavík. Hann lést
á heimili sínu í Hafn-
arfirði 24. júní síð-
astliðinn. Foreldrar
hans voru Guðvarður
Jónsson verslunar-
maður og hljóðfæra-
leikari, f. 10. júní
1916, d. 12. október
1977, og Þorbjörg
Guðmundsdóttir hús-
móðir, f. 4 apríl
1917, d. 9. júlí 1993.
Foreldrar Guðvarð-
ar voru Jón Bergsteinn Pétursson
skósmíðameistari, f. 28. janúar
1884 í Hraunum við Hafnarfjörð,
d. 29. júlí 1978, og Jóna Gísladótt-
ir húsmóðir, f. 16. febrúar 1890 á
Álftanesi, d. 22. nóvember 1980.
Foreldrar Þorbjargar voru Guð-
mundur Friðrik Guðmundsson
verslunarmaður, f. 6. október
1899 á Siglufirði, d. 30. janúar
1974, og Kristín Árnadóttir hús-
móðir, f. 1893 á Akureyri, d.
1955.
Systir Einars er Jóna Guðvarð-
ardóttir, f. 15. júní 1949. Dóttir
hennar er Hildur Ýr Jónsdóttir, f.
21. ágúst 1976. Hálfsystir Einars
er Erla Elísabet Jónatansdóttir, f.
16. október 1934.
Sambýliskona Einars var Matt-
hildur Halldórsdóttir, f. 16. júní
1954. Þau slitu samvistir.
Einar og Susanne Dorit Christ-
ensen, f. 9. febrúar 1956 í Freder-
iksberg í Danmörku, hófu sam-
búð 1984 og giftu sig 1994. Þau
slitu samvistir. Sonur þeirra er
Matthías Már, f. 23. júní 1995 í
Reykjavík.
Lazara Rosell var sambýlis-
kona Einars. Þau slitu samvistir.
Einar lauk stúdentsprófi frá
Menntaskólanum í Reykjavík
1974, lauk kennaraprófi frá
mynd- og handmenntadeild
Kennaraháskóla Íslands 1979,
stundaði kvikmyndanám í Kaup-
mannahafnarhá-
skóla 1980–81 og hjá
Arnold Eagle í New
York 1981-82. Hann
nam steinhögg á
Mani í Grikklandi
1985–90. Einar var
grunnskólakennari
um árabil, var skóla-
stjóri í Hrísey 1990–
91, vann við kvik-
myndagerð og
stundaði ritstörf áð-
ur en hann sneri sér
alfarið að högg-
myndalist 1990.
Hann kenndi í Kenn-
ara- og auglýsingadeild Mynd- og
handíðaskóla Íslands 1979–80, í
höggmyndadeild MHÍ 1996 og
1998 og hélt endurmenntunar-
námskeið í MHÍ 1998. Hann vann
útiverk í granít og kenndi stein-
högg í Kankaanpää-listaháskól-
anum í Finnlandi sumarið 1997.
Hann var höfundur og stjórnandi
skúlptúr- og umhverfislistaverk-
efnisins „PI for playground“
1999–2000 í Kakaanpää í Finn-
landi. Hann starfaði að list sinni á
Nýja-Sjálandi og í Japan 1991–92,
í Pietra Santa á Ítalíu 1995, 1997
og 1998. Síðustu árin var hann
búsettur meginhluta ársins í
Kyoto í Japan og vann að eflingu
menningartengsla Íslands, Norð-
urlandanna og Japans. Einar hélt
sína fyrstu einkasýningu 1984 og
eftir það hélt hann fjölda einka-
sýninga og tók þátt í samsýning-
um víða um heim. Einar vann til
verðlauna fyrir list sína og naut
starfslauna listamanna. Hann var
meðlimur í Myndhöggvarafélag-
inu í Reykjavík og Sambandi ís-
lenskra myndlistarmanna. Hann
var með vinnustofu í Ljósaklifi
við Hafnarfjörð þar sem hann
hélt sumarnámskeið og rak gall-
erí. Mörg verka hans eru í eigu
einkaaðila og opinberra stofnana.
Útför Einars fer fram frá Frí-
kirkjunni í Hafnarfirði í dag og
hefst athöfnin klukkan 13.30.
Einar Már var litli bróðir móður
minnar, en samt ekki nema ári eldri
en ég. Okkur fannst við nánast vera
bræður þegar við vorum að alast
upp. Við brölluðum margt saman en
ekki voru foreldrar okkar alltaf
ánægðir með uppátækin. Við sótt-
umst eftir að komast út á sjó með
trillukörlum og hjálpa kindakörlum
við gegningar eða sniglast í kring-
um hænsnabændur sem voru með
bú sín í útjaðri bæjarins. Þetta voru
fræðaþulir sem kenndu okkur að
taka veðrið, spá í gang himintungla
og búa í sátt við náttúruna. Við
pældum í leyndardómum lífsins,
fórum í leiki, smíðuðum bátkænu og
áttum saman dúfur. Flökkueðlið
kom snemma í ljós. Við fórum í
langar skoðunarferðir og þræddum
fornar leiðir um hraunin kringum
bæinn. Stundum fórum við hjólandi,
húkkuðum far með vörubílum eða
tókum strætó til Reykjavíkur, þar
sem mesta sportið var að fara í
Vesturbæjarlaugina.
Á unglingsárunum ferðuðumst
við á puttanum um landið, spáðum í
framandi tónlist, horfðum á torræð-
ar kvikmyndir, veltum fyrir okkur
mismunandi stefnum í myndlist og
bókmenntum og ræddum saman um
alla heima og geima.
Einar fékk útþrána í vöggugjöf
og notaði fyrsta tækifæri sem gafst
til að halda út í heim og kynnast
menningu annarra þjóða. Hann
dvaldi um hríð í fjallahéruðum Pak-
istans og ferðaðist um Suðaustur-
Asíu. Hann var fararstjóri á Ibiza,
áður en þau Matthildur settust að í
Kaupmannahöfn.
Einar var áhugamaður um kvik-
myndagerð og fór til New York til
að mennta sig í greininni. Hann
kynntist heimshornaflakkaranum
Ramsey og þeir héldu til Austur-
landa þar sem þeir gerðu heim-
ildamyndir um áhugavert fólk sem
þeir rákust á. Síðan keyptu þeir nið-
urnídda spunaverksmiðju í Kaup-
mannahöfn, gerðu hana upp og
breyttu í gallerí. Við hjónin vorum í
sumarfríi í Danmörku á þessum
tíma og tókum þátt í að koma hús-
unum í stand ásamt fleiri vinum
Einars.
Þegar verkinu var lokið ákvað
Ramsey að halda áfram að ferðast
um heiminn en Einar var um kyrrt í
Kaupmannahöfn. Hann vann að list
sinni og hafði ýmislegt á prjónun-
um. Hann kom öðru hvoru heim til
Íslands til að halda sýningar eða
hitta vini og ættingja. Það var sama
hversu langur tími leið á milli þess
að við hittumst, það var eins og tím-
inn stæði kyrr og vinskapurinn
hélst óbreyttur.
Einar og Susanne eiginkona hans
dvöldu í Grikklandi í fimm ár þar
sem þau fengust við höggmyndalist.
Eftir nokkurra ára dvöl úti í heimi
langaði Einar til að flytja heim.
Hann sótti um skólastjórastöðu í
Hrísey og þau Susanne fluttu til Ís-
lands. Stuttu seinna keyptu þau
Ljósaklif vestast í Hafnarfirði þar
sem þau breyttu gamalli skúrbygg-
ingu í vinnustofu og gallerí. Þau
hættu samt ekki að ferðast um
heiminn, sóttu Ramsey heim þegar
hann bjó á Nýja-Sjálandi, ferðuðust
til Japans og stunduðu steinhögg í
St. Petri á Ítalíu og í Grikklandi.
Sonurinn Matthías Már fæddist
sumarið 1995, en þegar hann komst
á skólaaldur ákvað Susanne að
flytja til móður sinnar í Danmörku
og hjúkra henni í veikindum henn-
ar. Einar var á ferðinni milli Ís-
lands, Danmerkur, Finnlands og
Japans.
Einar hafði unnið að eflingu nor-
rænna menningartengsla við Japan
undanfarin tvö ár. Það var draumur
hans að koma upp norrænni menn-
ingarmiðstöð í Kyoto þar sem hann
starfaði að list sinni.
Það er erfitt að sætta sig við að
svo hæfileikaríkur maður eins og
Einar var sé nú horfinn okkur. Ég
kveð Einar með sorg í hjarta, en
einnig með þakklæti fyrir þær góðu
og gefandi stundir sem við áttum
saman í nærri hálfa öld. Megi skap-
arinn vaka yfir Susanne og Matt-
híasi Má og öðrum ættingjum og
vinum Einars og styrkja þau í sorg-
inni.
Jónatan Garðarsson.
Gagnsæjum vængjum
flýgur vatnið til baka
gegn viðnámi sínu.
Hið rauðgula hnoða,
sem rennur á undan mér,
fylgir engri átt.
Handan blóðþyrstra vara
hins brennandi efnis
vex blóm dauðans.
Á hornréttum fleti
milli hringsins og keilunnar
vex hið hvíta blóm dauðans.
(Steinn Steinarr.)
Á landamærum lífs og dauða
duga einungis orð skáldsins.
Fregnin um andlát Einars Más
Guðvarðarsonar kom eins og reið-
arslag en þó ekki alveg óvænt. Þar
að baki lá margra mánaða barátta
hans við lífið og tilveruna. Ættingj-
ar, vinir og kunningjar sitja eftir
þrumu lostnir. Hugur hvers og eins
leitar yfir farinn veg með spurn-
ingar um það hvort frekara framlag
og afskipti hefðu getað breytt at-
burðarásinni. Þeim spurningum
verður aldrei svarað, en Einar átti
valkostina í þessari baráttu og á ör-
lagastundu valdi hann leið sem
hann taldi þá einu færu. Við verðum
að sætta okkur við ákvörðun hans
þótt erfitt sé.
Samskipti okkar bræðrasonanna
voru takmörkuð á yngri árum, Ein-
ar ólst upp í Hafnarfirði og ég á
Siglufirði. Einar lagðist snemma í
ferðalög og þegar ég fluttist til
Hafnarfjarðar dvaldist Einar Már
lengst af erlendis, meðal annars í
Danmörku, Grikklandi, Himalaja-
fjöllunum, Bandaríkjunum og Jap-
an. Þannig öðlaðist hann þekkingu,
yfirsýn og þroska heimsborgarans,
en hann sagði okkur nýlega að hann
ætti í raun engan fastan samastað.
Rætur hans voru þó einna helst í
Hafnarfirði, þar sem hann settist að
í Ljósaklifi fyrir um 10 árum ásamt
Susanne Christensen konu sinni.
Þaðan var ægifagurt útsýni sem gaf
sköpunarkrafti listamannsins góðan
byr, og á þessum stað komu þau
hjónin sér upp heimili, vinnuaðstöðu
og sýningarsal fyrir sig og aðra
listamenn. Okkur gafst þar með
tækifæri til að efla tengslin á ný.
Með hlýjum hug rifjast meðal ann-
ars upp fyrstu heimsóknirnar á
Ljósaklif þegar sonurinn Matthías
Már var nýfæddur.
Einar var gjörvilegur maður með
mikla reisn. Hlýlegt viðmót hans og
útgeislun gerði það að verkum að
hann átti auðvelt með að umgangast
fólk. Hann var jafnan glaðlegur í
fasi og gefandi í góðra vina hópi.
Óspart miðlaði hann öðrum af lífs-
sýn sinni og skoðunum sem fékk
okkur oft til að hugsa hlutina upp á
nýtt. Í eðli sínu var Einar hins veg-
ar einfari sem naut sín best fjarri
sefjandi áreitni nútímans.
Síðustu árin lagði Einar aftur af
stað út í heim. Líf hæfileikaríks
listamanns sem á alls staðar heima
en samt hvergi er fyllt frelsi og
tækifærum, en á sama tíma er slík
tilvist eflaust afar þung byrði að
axla, bæði fyrir hann sjálfan og
einnig fyrir þá sem standa honum
nær. Án þess að við þekkjum allar
aðstæður vitum við af samtölum
okkar við Einar síðustu mánuði að
líf hans var smám saman orðið hon-
um óbærilegt, þrátt fyrir þá aðstoð,
stuðning og meðferðarúrræði sem
honum buðust.
Hvert handtak í listsköpun högg-
myndamanns er örlagaríkt en á
þeim vettvangi er sjaldan aftur snú-
ið. Einar lauk lífi sínu með ákveðni
þess manns sem hefur alla tíð mót-
að hugmyndir sínar í stein. Við vott-
um Matthíasi Má, Susanne, Jónu,
Erlu, Hildi Ýr og öllum þeim sem
sakna Einars Más innilega samúð.
Jóhann Ágúst og Linn Getz.
EINAR MÁR
GUÐVARÐARSON