Morgunblaðið - 13.02.2005, Síða 10

Morgunblaðið - 13.02.2005, Síða 10
É g hafði svo sem sagt það áður en ég kom í menntamálaráðuneytið, að það er ráðuneyti framtíðarinnar. Þau málefni, sem hér er fjallað um vísa flest til framtíðarinnar; skólamálin til dæmis snerta framtíð barnanna okkar. Reyndar tengjum við fortíðina við nútíð og framtíð, en ákvarðanir eru ekki teknar til skamms tíma, heldur erum við að marka stefnu til framtíðar. Það var skemmtilegt að koma í ráðuneytið á þessum tíma- punkti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með það um árabil og unnið margt til góða. Einstaklingar á undan mér hafa viðhaldið og framfylgt stefnu Sjálfstæðisflokksins og komið með jákvæðar breytingar inn í skólakerfið. Minn tími hér hefur liðið hratt og margt hefur gerzt. Skóla- málin hafa verið mikið til umræðu og þróunin verið hröð. Það eru miklar breytingar að eiga sér stað á háskólastiginu og mikl- ar framundan á framhaldsskólastiginu og raunar skólakerfinu öllu. Sömuleiðis hefur verið mikil gerjun í menningarlífinu og mörg spennandi verkefni þar sem ég hef fengið að kljást við. En ætli fjölmiðlamálið og kennaraverkfallið séu ekki fyr- irferðarmestu málin, þegar ég lít um öxl.“ – Sjö vikna kennaraverkfall hefur varla verið óskastaða ný- bakaðs menntamálaráðherra? „Nei. Þetta var afskaplega erfiður tími fyrir alla og ekki sízt kennara og fjölskyldur skólabarnanna. Ég vona bara að við lærum öll af þeirri erfiðu reynslu, sem verkfallið var. Ég tel einnig rétt að samningsaðilar á þessu þýð- ingarmikla sviði geri sér far um að tala saman á samningstím- anum, þannig að menn láti ekki bara sverfa til stáls, þegar samningar eru lausir. Í dag finnst mér andrúmsloftið nokkuð jákvætt og allir á einu máli um að halda áfram. Það skiptir ákaflega miklu máli að um- hverfið sé þannig að sátt geti skapast um skólastarfið.“ – Nú lézt þú þau orð falla í miðju verkfalli að ef til vill mætti skoða það, hvort flytja ætti grunnskólana aftur yfir til ríkisins. „Já. Ég lét þessi ummæli falla í fjórðu eða fimmtu viku verk- falls fyrst og fremst til þess að reyna að hreyfa við hlutum, enda ekki sjálfgefið að ákveðið fyrirkomulag sé við lýði. Persónulega tel ég að sveitarfélögin hafi staðið sig nokkuð vel við rekstur grunnskólans, en mér fannst miður að horfa upp á það, hvað lítill gangur var í viðræðum kennara og sveitarfé- laganna. Það var von mín að með því að slá þessu fram mætti hreyfa aðeins við hlutunum.“ – Og gerði það það? „Ég held að það hafi alla vega ekki tafið samningaviðræð- urnar!“ – Þú nefndir líka fjölmiðlalögin. Þar lentir þú í miklum darr- aðardansi. „Jú, það er rétt og það voru fleiri en ég sem lentu í þeim darraðardansi, eins og þú segir. Í raun allt samfélagið sem er umhugsunarefni. En eftir á er það óneitanlega skondið að upplifa það í dag, að margir tala um að það þurfi einhvern ramma utan um fjöl- miðlana í ljósi þróunar á fjölmiðlamarkaðnum. Menn horfa á veruleikann í Símanum og Skjá 1 og Norðurljósum og Og Voda- fone. Í sambandi við fjölmiðlalögin hefði aðferðafræði okkar kannski átt að vera með öðrum hætti, en menn sáu náttúrlega ekki fyrir, að til væru þau öfl sem sneru málinu eins og það fór. En vonandi vilja menn í kjölfarið leita sátta ef menn meina eitthvað af því sem sagt var og nú er ný fjölmiðlanefnd að skoða málið. Upphaflega ætlaði ég að hafa hana fimmmanna, en stjórnarandstaðan gat ekki komið sér saman um tvo fulltrúa, svo ég fjölgaði nefndarmönnunum í sjö. Nú hefur formaður nefndarinnar beðið um lengri frest og það var sjálfsagt að veita hann í von um að það fáist niðurstaða í málið, sem sátt verður um.“ Nægilegt svigrúm til styttingar náms – Ertu mikið fyrir umræðuna? „Ég er ekki frekar en aðrir á móti umræðu sem skilar ein- hverju og byggist ekki einvörðungu á klisjum eins og því miður vill oft verða. Það þarf oft að takast á um mál. Þá mega menn ekki kikna í hnjánum, þótt eitthvað blási á móti.“ – Styttingu náms í framhaldsskólunum ber hátt í þínu starfi þessa dagana. Ertu búin að fara í alla framhaldsskólana? „Nei en það styttist í það. Þeir eru 28 og á föstudag fór ég í Iðnskólann í Hafnarfirði, sem var minn 19. Ég á því 9 heim- sóknir eftir. En þessar skólaheimsóknir eru kærkomið tækifæri til þess að útskýra hvað felst í tillögum vinnuhópanna og að auki þær áherzlur sem ég legg í þetta fyrirhugaða verkefni. Það skýrist margt á svona fundum og ég og samstarfsmenn mínir höfum fengið mjög dýrmætar upplýsingar frá kennurum, sem munu koma til góða við endurskoðun aðalnámskrárinnar. Við munum síðan fara gaumgæfilega yfir þessar ábendingar. Meginmálið er að flana ekki að neinu og vanda til verksins með það í huga að Ísland verði á meðal fremstu þjóða í menntamálum. Til þess höfum við alla burði. Á síðasta áratug hafa orðið breytingar á grunnskólanum og framhaldsskólanum; grunnskólinn var lengdur um tvö ár og framhaldsskólinn um heila önn; 12 vikur. Það er því mikill sveigjanleiki í kerfinu og þar með svigrúm til að þétta náms- efnið og færa á milli, koma í veg fyrir tvíverknað og nýta tím- ann betur. Þegar ég kom í ráðuneytið lagði ég áherzlu á að skoða skóla- gönguna og kerfið sem eina heild; frá leikskóla til loka fram- haldsskóla. Samhliða þessu verður aukin áherzla á frekari sam- fellu og samræður á milli skólastiga, ef svo má að orði komast. Þýðingarmikill póstur í þessu ferli er síðan endurmenntun kennara. Raunar tel ég mikilvægt að við endurskoðum nám kennara í heild með það fyrir augum að styrkja það enn frekar vegna breyttra aðstæðna og krafna í samfélaginu. Ég hef meðal annars rætt þetta við Kennarasambandið og er nú að skipa nefnd sem mun fara yfir þessi mál í heild sinni. Ég geri mér vonir um að með öflugri kynningu á breyttri námsskipan til stúdentsprófs munu menn sjá að það hefur verið unnið á faglegum nót um og að það er nægilegt svigrúm fyrir hendi til þess að hægt sé að stytta námstímann í framhaldsskól- anum um eitt ár.“ – Ráðherra íþróttamála hefur væntanlega fylgzt með HM í Túnis? „Já og ég gerði mér meiri vonir um árangur okkar manna. En ég ber mikið traust til Viggós Sigurðssonar og við verðum að gefa honum meiri tíma til þess að móta sitt lið. Hann er með skemmtilega blöndu af reynsluboltum og yngri strákum og þjálfari verður að hafa þrek og þor til að gefa ungu mönnunum tækifæri.“ – Varstu ánægð með úrslitin að öðru leyti? „Það gladdi mig að sjá Spánverja ná þessu í lokin og það með stæl. Þetta er kannski svipaður áfangi og þegar Frakkar urðu heimsmeistarar í handbolta hér 1995. Það var í fyrsta skipti sem þeir urðu heimsmeistarar í boltaíþrótt og síðan urðu þeir heimsmeistararar í knattspyrnu 1998. Kannski titillinn nú viti á gott fyrir Spánverja í fótboltanum líka.“ Verðum að taka umræðuna um skólagjöld – Aftur í skólamálin. Það er lýst eftir opinberri stefnu í há- skólamálunum. „Það þarf enga auglýsingu eftir henni! Það hefur verið fylgt mjög ákveðinni stefnu í háskólamálum síðastliðin ár. Sú stefna birtist til dæmis í því lagaumhverfi sem háskólum er búið og þeim samningum sem gerðir eru við háskólana. Hin opinbera háskólastefna hefur einnig birzt í verkefnaáætlun menntamála- ráðuneytisins í menntamálum. Þar var lögð áherzla á eflingu háskólastigsins, að hvetja unga vísindamenn og stuðla að fjölg- un nema í meistaranámi. Lögð hefur verið áherzla á að stuðla að sveigjanlegu háskólanámi og fjölgun námsleiða, sem gerir fólki á vinnumarkaði kleift að leggja stund á háskólanám. Það hefur einnig verið lögð áherzla á að styðja einkarekstur á há- skólastigi og efla vísindastarf í landinu.Við megum heldur ekki gleyma þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum und- irgengizt. Ísland er til dæmis aðili að Bologna-yfirlýsingunni sem felur í sér skuldbindingu um gegnsætt þriggja þrepa gráðukerfi. Þegar við lítum um öxl, þá sjáum við að margt hefur gerzt á háskólasviðinu síðustu tíu árin. Nú er gjörbreytt flóra á há- skólastiginu. Unga fólkið hefur fleiri tækifæri og möguleika til menntunar. Samkeppnin er fyrir hendi. Framboðið er fjöl- breytt og gæðin hafa aldrei verið meiri. Slík þróun dettur ekki af himnum ofan heldur er afrakstur markvissrar stefnu og þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið á síðustu árum. Það að láta sama fjármagn fylgja nemandanum hvert sem hann leitar til náms hefur stuðlað að frjálsu námsvali. Það þarf að efla háskólastigið með fjárframlögum, en þau þurfa ekki endilega öll að koma frá ríkinu. Síðustu árin höfum við aukið framlög til háskólastigsins meira en gert er annars staðar og stóraukið framlög til rannsókna og þróunar. Það er svo hins vegar rétt, að við máttum svo sem spýta í lófana og það höfum við gert svo um munar síðastliðinn áratug. Frá árinu 2000 hefur háskólanemum á Íslandi fjölgað um helming. Sjö skólar á háskólastigi heyra nú undir menntamálaráðuneytið og bjóða samtals upp á um 300 námsbrautir. Við sjáum einnig að framlög til háskólastigsins hafa verið að aukast hratt. Árið 2002 voru þau á bilinu 1,3–1,7% af landsframleiðslu, allt eftir því hvort við teljum með þá kennslu sem á sér stað á háskóla- sjúkrahúsinu og niðurgreiðslur námslána sem hluta af okkar háskólaútgjöldum eða ekki. Vissulega má segja að þessi aukn- ing útgjalda hefur verið til að mæta fjölgun nemenda og það er mikilvægt að við gleymum því ekki að huga einnig að því að styrkja námið sem slíkt og að því er nú unnið. Hér er því mikil stefnumótun í gangi. Þessa stundina er ég að láta skoða stjórn háskólanna og ef við náum þar farsælli lausn þá verður það breyting til hins betra. Það eru ákveðin höft á starfsemi opinberu háskólanna, sem þarf að rjúfa.“ – Meinarðu að taka upp skólagjöld? „Það er alveg ljóst, að við verðum að taka umræðuna um skólagjöld. Ég tel ekki rétt á þessu stigi að innheimta skóla- gjöld fyrir grunnnám á háskólastigi, en ég get vel séð þau fyrir mér í sambandi við framhaldsnám. Þá finnst mér athugandi að skólarnir fái að taka til síns brúks ákveðin gjöld, eins og fyrir námskeiðahald, sem ekki er hægt í dag. Við þurfum að nútímavæða starfsumhverfi háskólannna. Við megum ekki nálgast umræðuna um skólagjöld eins og þau séu eitthvert pólitískt tabú og einblína á gallana. Það þarf að fá Lánasjóðinn inn í umræðuna og líta til þess að ná lend- ingu, sem styrkir ríkisháskólana í breyttu umhverfi. Mig langar að nefna sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands. Hún er ein umfangsmesta breyting á ís- lenzka háskólakerfinu síðustu árin. Í þessari sameiningu, sem ég tel vera risamál, felst stórt tækifæri til þess að standa undir kröfum samfélagsins um eflingu raungreinamenntunar. Þetta framtak mun skila okkur miklum ávinningi, þegar fram líða stundir.“ – Hvað með háskóla á Vestfjörðum? „Það er mjög eðlilegt að Vestfirðingar sæki málið með sama metnaði og þeir hafa gert svo marga hluti vel. En áður en menn tala um háskóla á Vestfjörðum, verða menn að átta sig á þeim skyldum sem háskóla fylgja. Ég tel farsælast að byrja á grunninum og byggja svo ofan á hann eftir efnum og ástæðum líkt og tillögur Vestfirðinga hafa gengið út á. Vænt- anlegt Þekkingarsetur á Ísafirði mun standa á þremur stoðum; símenntun, sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða annast, háskóla- stoð, sem annast staðbundið nám og fjarnám, og rannsóknastoð sem tengir starfsemi rannsóknastofnana við Þekkingarsetrið. Lykilatriði er að standa vel að þessu og láta ekki úrtöluraddir draga úr þunga málsins. Ef við stöndum vel að þessu og eflum háskólastarfsemi á Vestfjörðum, þá verður á vísan að róa með framhald.“ – En er ekki eðlilegt að menn fyrir austan og vestan vilji fara beint í háskólann, þegar þeir líta til þess hversu mikil vítamín- sprauta Háskólinn á Akureyri hefur orðið fyrir norðan? „Ekki bara fyrir norðan. Háskólinn á Akureyri og Rann- sóknahúsið á Akureyri skila ekki aðeins frá sér ávinningi til Ak- ureyrar heldur líka þjóðfélagsins alls. Við verðum að hafa það í huga, að þegar háskólinn reis á Akureyri, var ekkert til sem hét fjarnám. Auk þess eru mun fleiri íbúar á Akureyri en fyrir vest- an þannig að forsendurnar eru ekki með öllu sambærilegar. Eins og ég sé mál vestra fyrir mér, gætum við verið að tala um fyrsta skrefið í átt að háskóla. Við verðum hins vegar að byggja grunninn fyrst.“ – Og fyrir austan? „Austfirðingar fara í gegnum svipað ferli og þeir fyrir vestan. Við ætlum að koma á fót þekkingarsetri fyrir austan á svip- uðum forsendum og koma þeirri starfsemi undir eitt þak.“ – Hvað með hugmyndir Bifrastarmanna um heilsársskóla? „Ég fagna öllum slíkum áformum. Það eru hugsun og metnaður, sem hafa valdið velgengni Bif- rastarskólans. Þar á bæ hafa menn dug og samstöðu til þess að fylgja hugmyndunum eftir. Þetta yrði ágætis viðbót við það sem fyrir er og eykur á valkostina og sérstöðu staðarins. Ég er því frekar jákvæð í garð þessa máls en hitt.“ Þarf að styrkja réttarstöðu einkaskólanna – Af háskólastiginu niður í grunnskólann, þótt hann sé ekki lengur á þínu forræði. Sveitarfélög taka mismunandi á málum einkareknu skólanna. „Mér finnst miður, ef rótgrónir skólar eins og Landakots- skólinn og Ísaksskóli fá ekki svigrúm til síns rekstrar. Það er greinilega verið að draga úr möguleikum þeirra til að starfa í grunnskólakerfinu í Reykjavík. Ég er hlessa á því, hvað lítillar framsýni gætir hjá þeim sem ráða ferðinni í borginni, að þvinga Stjórnmál snúast um Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur setið á stóli menntamálaráðherra í rúmt ár. Í samtali við Freystein Jóhannsson lítur hún um öxl og fjallar um helztu verkefni menntamálaráðuneytisins, pólitískar viðureignir og framtíðina. 10 SUNNUDAGUR 13. FEBRÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.