Morgunblaðið - 31.05.2005, Blaðsíða 32
32 ÞRIÐJUDAGUR 31. MAÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
N
ýlega prófaði ég
svonefnda
„sjálfsdáleiðslu“ til
að ná mér út úr
leiðinda ávana sem
ég hef tamið mér og mig langaði
til að losna við. Sjálfsdáleiðslan
fólst í því að hlusta á geisladisk
sem hefst á rólegri tónlist og slök-
un, sem síðan er fylgt eftir með
jákvæðum og uppbyggilegum
skilaboðum sem ætlað er að
hjálpa manni að breyta um hug-
arfar.
Það er mér mikil ánægja að
segja frá því að þessi aðferð virð-
ist ætla að bera árangur. A.m.k.
hefur hugarfar mitt breyst gríð-
arlega við aðeins nokkrar hlust-
anir. En í kjölfarið fór ég að velta
fyrir mér orðinu „hugarfar“.
Orðið „hugarfar“ minnir óneit-
anlega á orðið „hjólfar“ og þegar
maður fer að skoða málið nánar,
þá er það ekki að ástæðulausu að
sú hliðstæða skýtur upp kollinum.
Þegar maður ekur í hjólförum á
erfiðum vegi eða í snjó getur oft
reynst erfitt að komast upp úr
þeim og jafnvel getur það endað
svo að hjólförin leiða mann í
ógöngur. Bíllinn leitast við að
halda sér í hjólförunum, sama
hvað maður reynir, því hann er
þungur eða á mikilli ferð. Léttari
bíll kemst auðveldar upp úr hjól-
förunum og sama má segja um bíl
sem fer hægar.
Þetta getum við auðveldlega yf-
irfært yfir á huga okkar. Þegar
við erum föst í hugarfari getur
reynst afskaplega erfitt að losna
upp úr því. Þetta eru hjólför hug-
ans. Þegar hugur er þungur eða
ferðast hratt, þá er enn mikilvæg-
ara að hann sé ekki að hrófla við
hjólfarinu. Hann verður að halda
sínu striki hvað sem það kostar.
Við könnumst flest við það þeg-
ar einhver segir okkur að borða
hollari mat eða minna af honum,
hætta að reykja, hreyfa okkur
meira og sofa betur. Við segjum
öll „já, já, ókei, ég veit það alveg!“
en höldum svo áfram í sjálfseyð-
andi lífsstílnum. Við höldum
áfram að éta of mikið, sofa of lítið,
hreyfa okkur of lítið og reykja.
Því þegar hugurinn er á annað
borð við fulla meðvitund, ver hann
með kjafti og klóm það far sem
hann liggur í, því farið er þægi-
legt, farið þýðir að við þurfum
ekki að stýra, bíllinn stýrir sér
næstum því sjálfur. Það er svo
gott að leyfa bara farinu að stýra.
Heilinn verndar vel það sem er
þægilegt, en það sem er þægilegt
er því miður ekki alltaf hollt.
En ef við viljum ekki leyfa
farinu að stjórna ferðinni, viljum
ráða okkar eigin lífi, þurfum við
að beita öðrum aðferðum, en að
hlusta einungis á fyrirmæli
lækna, þjálfara eða hvers kyns
predikara, þó þau séu ágæt fyrir
sitt leyti. Breyting á breytni okk-
ar kemur hvergi frá nema að inn-
an. Við þurfum að brjóta upp hug-
arfarið með einum eða öðrum
hætti. Það gerum við m.a. með því
að koma huganum út úr hvers-
dagsamstrinu. Hægt er að nota
hugleiðslu, slökun eða jafnvel
bara góðan útivistartúr í nátt-
úrunni. Sleppa huganum, losa um
spennuna og byrja að vinna í sér.
Brjóta burt hugsanir sem halda
aftur af okkur og breyta um hug-
arfar. Verða sjálfstæð!
Mig langar að vera sjálfstæður
maður, laus við einhvers konar
ósjálfráð viðbrögð og stjórnlausa
hegðun. Ég vil stýra sjálfur hin-
um ýmsu hlutum sem ég hef hing-
að til tekið sem sjálfsagða lík-
amlega breytni. Til þess þarf ég
að rífa mig upp úr hugarfarinu.
Það eru til fjölmörg dæmi um
hugarfar önnur en reykingar og
átvenjur. Þannig má nefna kot-
bændaháttinn til forna, efnis- og
neysluhyggju nútímans, kyn-
þáttafordóma, kvenfyrirlitningu,
hamslausa virkjanahyggju og
stóriðjutrú, talnaspeki og það að
hlusta á síbyljuútvarpsstöðvar.
Mér hefur hingað til gengið
bölvanlega að losna út úr mínu
hugarfari, en þessi plata hefur
skilað mér miklum árangri. Hún
er mín leið, en ég er viss um að
leiðirnar eru jafnmargar og þær
eru ólíkar. Aðalatriðið er að fólk
þarf að skoða sig að innan og velta
fyrir sér hvaða hugarfar það hef-
ur sem gæti verið að hamla því frá
andlegum þroska og jafnvel ár-
angri í sínu lífi, hvort sem um er
að ræða vinnu eða persónulegt líf.
Hugarfarið hefur nefnilega þau
hræðilegu áhrif á okkur að við
sjáum oft ekki nema eina leið út
úr vanda, ekki nema eitt svar við
fjölvíðum spurningum. Önnur
svör eru bara leiðindi, vitleysa,
bábiljur og heimska. Hjólfar hug-
ans hleypir engu að nema sinni
beinu og ákveðnu stefnu.
Þessi tilhneiging hugarfarsins
til að forskrifa allar ákvarðanir
okkar og gera þær ómeðvitaðar
leiðir til þess að fólk reki fljótandi
að feigðarósi niður lífsfljótið. Það
eru hryllileg örlög og engum til
prýði eða farsældar að gefa svo
auðveldlega eftir sjálfstæði sitt.
En til að geta barist við hug-
arfarið verður maður að við-
urkenna vanda sinn og halda í leit
að lausnum við honum. Þetta er
hægt þegar hugarfarið er farið að
valda líkamlegum, fjárhagslegum
eða félagslegum skaða og okkur
ríður á að bæta ástandið. Erfiðara
er að horfast í augu við hugarfars-
vanda sinn ef skaðinn er einungis
andlegur eða jafnvel óbeinn. Í
þeim tilfellum getur verið að ein-
staklingur geri sér aldrei fyllilega
grein fyrir hugarfari sínu og
dvelji þar fastur til dauðadags.
Hugarfar getur breyst með
reynslu, en sjaldnast með predik-
unum og langlokum í ræðum eða
skömmum. Að upplifa annan
raunveruleika frá fyrstu hendi, að
kynnast töfrum náttúrunnar, feg-
urð ólíkra menningarheima. Að
ferðast um heiminn utan ferða-
mannastaðanna. Að kynnast lífinu
á öðrum forsendum, hlýtur að
vera vísir að því að brjóta upp
stirðan hug. Ef lesendur eiga
harðan virkjanasinna í ættinni
gæti því verið heillavænlegra en
nokkurt rifrildi að bjóða viðkom-
andi í nokkra langa göngutúra í
náttúrunni, jafnvel hálendisferð
þar sem gengið er um ósnortin
víðerni án þess að segja orð.
Upp úr
hugarfari
Hjólfar hugans hefur þau hræðilegu
áhrif á okkur að við sjáum ekki nema
eina leið út úr vanda, ekki nema eitt
svar við fjölvíðum spurningum.
VIÐHORF
Eftir Svavar Knút Kristinsson
svavar@mbl.is
VIÐ lifum tíma mikillar framþró-
unar í heilbrigðisvísindum. Við lif-
um tíma þar sem almenningur tek-
ur í æ ríkari mæli ábyrgan þátt í
forvörnum og eigin meðferð þegar
það á við. Tíma þar sem þörf al-
mennings fyrir réttar upplýsingar
frá ábyrgum aðilum eykst stöðugt
vegna mikils framboðs fræðslu og
upplýsingaefnis á veraldarvefnum,
en það efni er mjög misjafnt að
gæðum.
Í ágætri grein Hjalta Más
Björnssonar læknis sem birtist í
Morgunblaðinu sunnudaginn 22.
maí bendir hann almenningi sér-
staklega á að nýta sér gagnasöfn
þau sem aðgangur er að í gegnum
upplýsingabirginn OVID s.s. Med-
line og upplýsingar frá Cochrane
Collaboration. Bókasafn Landspít-
ala – háskólasjúkrahúss, í samstarfi
við önnur bókasöfn á heilbrigðis-
sviði, kaupir aðgang að þessum
gagnasöfnum og er sá aðgangur að
hluta til opinn öllum landsmönnum,
meðal annars á www.hvar.is. Um
er að ræða gagnasöfn, eins og
Medline, rafrænar bækur og svo-
kallað gagnreynt efni (Evidence ba-
sed) eins og frá Cochrane Colla-
boration. Bókasafn LSH hefur gert
tengingar úr gagnasöfnunum inn í
rafrænar tímaritaáskrifir sínar.
Einungis hluti allra rafrænu
gagnanna er opinn utan LSH en
bókasafn LSH er opið öllum áhuga-
sömum og er þar aðgangur að tölv-
um þar sem komast má í öll rafræn
gögn safnsins.
Tilgangur þessarar greinar er að
benda almenningi á fleiri mögu-
leika við gagnaöflun. Í fyrsta lagi
önnur gagnasöfn sem bókasafn
LSH kaupir sérstaklega og veitir
aðgang að og hins vegar ýmsa vefi
sem sérstaklega eru settir upp og
ætlaðir almenningi. Til dæmis má
þar nefna MDConsult og UpTo-
Date gagnasöfnin sem innihalda
mikið magn sjúklingafræðslu sem
byggð er á gagnreyndum aðferð-
um. Ennfremur leitarvélina TRIP+
sem leitar á veraldarvefnum að
gagnreyndum upplýsingum víða að
sem og klínískum leiðbeiningum og
sjúklingafræðsluefni.
Mikið framboð er af vefsíðum
sem innihalda ýmiss konar fræðslu-
efni á heilbrigðissviði fyrir almenn-
ing, vefsíðum sem eru mjög mis-
jafnar að gæðum. Þegar leitað er
upplýsinga um heilbrigði og sjúk-
dóma á vefnum er m.a. vert að hafa
eftirfarandi í huga:
Hver/hverjir eru ábyrgir fyrir
efninu? Eru það stjórnvöld í við-
komandi landi, félagasamtök, ein-
staklingar eða fyrirtæki? Liggja
þær upplýsingar ljós-
ar fyrir? Er upplýs-
ingunum haldið við,
hvenær var vefsíðan
uppfærð síðast? Er
framsetning skýr?
Eru staðreyndirnar
studdar tilvísunum í
viðurkennd rit? Ef
um skoðun en ekki
staðreyndir er að
ræða, er það þá tekið
skýrt fram og vísað á
ábyrgðaraðila?
Bókasafn LSH hef-
ur tekið saman á vef
sínum töluvert safn vefsíðna frá
viðurkenndum aðilum þar sem
finna má vandaða fræðslu og upp-
lýsingar. Margar þessara síðna eru
á íslensku en flestar eru þær á
enskri tungu. Þá eru nokkrar á
öðrum málum s.s. norrænum og as-
ískum. Þarna er að finna vefsíður
fyrir alla aldurshópa og eru sér-
stakar vefsíður sem innihalda
fræðsluefni fyrir börn og unglinga
svo og fyrir aldraða. Heiti þessarar
síðu á vef bókasafns LSH er
Fræðsluefni fyrir almenning
Aðgangur að gagnasöfnum, raf-
bókum og raftímaritum bókasafns
LSH er á vef spítalans www.land-
spitali.is og tengill inn á vef bóka-
safnsins er á forsíðu hans.
Eins og áður sagði er hluti
gagnanna læstur utan LSH en
áhugasamir eru velkomnir á safnið
og geta þeir fengið aðstoð við að
nýta sér gögnin. Bókasafnið er til
húsa í Eirbergi, sem stendur á
Hringbrautarlóð LSH. Tölvu-
póstfang er bokasafn@landspitali
.is
Heilbrigðisupplýsingar
til almennings
Anna Sigríður Guðnadóttir og
Sólveig Þorsteinsdóttir skrifa
um gagnaöflun
’Tilgangur þessarargreinar er að benda al-
menningi á fleiri mögu-
leika við gagnaöflun.‘
Anna Sigríður
Guðnadóttir
Anna Sigríður er aðstoðarfor-
stöðumaður Bókasafns LSH og Sól-
veig er sviðsstjóri Bókasafns- og upp-
lýsingasviðs LSH.
Sólveig
Þorsteinsdóttir
Í KÓPAVOGSKAUPSTAÐ sem
stærir sig af mikilli menningar-
viðleitni, listasafni og tónleikasal,
er notalegur grunnskóli, Snæ-
landsskóli í fallegu og kyrrlátu
umhverfi í Fossvogsdal. Það væri
ekki í frásögur færandi ef skólinn
geymdi ekki ágæta listskreytingu
Magnúsar Pálssonar
sem skreytir nokkra
veggi skólans bæði
innan húss og utan.
Fyrir allmörgum ár-
um tóku prakk-
arastrákar upp á því
að kasta grjóti í ut-
anhússmyndskreyt-
inguna og brjóta
hana og skemma.
Þetta skemmdarverk
höfðu svo bæjaryf-
irvöld til sýnis utan á
skólanum í áratug
eða meira sennilega
til þess að ala upp menningar-
áhuga hjá nemendum skólans og
kannski til að undirstrika virð-
ingu bæjarfulltrúa fyrir mynd-
listarverkum. Um langt árabil
reyndi listamaðurinn að fá bæjar-
yfirvöld til að lagfæra listaverkið
en forráðamenn bæjarins vörðust
þeirri ásókn fimlega með blíðleg-
um undandrætti og óforskömm-
uðu tómlæti.
Að lokum gafst listamaðurinn
upp á þessum eltingaleik við
Kópavogspólitíkusa og bæjar-
starfsmenn og óskaði eftir lið-
sinni höfundarréttarsamtaka
myndhöfunda. Er skemmst frá
því að segja að eftir margra ára
samningaumleitanir og eltinga-
leik við bæjarstjóra og bæjar-
starfsmenn varð niðurstaða
þeirra sú að loftpressa skyldi sett
á eftirstöðvar listaverksins og
það brotið niður af veggjum skól-
ans. Þessir listelsku stjórnendur
bæjarins töldu af og frá að Kópa-
vogskaupstaður hefði efni á því
að setja peninga í að endurgera
verkið og reyndar að fullklára
það í þeirri mynd sem um hafði
verið samið við listamanninn í
upphafi.
Þegar hér var komið málum
kom í ljós að List-
skreytingasjóður rík-
isins hafði með styrk-
veitingum greitt
meginhluta af kostn-
aði við gerð verksins.
Nú voru góð ráð dýr.
Stjórn sjóðsins bann-
aði niðurrif verksins,
taldi reyndar hlut-
verk sitt að veita fé
til listskreytinga í
opinberum bygg-
ingum og þá ekki
með það fyrir augum
að brjóta verkið síð-
an niður þegar styrkþegum byði
svo við að horfa. Málið er því
komið í strand. Loftpressan og
pólitíkusarnir í Kópavogi mega
ekki brjóta niður listaverk Magn-
úsar Pálssonar af veggjum Snæ-
landsskóla og þeir þumbast við
að setja fjármuni í að klára þessa
listskreytingu og lagfæra
skemmdirnar.
Nú er spurt. Hvar er allur
menningaráhuginn – hvar er
virðingin fyrir heiðri höfunda –
hvar er viljinn til að halda í
heiðri ákvæði höfundalaga um
sæmdarrétt höfunda eða er þessi
listelska bæjaryfirvalda í Kópa-
vogi bara sýndarmennska á tylli-
dögum. Halda menn, að þeir séu
að ala upp virðingu fyrir menn-
ingu og myndlist í hugum ung-
linganna í Snælandsskóla með
þessu fordæmi og framkomu
bæjaryfirvalda.
Til eru margir mismunandi
Jónar í okkar litla samfélagi;
Kópavogsjónar, sérajónar og
Stefánjónar. En eitt er víst að
menningarpólitíkusinn Stefán
Jón í Reykjavík ber meiri virð-
ingu fyrir listaverkum Reykjavík-
urborgar en Kópavogsjónarnir
fyrir sínum listaverkum. Þegar
skemmdarvargar brjóta mynda-
styttu á torgi í Reykjavík yfirlýs-
ir Stefán Jón að gert skuli við
hana að bragði. Kópavogsjón-
arnir bjóða hins vegar
skemmdarvörgunum hjálp sína –
með loftpressum skal skemmdar-
verkið fullkomnað.
Að lokun áskorun til bæjaryfir-
valda í Kópavogi. Ljúkið þessari
píslargöngu listamannsins Magn-
úsar Pálssonar og höfundarrétt-
arsamtaka myndhöfunda án
krossfestingar. Einhendið ykkur í
að lagfæra og klára þetta verk
þessa mæta myndlistarmanns í
Snælandsskóla. Sýnið þar með
höfundarheiðri hans fullan sóma
um leið og þið undirstrikið mikil-
vægi menningar í hugum hinnar
ungu kynslóðar sem á leið um
Snælandsskóla.
Listaverkið og loftpressan
Knútur Bruun skrifar í tilefni
af þrjátíu ára afmæli Snælands-
skóla ’Kópavogsjónarnirbjóða hins vegar
skemmdarvörgunum
hjálp sína – með loft-
pressum skal skemmd-
arverkið fullkomnað.‘
Knútur Bruun
Höfundur er lögmaður
og formaður Myndstefs.