Morgunblaðið - 13.02.2005, Side 11
sjálfstæða skóla eins og Landakotsskóla úr einkarekstri af því
hann hentar ekki pólitísku landslagi þeirra.
Grunnskólarnir verða að búa við svipaða samkeppnisstöðu og
sjálfstæða skólastefnu frekar en miðstýringu. Það þarf því að
styrkja réttarstöðu sjálfstæðu skólanna. Það er ófært að þeir
séu háðir pólitískum duttlungum þeirra, sem með völdin fara
hverju sinni. Þar að auki eru þessir rótgrónu skólar sem hafa
sannað gildi sitt hluti af ákveðnum menningararfi sem við eig-
um að virða. Ég vil í þessu sambandi einnig benda á afar vel
heppnaða skólastefnu í Garðabæ, þar sem forystumenn bæj-
arfélagsins eru framsýnir og raunsæir og vilja gera betur fyrir
Garðbæinga. Þar eru sjálfstæðir skólar sjálfsagður hluti af
skólakerfinu og valkostur sem öllum íbúum stendur til boða.
Við viljum ekki stéttskipt þjóðfélag í skólamálum.
Hún Margrét Pála hefði getað rekið sinn frábæra skóla skóla
í Hafnarfirði. Hún fékk hins vegar ekki tækifæri til þess þar og
kaus því að fara þaðan og reka skólann í Garðabæ, þar sem
framlög bæjarfélagsins eru jöfn með hverjum nemanda, hvort
sem hann er í opinberum skóla eða einkaskóla en á þessu sviði
sem öðrum er heilbrigð samkeppni bezt því hún eykur frelsi,
fjölbreytni og tækifæri til skólagöngu.
Það er stórkostlega gaman að fylgjast með skólamálum í
Garðabæ. Það fyrirkomulag sem þar er við lýði hefði ég viljað
sjá Reykjavíkurborg taka sér til fyrirmyndar.
Forystumenn eiga að hafa kjark til þess að halda áfram á
nýjum brautum sem styrkja innviðina.“
Allir í stjórnmálum hafa sinn metnað
– Hverju svarar þú þeim, sem segjast sjá í þér framtíðarfor-
ystumann Sjálfstæðisflokksins?
„Davíð er ekki að hætta og því eru svona vangaveltur ekki
tímabærar. Stundum finnst manni sem umræðan um það hvort
Davíð verði áfram sé fyrst og fremst komin frá pólitískum and-
stæðingum Sjálfstæðisflokksins sem virðast fátt óttast meira
en að Davíð haldi áfram. Ég kippi mér ekkert upp við það sem
menn spjalla út í bæ. Mitt verksvið er menntamálaráðuneytið.
En hitt er, að við sjálfstæðismenn þurfum ekki að kvíða
framtíðinni. Við eigum marga hæfa einstaklinga um allt land og
því er framtíðin björt.
Það er ekki tímabært að tala um breytingar í forystu sjálf-
stæðis flokksins. En auðvitað hafa allir sem í stjórnmálum
standa sinn metnað. Ég er þar engin undantekning. Það er hins
vegar aukaatriði, mestu máli skiptir að vera trúr sjálfum sér og
gleyma ekki hvaðan umboðið kemur.“
Samfylkingin er ístöðulaus flokkur
– Í skoðanakönnunum, sagt með öllum fyrirvörum, er Sam-
fylkingin á stærð við Sjálfstæðisflokkinn.
„Ég tel að stjórnmálin snúist um það að styrkja innviði sam-
félagsins. Það gerum við bezt með því að auka svigrúm ein-
staklinganna og fyrirtækjanna. Samhliða því eykst ábyrgð
þessara aðila og ég er sannfærð um að vitund um mikilvægi vel-
ferðar og samhygðar allra muni aukast.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur 75 ár að bakhjarli og er því ekki
rótlaus flokkur sem sækir stefnu sína fyrst og fremst í skoð-
anakannanir, eins og Samfylkingin gerir. Samfylkingin er
ístöðulaus flokkur, sem kinnroðalaust snýr baki við kosninga-
loforðum, eins og við sáum í skattamálunum, svo bara eitt dæmi
sé nefnt. Og ég er handviss um það, að þegar stytting námstím-
ans kemur til kasta Alþingis muni Samfylkingin finna leið til að
breyta sinni stefnu í því máli, en eftir að styttingu náms bar
fyrst á góma 1994 hefur Samfylkingin tekið það mál upp í
stefnuskrá flokksins og setti fram sem kosningmál.
Satt að segja sé ég ekki hvernig stjórnmálaflokkur, sem kann
ekki að fóta sig á svelli stjórnmálanna og virðist ekki hafa neina
pólitíska sannfæringu, getur höfðað til fólks.
Við sjálfstæðismenn getum bent á það fyrir hvað við stöndum
í íslenzkri pólitík og við getum sannarlega verið stoltir af okkar
verkum því á heildina litið hafa Íslendingar aldrei staðið jafnvel
að vígi.
Það má hins vegar vera að menn geti náð vissu marki með
tækifærismennsku, eins og við sjáum Samfylkinguna gera og í
því ljósi fái þeir sitt tækifæri. Á það er líka að líta, að mál eins
og fjölmiðlamálið og Íraksmálið geta reynzt Sjálfstæðisflokkn-
um erfið í svip, en það hefur hins vegar verið gæfa flokksins að
hann hefur jafnan fallið vel að þjóðarsál Íslendinga; hvernig við
hugsum og hvernig við viljum lifa í okkar landi.
Við eigum líka forystumann, Davíð Oddsson, sem er fram-
sýnn maður og hefur dug til þess að framkvæma það sem til
þarf. Honum hefur betur en flestum tekizt að slá á hörpu-
strengi íslenzku þjóðarinnar.“
– Íraksmálið! Hvar varst þú, Þorgerður Katrín, þegar það
var afráðið?
„Ég var nú ekki komin í ríkisstjórnina þá. En í mínum huga
er þetta einfalt mál. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra
tóku ákvörðunina eftir ríkisstjórnarfundinn 18. marz 2003 og
það er alveg samkvæmt okkar leikreglum í stjórnmálum og
hefðum og lögum varðandi stjórnsýslu og stjórnarfar. Að halda
öðru fram er bara ómerkilegur pólitískur spuni.
Ég stend eindregið með þessari ákvörðun um stuðning við
okkar bandamenn.
Það hefur verið bæði athyglisvert og lúmskt gaman, að sjá
hversu gömlu alþýðubandalagshjörtun hafa slegið hátt og hratt
í þessu máli meðan gömlu kratahjörtun halda sig til hlés og tifa
lítið sem ekkert.“
Ætlar að koma upp bókmenntasjóði
– Nú syngur margur söngfuglinn þér til heiðurs fyrir gjör-
breytingu í tónlistarmálunum.
„Það er nú nokkuð mikið úr mínum hlut gert, þótt mér kunni
að þykja söngurinn sætur! Aðkoma menntamálaráðuneytisins
að málefnum tónlistarinnar er með ýmsum hætti.
Við megum ekki gleyma því, að ríkisútvarpið hefur leikið og
leikur stórt hlutverk í tónlistarmálum okkar. Íslenzkri tónlist
er útvarpað á Rás 2, sem er í forystu hvað varðar kynningu og
útrás íslenzkrar tónlistar. En útvarpið sinnir mjög breiðri tón-
listarmenningu og til dæmis útvarpar Rás 1 reglulega tón-
leikum Sinfóníuhljómsveitarinnar.
En breyting er það, að nú í ársbyrjun tók til starfa tónlist-
arsjóður, sem á að efla tónlistarlíf í landinu.
Ráðuneytið styrkti tónlistarlíf með margs konar hætti fyrir,
en það fé, sem til þess fór, rann inn í Tónlistarsjóðinn, en jafn-
framt voru framlög til tónlistarmála stóraukin.“
– Og tónlistarhúsið?
„Allur undirbúningur þess er á fleygiferð. Það á að vera kom-
ið upp 2009.
Ég hef hugsað mér að hafa sama háttinn á með bókmennt-
irnar og tónlistina; að koma upp bókmenntasjóði í samvinnu við
útgefendur og rithöfunda. Ég held að slíkt fyrirkomulag eigi
ekki síður eftir að gagnast bókmenntunum en tónlistinni.
Og svo er KÍM, Kynningarmiðstöð íslenzkrar myndlistar,
farinn af stað.
Þannig að það er mikil gerjun í menningarmálunum.“
– Hvernig var í Cannes á dögunum?
„Það var ágætt, þakka þér fyrir! Ég sótti þar 39. Midem-
tónlistarkaupstefnuna og varð held ég fyrsti íslenzki ráð-
herrann til þess. Þessi kaupstefna skiptir nú miklu máli fyrir
okkar tónlistarútrás.
Það var sérstakt að sjá, hvað íslenzku þátttakendurnir unnu
vel saman þarna úti, þótt þeir eigi í harðri samkeppni heima
fyrir.“
– Hlustarðu mikið á tónlist?
„Já, ég geri það, en þetta kemur svona í köflum hjá mér. Nú
eru barnalögin efst á listanum. En eiginmaðurinn og drengirnir
halda mér við íslenzku tónlistina, svona hver eftir sínum aldri!“
– Varstu þá sátt við Íslenzku tónlistarverðlaunin?
„Það var gaman að sjá og heyra, hversu fjölbreytt tónlistin
er. Hins vegar tel ég álitamál hvort ekki sé rétt að láta sér
nægja að verðlauna eina plötu, sem plötu ársins.
Mér finnst það fletja hlutina svolítið út að vera með of marg-
ar plötur sem beztu plötuna.
Það var líka ánægjulegt að sjá klassíkina og poppið saman á
einni hátíð.“
– Og líkaði þér hvernig verðlaunin féllu?
„Ég ætla nú ekki að tjá mig um einstaka verðlaunahafa!
Stundum var maður búinn að veðja á einn, þegar annar vann.
Þá sagði maður bara: Já þessi! Fínt! Það vakti sérstaka athygli
mína, hversu margar konur eru í fremstu röð tónlistarmanna
okkar, sem bezt sást í heiðursverðlaunahafanum Helgu Ingólfs-
dóttur.“
Afnotagjöldin verða lögð af
– Þú talaðir um ríkisútvarpið og tónlistina áðan. Hvað líður
nýjum útvarpslögum?
„Ég á von á því að geta lagt fram frumvarp innan tíðar.“
– Hvað þýðir innan tíðar?
„Örugglega á vorþinginu.
Við erum að leggja lokahönd á frumvarpsdrögin.
Þetta verður stórmál. Það hafa allir skoðanir á Ríkisútvarp-
inu. Það skipar sinn sess með þjóðinni, en má sízt við því að
staðna. Það þarf að halda því lifandi og keiku.“
– Falla afnotagjöldin niður?
„Við komum til með að sjá breytingu í þá veru.“
– Eru stjórnarflokkarnir samstiga í málinu?
„Það sem við erum að gera núna vinnum við í sátt og sam-
lyndi.
Báðir flokkarnir eru eindregið þeirrar skoðunar, að það eigi
að hlú að ríkisútvarpinu svo það geti svarað kröfum tímans. Það
þarf að skerpa á hlutverki ríkisútvarpsins og tryggja því áfram
öruggan sess sem öflugt fyrirtæki.“
– Útvarpsréttarnefnd komst á dögunum að þeirri niðurstöðu
að óheimilt væri að útvarpa íþróttaviðburðum án þess að lýsing
á ensku fylgdi með. Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins
hafa lagt til að lögum verði breytt þannig að þetta verði heimilt.
Hver er þín skoðun á þessu?
„Það er ljóst að samkvæmt núgildandi lögum er þetta óheim-
ilt. Niðurstaða útvarpsréttarnefndar er skýr og afdráttarlaus.
Við gerum þá kröfu til þeirra fjölmiðla er starfa samkvæmt ís-
lenzkum útvarpslögum að þeir taki tillit til þess og virði að þeir
starfi á hinu íslenzka málsvæði. Ekki sízt tel ég að við eigum að
gera mjög strangar kröfur til Ríkisútvarpsins. Ég skil persónu-
lega að mörgu leyti vel þá sem hafa vanizt því að horfa á enska
boltann með enskum þulum að þeir vilji eiga þess kost áfram. Á
það má þó benda að þeir sem kjósa sjónvarpsefni með erlendu
tali eiga í dag mun fleiri kosti vegna dreifingar erlendra sjón-
varpsstöðva en þeir sem vilja íslenzkt efni eða íslenzkað.
Stundum er sagt að hin tæknilega þróun geri að verkum að
reglur um íslenzkun efnis séu orðnar úreltar. Ég held að það
megi allt eins vel færa rök fyrir því að þær hafi aldrei verið eins
brýnar. Það verður að fara mjög varlega í allar breytingar sem
fela það í sér að gefið er eftir í þessum efnum. Það vakti hins
vegar athygli mína að forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar
sagði í viðtali á dögunum að hann teldi þetta ekki ógn þar sem
um afmarkað svið væri að ræða. Hann hvatti frekar til að það fé
sem sparaðist yrði nýtt til innlendrar dagskrárgerðar og þar er
ég sammála honum. Það er fátt mikilvægara upp á framtíð ís-
lenzkunnar en að við sinnum innlendri dagskrárgerð í ljós-
vakamiðlum af metnaði.“
– Sátt og samlyndi í ríkisútvarpinu segir þú. Hvernig líður
þér að öðru leyti í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og
undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar?
„Auðvitað eru það viðbrigði fyrir okkur sjálfstæðismenn að
Davíð skuli ekki lengur sitja við borðsendann. Halldór Ás-
grímsson er hins vegar farsæll stjórnmálamaður með mikla
reynslu. Þótt hann og Davíð hafi ólíkan stíl þá er gott að skynja
að fyrir borðsendanum er forystumaður sem gott er að vinna
með. Við höfum átt farsælt samstarf við Framsóknarflokkinn
og ég hef átt gott samstarf við Halldór. Það hversu átakalaust
þessi umskipti hafa gengið fyrir sig sýnir það traust sem ríkir á
milli flokkanna og forystumanna þeirra og hefur verið forsenda
þeirra fjölmörgu framfaramála sem ríkisstjórn Sjálfstæðis-
flokks og Framsóknarflokks hefur komið í gegn síðastliðin ár.“
að styrkja innviðina
Morgunblaðið/Jim Smart
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir: Mestu máli skiptir að vera trúr sjálfum sér og gleyma ekki hvaðan umboðið kemur.
freysteinn@mbl.is
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13. FEBRÚAR 2005 11