Morgunblaðið - 02.02.2005, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 02.02.2005, Blaðsíða 12
12 MIÐVIKUDAGUR 2. FEBRÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR Sögufélagið efndi til málþings-ins í tilefni af útgáfu á þrem-ur bindum ritverksinsStjórnarráð Íslands 1964– 2004. Sérfræðingar á sviði stjórn- sýslu, sagnfræði og stjórnmála voru fengir til að gefa álit á verkinu og var umsögn þeirra almennt jákvæð. Þó kom gagnrýni fram á efnistök, þau hefðu mátt vera gagnrýnni og verk stjórnsýslunnar ekki tekin til ít- arlegrar greiningar. Reynt væri að gæta ýtrasta hlutleysis og þetta væri ekki saga mistaka og spillingar. Þetta væri „opinber saga hins opinbera“, eins og einn fyrirlesara tók til orða. Í upphafi málþingsins rakti Loftur Guttormsson, forseti Sögufélagsins, aðdraganda að ritun verksins, sem gefið er út í tilefni af 100 ára afmæli Stjórnarráðs Íslands. Ákvörðun um samningu ritsins var tekin af stjórn- völdum árið 1999 en það er hugsað sem framhald á tveggja binda verki, Stjórnarráð Íslands 1904–1964, eftir Agnar Klemenz Jónsson sem kom út árið 1969. Ritstjórn verksins nú skip- uðu Björn Bjarnason dóms- málaráðherra, sem var formaður, Heimir Þorleifsson og Ólafur Ás- geirsson en ritstjóri er Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur. Loftur sagði eftirspurn eftir rit- verki sem þessu hafa verið orðna mikla. Undir lok síðustu aldar hefði verið orðið aðkallandi að skrá sögu ríkisvaldsins og stjórnsýslunnar til vorra daga. Sögufélagið hefði lýst áhuga á að koma að verkinu og því hefði verið vel tekið. Úr hefði orðið að félagið yrði útgefandi ritverksins og í samráði við ritstjórn hefði þótt við hæfi að efna til málþings 1. febrúar í ár, einu ári frá því að hátíðarhöld hóf- ust vegna heimastjórnarafmælisins. Frekari rannsókna þörf Fyrstur álitsgjafa tók til máls dr. Guðni Th. Jóhannesson sagnfræð- ingur, sem fjallaði um verkið í heild sinni frá sjónarhóli samtímasögurit- unar. Hann sagði ritverkið vera mik- ið að umfangi og vel í lagt. Rökræða mætti um ýmislegt sem fram kæmi í bókunum, s.s. efnistök og efnisval, og spyrja sig m.a. þeirrar spurningar hvort svona rit ætti yfirleitt rétt á sér þó að það væri vel unnið. Rætt hefði verið um mikinn kostnað við það og aðkomu ríkisvaldsins að svona bóka- útgáfu. Hann sagði það ljóst að ríki þyrfti að eiga sögu. Hér væri á ferð- inni hefðbundin byggðasaga, saga byggðarlagsins Íslands. Hins vegar væri ekki búið að segja söguna alla, fræðimenn þyrftu að leggja í meiri rannsóknir og frekari greiningu og gagnrýni. Í bókunum mætti lesa hvatningu í þá veru frá ritstjóra. Guðni sagði að í ritverkinu væru verk Stjórnarráðsins ekki tekin til rækilegrar gagnrýni eða greiningar. Reynt hefði verið að gæta ýtrasta hlutleysis, þetta væri opinber saga hins opinbera. Þetta væri ekki saga mistaka, innanhússátaka, sérhags- muna, afturhaldssemi, fordóma eða jafnvel spillingar. Það hefði líklega ekki þótt við hæfi í riti sem þessu. Guðni sagði sögu Stjórnarráðsins frá 1964 vera okkar samtímasögu. Upp hefðu komið erfið álitamál í seinni tíð og vandkvæðum bundið að leggja fram greiningu á pólitískum samtímamálum. Hæpið þætti að skrifa á fræðilegan hátt um atburði sem stæðu okkur nær í tíma. Sagn- fræðingar ættu hins vegar ekki að láta nýliðna tíma vera, þeir væru t.d. alveg jafn færir til þess og frétta- menn og stjórnmálamenn og þeir gætu vel skipt um skoðun síðar meir. Um heimildaöflun verksins sagði Guðni að hann hefði viljað sjá fleiri munnlegar heimildir, t.d. með við- tölum við embættismenn. Fram kæmi í inngangi að verkinu að tími til viðtala hefði verið af skornum skammti en Guðni sagði að almennt skorti á þennan þátt við heim- ildaöflun í landinu. Nefndi Guðni sem dæmi að víða erlendis væri markvisst verið að safna munnlegum heim- ildum og samkomur „sjónarvotta“ færu fram. Hér á landi mætti t.d. safna munnlegum heimildum um þjóðarsáttina 1990 og þingrofið árið 1974. Guðni sagði vilja vera fyrir hendi innan sagnfræðiskorar Há- skóla Íslands til að gera þetta. Þegar væri kominn vísir að þessu í hand- ritadeild Landsbókasafns Íslands. Þar væri verið að safna einkaheim- ildum frá stjórnmálamönnum og fleiri aðilum í þjóðfélaginu. Höfundar Stjórnarráðssögunnar hefðu haft mikið gagn af slíku safni, sem og þeir sem ætluðu að rannsaka viðfangs- efnið frekar í framtíðinni. Gagnlegt fyrir endurbætur á stjórnsýslu borgarinnar Helga Jónsdóttir borgarritari fjallaði um 1. bindið, Skipulag og starfshættir. Aðalhöfundar þess eru Ásmundur Helgason lögfræðingur og Ómar H. Kristmundsson stjórn- sýslufræðingur. Þar er m.a. rakin þróun Stjórnarráðsins og yfirlit yfir sögu ráðuneytanna. Helga sagðist hafa haft mikla ánægju af lestrinum. Hún hefði kannast við margt í bókinni, enda hefði hún í störfum sínum víða komið við í stjórnsýslunni, bæði hjá ríki og nú borginni. Taldi hún mörgum spurningum vera svarað en ritið vekti einnig fleiri spurningar. Ótrú- legt væri t.d. að lesa hvernig Stjórn- arráðið hefði náð að þróast fram til 1944 og agi og festa hefði skapast. Einnig hefði verið fróðlegt að lesa af hverju Hagstofan væri flokkuð meðal ráðuneyta. Stofnunin ætti ekki að vera það en af lestrinum mætti að nokkru leyti skilja af hverju þetta var gert í upphafi. Helga sagði sögu Stjórnarráðsins og þær breytingar sem gerðar hefðu verið á stjórnsýslunni vera gagnlega heimild og fyrirmynd fyrir Reykja- víkurborg sem nú væri að end- urskipuleggja sitt stjórnkerfi. Svipuð markmið væru uppi hjá borginni nú og voru hjá ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar árið 1983 þegar „umbótahugsun“ hefði fyrst komið fram í opinberri stjórnsýslu. Helga sagði ritverkið vera vandað og vel sett fram, gagnlegt og að- gengilegt rit um samtímann og sögu Stjórnarráðsins. Aðstandendur verksins ættu þakkir skildar fyrir vönduð vinnubrögð og hún hefði ekki komið auga á neinar villur. Aðgengilegt yfirlit en takmark- að fræðilegt og hagnýtt gildi Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, fjallaði um 2. bindið, Saga ríkisstjórna og helstu fram- kvæmdir til 1983. Höfundar þess eru Ólafur Rastrick sagnfræðingur og Sumarliði R. Ísleifsson. Svanur sagði samræmi hafa verið í efnistökum og skipting á tímabilum eðlileg, þ.e. með Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks til ársins 1971 annars vegar og hins vegar um tímabilið 1971–1983 þegar fimm ríkisstjórnir og jafnmörg stjórnarmynstur voru við völd í landinu. Svanur sagði það fara í taugarnar á sér þegar hann heyrði ummæli í þá veru að sagnfræðingar og fræðimenn gætu ekki skrifað samtímasögu sök- um tengsla og nálægðar við viðfangs- efnið. Fræðimennska gengi einmitt út á hlutdrægni og fræðimenn gætu vel tekið að sér að skrifa um samtím- ann. Undraðist hann einnig hve fræðimenn væru hræddir við að rannsaka og fjalla ítarlega um valda- tíma Viðreisnarstjórnarinnar. Um kosti bindisins sagði Svanur það innihalda greinargott og að- gengilegt yfirlit yfir viðfangsefnið. Um ómissandi handbók væri að ræða. Textinn væri læsilegur en á honum stofnanabragur á stundum, heimildanotkun væri traust, upplýs- ingagildið umtalsvert og í bókinni væri að finna nokkrar skarplegar at- hugasemdir höfunda, m.a. þá að þing- kosningarnar árið 1963 hefðu verið einu kosningarnar á 20. öld þar sem mögulegir meirihlutaflokkar gengu bundnir til kosninga. Þetta hefði ekki gerst í kosningunum 1967 eins og margir hefðu haldið fram. Erlendis teldist það víða til tíðinda ef flokkar gengju ekki bundnir til kosninga. Jafnfræmt væri merkilegt að lesa á einum stað um leynilegar bókanir milli stjórnarflokkanna árið 1980, sem fram kæmi í viðtali við Svavar Gestsson. Stjórnarflokkarnir hefðu við myndun ríkisstjórnar gert þrjár bókanir um víðtækt neitunarvald þeirra til ákveðinna málaflokka, bók- anir sem ekki hefðu komið fram á sín- um tíma. Þetta væru að hans mati mikilvægar upplýsingar. Svanur sagði það einnig koma fram í ritinu hve Búnaðarsamband Íslands hefði haft mikið vald í land- búnaðarmálum. Það hefði í raun ver- ið ígildi ráðuneytis og yfirstjórn land- búnaðarmála hefði verið í Bændahöllinni við Hagatorg. Vankantar 2. bindis að mati Svans voru þeir að samanburð vantaði á þeim tveimur tímabilum sem tekin voru fyrir. Í bókina vantaði heild- armynd af helstu einkennum og þró- un lýðræðis og ríkisvalds á Íslandi ár- in 1959–1983. Fjalla hefði mátt meira um þróun þingræðisins og áhrif aðila utan þingræðiskerfisins, litið væri nánast framhjá stöðu embættis- manna gagnvart stjórnmálamönnum og þróun fyrirgreiðslustjórnmála, m.a. mannaráðningum hjá hinu op- inbera. Ástæða hefði verið til að rannsaka tengsl milli fram- kvæmdavalds og Alþingis á mismun- andi tímum. Einnig hefði t.d. mátt kanna áhrif formennsku Geir Hall- grímssonar í utanríkismálanefnd árin 1979–1983, þegar hann var í stjórn- arandstöðu. Niðurstaða Svans var að í 2. bindinu væru útskýringar takmark- aðar, fræðilegt og hagnýtt gildi væri takmarkað og spyrja mætti þeirrar spurningar fyrir hverja ritverkið væri skrifað. Engin togstreita væri milli fræðilegrar og hagnýtrar sögu, góð fræði greindu um leið orsök og afleiðingu. Fræðimönnum bæri að byggja á kenningum og takast á við þær í störfum sínum. Í umræðum að loknu erindi Svans minnti Björn Bjarnason á, sem við- staddur var málþingið, að ritstjórnin hefði tekið meðvitaða ákvörðun um að halda ritun á þróun þingræðisins utan við þetta verk. Alþingi hefði ver- ið bent á að beita sér fyrir sögu þing- ræðisins. Tók hann undir með Svani að fara þyrfti sérstaklega yfir þennan þátt sögunnar. Áherslur höfunda mismunandi Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræð- ingur hélt loks erindi á málþinginu um 3. bindið, Saga ríkisstjórna og helstu framkvæmdir 1983–2004, en höfundar þess eru Sigríður K. Þor- grímsdóttir sagnfræðingur og Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur. Kristín sagði í upphafi að nærvera sín við stjórnmálin, sem þingmaður og varaþingmaður Kvennalistans í þrjú kjörtímabil, litaði óhjákvæmi- lega umfjöllun sína. Það væri hlut- verk þingmanna að veita fram- kvæmdavaldinu aðhald og því fylgdust fáir jafn grannt með því sem gerðist innan stjórnkerfisins og þing- menn. Það væru einmitt áhrif Alþing- is, einstakra þingmanna og stjórn- arandstöðunnar á sögu Stjórnarráðsins og stjórnmálanna sem sér fyndist vanta í bókina. Einn- ig hefði eitt og annað vafist fyrir sér varðandi áherslur höfundanna á ein- stök mál. Kristín sagði þetta tímabil, 1983– 2004, hafa verið tíma pólitískra átaka og mikilla þjóðfélagsbreytinga, ekki síst á sviði efnahagsmála. Í fyrri hluta bókarinnar færust Sigríði skrif- in vel úr hendi. Að mestu leyti tækist henni vel að ná utan um þá átakatíma sem voru frá 1983–1991. Síðara tíma- bilið, frá 1991, væri mun rólegra en hið fyrra en Jakob kæmist vel frá að lýsa þessum tímum. Hann væri hins vegar bundinn af því hve skammt væri um liðið og því erfitt að dæma eða leggja mat á áhrif einstakra að- gerða eða laga. „Mér finnst reyndar bera meira á því hjá Jakobi en Sigríði hve áhersla er mismikil á einstök mál og hvernig stundum er sagt frá mótrökum eða andófi og stundum ekki,“ sagði Krist- ín og spurði sig m.a. þeirrar spurn- ingar hvort eitthvað í sögunni ætti eftir að sýna að það hefði skipt mun meira máli en það sem fengi mesta athygli í bókinni. Kristín sagði að lengi mætti velta vöngum yfir því hvernig ætti að skrifa sögu sem þessa. Ætti hún að vera gagnrýnin og leggja mat á stjórnarhætti eða ætti hún fyrst og fremst að greina frá þróun Stjórn- arráðsins og helstu viðburðum í tíð hverrar ríkisstjórnar? Mörkuð hefði verið sú stefna að bækurnar hefðu að geyma heildaryfirlit yfir sögu Stjórn- arráðsins og vel hefði tekist til í þeim efnum. Mikill fengur væri að þessum bókum. Sögufélagið efndi til málþings um ritverkið Stjórnarráð Íslands 1964–2004 Ekki saga mistaka og spillingar Morgunblaðið/Jim Smart Fyrirlesarar á málþinginu voru almennt sammála um að vandað hefði verið til verka í sögu Stjórnarráðs Íslands en efnistök voru þó gagnrýnd. Á fremsta bekk hlýða Kristín Ástgeirsdóttir, Helga Jónsdóttir, Svanur Kristjánsson og Guðni Th. Jóhannesson á forseta Sögufélagsins setja málþingið í gær. 1.591 blað- síða, 4,5 kíló og 971 nafn GUÐNI Th. Jóhannesson sagðist hafa gert óvísindalega könnun á ritverkinu og mælt þyngd þess og umfang. Í ljós kom að bindin þrjú eru 4,5 kíló að þyngd, helmingi þyngri en ævisaga Halldórs Laxness, og blaðsíðurnar 1.591 að tölu. Einnig skoðaði hann nafna- skrána sérstaklega og taldi þar 971 nafn, meira en helm- ingi fleiri en í tveimur bindum Agnars Kl. Jónssonar. Í bind- unum þremur er Ólafur Jó- hannesson oftast nefndur til sögunnar, eða 76 sinnum, þá Bjarni Benediktsson 55 sinn- um og Steingrímur Her- mannsson 54 sinnum. Davíð Oddsson kemur 32 sinnum fyr- ir í bindunum. Á málþingi Sögu- félagsins um ritun á sögu Stjórnarráðsins var kallað eftir skipu- legri söfnun munn- legra heimilda. Deilt var um samtímasög- una og aðkomu fræði- manna að henni.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.