Morgunblaðið - 03.07.2003, Blaðsíða 17
HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 3. JÚLÍ 2003 17
!"
#$" %
&
'
((( )$)*+,#+
-& )
. &
STARFSMENN Reykjavíkurborg-
ar voru í óða önn að hreinsa götur
í rigningunni í Vesturbænum í
gær. Starfið gekk ágætlega en
stundum vill svo bregða við að fólk
skilur eftir bílana sína á götunum
svo götusópar komast við illan leik
framhjá þeim. Vesturbæingar
fengu tilkynningu um fyrirhugaða
hreinsun fyrir nokkru og voru þeir
vinsamlegast beðnir um að leggja
bifreiðum annars staðar en við
þær götur sem hreinsa átti. „Við
höfum verið að fá fólk til þess að
annað hvort leggja ekki bílum við
einhverja tiltekna götu eða ein-
göngu öðru megin götunnar þessa
ákveðnu daga. Þetta gerum við til
þess að komast að,“ segir Sigurður
Skarphéðinsson, gatnamálastjóri í
Reykjavík.
Hann segir að götur borgarinnar
séu hreinsaðar nánast allt árið,
meira að segja sé farið af stað yfir
vetrartímann þegar vel viðri og
það sé þíða. Í maí er mikið átak og
borgin hreinsuð eftir veturinn og
síðan er haldið áfram jafnt og þétt
út sumarið og fram á haust. Hann
segir að á sumrin séu send skila-
boð í hús og íbúum tilkynnt hvaða
dag gatan þeirra verði hreinsuð og
þeir vinsamlegast beðnir um að
leggja ekki í götunni á þeim tíma.
„Þetta er yfirleitt á vinnutíma og
þegar komið er út fyrir miðborgina
gengur þetta yfirleitt vel því það
er náttúrulega hagur íbúanna að
gatan þeirra sé hreinsuð,“ bendir
hann á.
Að sögn Sigurðar getur starfið
reynst erfiðara eftir því sem nær
dregur miðborginni, þar sem fólk
kemur annars staðar að og bíla-
stæði eru fá. Fólk leggur bifreið-
um sínum þar sem hægt er að
koma þeim fyrir og því er jafnvel
sama þótt gatan sé ekki hreinsuð
þar sem þetta er ekki „þeirra
gata“. Þegar hann er spurður
hvort það gerist reglulega að fjar-
lægja þurfi bifreiðar segir hann að
það hafi komið fyrir. „Við höfum
þurft að róta við bílum en ekki
fjarlægt þá þannig að eigandinn
sæki þá og þurfi að greiða þann
kostnað sem af því hlýst, en það
kemur aðeins fyrir að við höfum
kranabíl með okkur og hnikum bíl-
um til þegar við eigum ekki ann-
arra kosta völ,“ segir Sigurður.
Hann bætir jafnframt við að í mið-
borginni verði að setja upp skilti
við viðkomandi götu um að hún
verði hreinsuð á tilteknum tíma, en
í úthverfunum séu tilkynningarnar
í hús látnar nægja. „Það er full
ástæða til þess að vekja athygli á
þessu til að fá fólk til þess að virða
þessa ósk okkar um að leggja ekki
á tilteknum stað á tilteknum tíma.“
Skelfileg umgengni
eftir skemmtanir
Sigurður leggur einnig áherslu á
að um helgar og eftir hátíðisdaga
bíði hreinsunardeildarinnar mikið
verk. Hann segir það afar fróðlegt
að sjá hvernig fólki skilji við
miðborgina sína eftir skemmtanir,
sérstaklega þegar vel viðrar, þá sé
umgengnin alltaf skelfileg. „Þetta
er alltaf sama vandamálið. Fólk fer
út með bjórglös sem brotna og
síðan er mikið um umbúðir utan af
ýmsum mat, samlokum, pizzum og
svo framvegis. Ef það er sæmilega
hlýtt og þurrt þá komumst við ekki
að til þess að þrífa fyrr en á milli
fjögur og fimm á morgnana.
Mannfjöldinn er það mikill að við
leggjum ekki í það að fara inn með
þessi þungu og stóru tæki. Það er
oft á tíðum alveg með herkjum að
við náum að þrífa það mesta áður
en fólk fer aftur á stjá milli átta og
níu,“ segir hann.
Morgunblaðið/Jim Smart
Götur í Vesturbænum voru hreinsaðar í gær og var Skildinganesið þeirra á
meðal. Ekki virtu allir bíleigendur boð um að leggja annars staðar.
Erfiðara að
hreinsa göturnar
nær miðborginni
Reykjavík