Morgunblaðið - 02.02.2005, Blaðsíða 7
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 2. FEBRÚAR 2005 7
FRÉTTIR
ÍTALSKA verktakafyrirtækið Impregilo
hefur verið sýknað af kröfu um greiðslu á
3,4 milljónum króna vegna vangoldinna
launa viðskiptafræðings sem vann hjá fyr-
irtækinu í rúmlega sex mánuði árið 2003.
Samkvæmt munnlegum ráðningarsamn-
ingi skyldi maðurinn fá 300.000 krónur í
laun á mánuði en hann taldi að þar sem ekki
var samið um það sérstaklega, að ekki yrði
greitt vegna yfirvinnu, skyldi hann fá greitt
vegna hennar. Því hafnaði Impregilo og féll
dómurinn fyrirtækinu í vil.
Maðurinn var ráðinn til starfa hjá Imp-
regilo með munnlegum samningi í apríl
2003 en ekki var gerður skriflegur ráðning-
arsamningur. Fyrstu tvo mánuðina vann
hann í Reykjavík en síðan að Laugarási við
Kárahnjúka. Unnið var sex daga vikunnar,
fjórar vikur í senn og þá fimmtu var frí, sem
var greitt. Í ágústmánuði 2003 fékk hann
afhent uppkast af samningi og var gert ráð
fyrir að laun hans væru 300.000 krónur á
mánuði, óháð vinnutíma og vinnuframlagi,
en jafnframt var tekið fram að um réttindi
og skyldur skyldi fara samkvæmt virkjana-
samningi.
Kröfugerð starfsmannsins laut í fyrsta
lagi að því að hann fengi greidda yfirtíð fyr-
ir starfstíma sinn hjá stefnda frá apríl til
október 2003. Þá var gerð krafa um laun í
uppsagnarfresti sem og vangoldið orlof auk
frítökuréttar. Dómkrafan byggðist á tíma-
skriftum mannsins, staðfestum af stéttar-
félagi hans, Verzlunarmannafélagi Reykja-
víkur.
Ber halla af aðgerðarleysi
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir
að samningsdrög er afhent voru manninum
í ágústmánuði beri með sér að um föst laun
hafi verið að ræða og sérstaklega tekið
fram að yfirvinna væri innifalin í mánaðar-
legri greiðslu. Maðurinn hafi ekki hreyft
mótmælum við móttöku launaseðlanna svo
sannað væri. Hefði slíkt þó verið eðlilegt, ef
ráðningarsamningurinn hefði verið á þá
lund, að greitt yrði sérstaklega fyrir yfirtíð.
Þá hafi liðið tæplega ellefu mánuðir frá því
hann fékk fyrsta launaseðilinn í hendur og
þar til hann gerði fyrst, með sannanlegum
hætti, kröfu um að fá greidda yfirvinnu. Að
mati dómsins yrði stefnandi að bera hall-
ann af aðgerðarleysi sínu.
Einnig taldi dómurinn rétt að líta til þess
ráðningarforms sem Impregilo upplýsti að
hafi viðgengist hjá fyrirtækinu. Þannig hafi
enginn starfsmaður verið ráðinn með því
fyrirkomulagi er maðurinn krafði um í máli
þessu.
Í ljósi þess leit dómurinn svo á að máls-
aðilar hafi samið um föst laun sín á milli.
Þótt vinnuframlag stefnanda hafi verið
mun meira en hann gerði ráð fyrir breytti
það því ekki, að um samning var að ræða
milli málsaðila, sem báðir voru bundnir af.
Að mati dómsins hafi manninum ekki tekist
að sýna fram á að honum bæri greiðsla
vegna yfirvinnu. Þá hafi hann heldur ekki
sýnt fram á, að samningurinn væri ósann-
gjarn þannig að hann væri ógildur lögum
samkvæmt.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari
kvað upp dóminn. Björn L. Bergsson hrl.
flutti málið af hálfu viðskiptafræðingsins en
Þórarinn V. Þórarinsson hdl. var til varnar
fyrir Impregilo.
Átti ekki rétt á yfirvinnu-
greiðslum frá Impregilo
Viðskiptafræðingur
sem vann á Kára-
hnjúkum tapaði máli
gegn fyrirtækinu
NIÐURSTÖÐUR fylgi-
skönnunar Þjóðarpúls Gall-
up, þar sem Samfylkingin
hefur bætt við sig fjórum pró-
sentustigum frá seinasta
mánuði, sýna að umræða um
framboð til formennsku í
flokknum hefur ekki skaðað
Samfylkinguna, heldur þvert
á móti aukið áhuga fólks á
flokknum og bætt við fylgi
hans. Þetta er mat Ingibjarg-
ar Sólrúnar Gísladóttur,
varaformanns Samfylking-
arinnar.
Ingibjörg Sólrún segir nið-
urstöður könnunarinnar
mjög athyglisverðar. „Þær
sýna að Samfylkingin er að
bæta við sig fylgi, sem gengur þvert á ýmsar fagspár um
að umræða um formannsframboð myndi skaða Samfylk-
inguna,“ segir hún.
Ingibjörg Sólrún segist sjálf hafa verið þeirrar skoðunar
að kosningar um formannsembættið myndu ekki skaða
flokkinn. ,,Mér finnst það vera að koma á daginn með þess-
ari könnun að þær virðast auka áhuga fólks á Samfylking-
unni og hafa aukið stuðninginn við hana.“
Formannskjör í Samfylkingu
Eykur áhuga
á flokknum
Ingibjörg Sólrún
Gísladóttir