Morgunblaðið - 31.05.2005, Blaðsíða 60
MORGUNBLAÐIÐ, KRINGLUNNI 1, 103 REYKJAVÍK, SÍMI 569 1100, SÍMBRÉF 569 1181, PÓSTHÓLF 3040,
ÁSKRIFT-AFGREIÐSLA 569 1122, NETFANG: RITSTJ@MBL.IS, AKUREYRI: KAUPVANGSSTRÆTI 1 ÞRIÐJUDAGUR 31. MAÍ 2005 VERÐ Í LAUSASÖLU 220 KR. MEÐ VSK.
ÞÓRÓLFUR Árnason, fv. borgarstjóri og
forstjóri Tals, verður nýr forstjóri Ice-
landic Group, sem varð til við sameiningu
Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sjó-
víkur í gær. Fyrsti hlut-
hafafundur hins nýja fé-
lags var haldinn í gær
og þar var samþykkt að
breyta nafni félagsins í
Icelandic Group en
stjórn SH og hluthafa-
fundur Sjóvíkur höfðu
samþykkt sameining-
una fyrr um daginn.
Hluthafafundurinn
samþykkti enn fremur
að ráða Þórólf í starf forstjóra hins nýja fé-
lags. Hann tekur við af Gunnari Svavars-
syni, sem stýrt hefur fyrirtækinu síðan
1999.
Morgunblaðið náði í gærkvöldi tali af
Þórólfi sem staðfesti þetta og sagðist hafa
náð samkomulagi við stjórnarformann Ice-
landic Group. „Ég hlakka til að fara að
vinna að spennandi verkefni með góðu fólki
í góðu fyrirtæki,“ sagði Þórólfur sem mun
hefja störf nú í morgunsárið.
Hluthafafundurinn kaus einnig nýja
stjórn félagsins en í henni eiga sæti þeir
Jón Kristjánsson formaður, Þór Kristjáns-
son varaformaður, Hreggviður Jónsson,
Baldur Guðnason og Þórður Már Jóhann-
esson. | 16
Þórólfur
verður
forstjóri Ice-
landic Group
Þórólfur
Árnason
STÓR hópur svana heldur til við Hvalnes í
Lóni, ekki langt frá Hornafirði, og bættist
þeim góður liðsauki á dögunum þegar tveir
svartir svanir slógust í hópinn. Svanirnir eru
geldfuglar sem safnast saman svo hundruðum
skiptir og halda hópinn á sumrin. Styggð
komst á hópinn þegar ljósmyndari mundaði
linsuna, en svörtu svanirnir voru þó með þeim
spakari, líkt og þeir væru vanir athyglinni.
Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteins
Svartir svanir í hópi geldfugla
SKÁLDSÖGUR Arnaldar Indr-
iðasonar hafa selst í ríflega milljón ein-
tökum hér heima og erlendis, að sögn
Páls Valssonar, útgáfustjóra skáld-
verka og fræðirita
hjá Eddu útgáfu.
Að mati Páls eru
þetta gleðifréttir
og frábær árangur
hjá Arnaldi.
„Bækurnar hans
virðast halda les-
endum við efnið,
sama hverrar þjóð-
ar þeir eru. Þær
virðast höfða til
fólks alls staðar,“ segir hann.
Páll segir sérstaklega ánægjulegt
að bækur Arnaldar fái brautargengi í
hinum enskumælandi heimi. „Það hef-
ur löngum verið langerfiðasti mark-
aðurinn fyrir íslenskar bókmenntir.
Nú eru bækurnar hans að koma út hjá
góðum forlögum, bæði í Bretlandi og
Bandaríkjunum.“
Skáldsögur Arnaldar hafa selst í
tæplega 150 þúsund eintökum á Ís-
landi.
Á metsölulista í sex löndum
Bækurnar hafa verið gefnar út
víða um heim og komist á met-
sölulista í sex löndum. Bókin
Napóleonsskjölin hefur verið í nítján
vikur á lista í Þýskalandi, Grafar-
þögn er í tíunda sæti í Svíþjóð og
Synir duftsins hefur verið í fimm
vikur á topp tíu listanum í Hollandi.
Tvær af bókum Arnaldar, Röddin
og Kleifarvatn, voru nýverið seldar
til breska forlagsins Harvill, en for-
lagið hefur áður gefið út Mýrina,
sem hlaut afbragðs dóma þar í landi,
og Grafarþögn kom þar út fyrir
skemmstu. Í vikunni var gengið frá
samningum um sölu á sömu bókum
til Thomas Dunne Books í Banda-
ríkjunum og kemur Mýrin út í haust
og Grafarþögn á næsta ári.
Skáldsögur Arnaldar Indriðasonar njóta hylli innanlands sem utan
Hefur selt yfir milljón bækur
Arnaldur
Indriðason
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur
ingamaria@mbl.is
SJÁLFSTÆTT fólk, skáldsaga
Halldórs Laxness, hefur ein og sér
verið gefin út í yfir milljón eintök-
um á ýmsum tungumálum. Halldór
Guðmundsson, sem gaf út ævisögu
Halldórs Laxness nú fyrir jólin,
telur víst að bækur hans hafi kom-
ið út í hátt á þriðju milljón eintaka.
„Það gæti jafnvel verið meira.
En ég held að mér sé óhætt að
segja að Sjálfstætt fólk hafi komið
út í vel á aðra milljón eintaka,
vegna þess að bara í Sovétríkj-
unum og Bandaríkjunum sam-
anlagt er salan yfir milljón. Síðan
hefur bókin þess utan komið út á
yfir tuttugu öðrum tungumálum,“
segir hann. „Hún er sjálfsagt mest
selda bók Íslendinga fyrr og síð-
ar.“ Hann segist einnig viss um að
Nonnabækurnar, bækur Jóns
Sveinssonar sem komu fyrst út í
Þýskalandi árið 1913, hafi komið út
í yfir milljón eintökum á þýsku,
þrátt fyrir að bókaeign væri miklu
sjaldgæfari á þeim tíma.
Þriðji íslenski höfundurinn sem
Halldór telur að gæti hafa farið yfir
milljónina er Gunnar Gunnarsson.
„Hann var óhemjumikið lesinn í
Danmörku og Þýskalandi á milli-
stríðsárunum, og á þriðja áratugn-
um var hann einn mest keypti höf-
undur í Þýskalandi,“ segir hann.
„Ég yrði ekki hissa á að ef allt upp-
lag Aðventu væri talið, sem reynd-
ar kom seinna út, þá myndi það
slaga hátt í milljón líka. Ekki má
gleyma að Kristmann Guðmunds-
son var mjög vinsæll höfundur á
millistríðsárunum, en heildar-
upplag verka hans þekki ég ekki.“
Halldór, Nonni
og Gunnar yfir milljón
FORSVARSMENN Alcan, sem
eiga álverið í Straumsvík, hafa rætt
við Orkuveitu Reykjavíkur (OR)
um möguleg kaup á orku til stóriðju
vegna verulegrar stækkunar ál-
versins í Straumsvík, en árleg
framleiðslugeta álversins er rétt
tæp 180 þúsund tonn og það hefur
framleiðsluleyfi fyrir 200 þúsund
tonnum. Hefur verið rætt um kaup
á allt að 200 megavöttum í þessu
sambandi, samkvæmt upplýsingum
Morgunblaðsins.
Alfreð Þorsteinsson, stjórnarfor-
maður Orkuveitu Reykjavíkur,
staðfesti að forsvarsmenn Alcan
hefðu fundað með Orkuveitunni.
„Fulltrúar Alcan hafa hitt Guð-
mund Þóroddsson, forstjóra Orku-
veitunnar, að máli og kannað
möguleika á útvegun á raforku
vegna stækkunar ef til hennar
kemur,“ sagði Alfreð.
Samkvæmt upplýsingum Morg-
unblaðsins kom stjórnarformaður
Alcan á Íslandi, Wolfgang Stiller,
en hann er jafnframt yfirmaður ál-
framleiðslu Alcan í Evrópu, hingað
til lands í fyrrakvöld í þessum er-
indagerðum.
Vilja skoða málið betur
Aðspurður hverju Orkuveitan
hefði svarað til sagði Alfreð að OR
hefði lýst yfir áhuga á að skoða
þessi mál betur. Hann benti jafn-
framt á að stjórn Orkuveitunnar
hefði samþykkt ekki alls fyrir
löngu heimild til handa forstjóra
fyrirtækisins til að ræða við Alcan
um þessi mál, auk þess sem hann
vissi ekki betur en Alcan væri í við-
ræðum við fleiri orkusölufyrirtæki
hér á landi.
„Það eru viðræður í gangi og
það verður síðan að koma í ljós
hvort samningar verða gerðir við
Orkuveituna og einhverja fleiri, en
eins og ég hef áður sagt verða
þessi mál skoðuð í heild sinni áður
en ákvörðun verður tekin,“ sagði
Alfreð einnig.
Umhverfismat vegna stækkun-
ar álversins í Straumsvík í allt að
460 þúsund tonna framleiðslugetu
á ári með ákveðnum skilyrðum
hefur verið fyrirliggjandi frá árinu
2002 og fyrir um einu og hálfu ári
keypti álverið land af Hafnarfjarð-
arbæ sunnan og austan við núver-
andi álverslóð. Alls eru um 300
hektarar á þessu svæði í eigu ál-
versins og skipulags- og bygging-
arráð Hafnarfjarðar er með deili-
skipulagstillögur að svæðinu til
umfjöllunar.
Verði af stækkun og byggingu
nýrra kerskála af þeim sökum mun
það væntanlega kalla á færslu
Reykjanesbrautarinnar til suðurs,
þó of snemmt sé að ræða um slíka
hluti. Hins vegar voru tveir af
æðstu yfirmönnum álframleiðslu-
sviðs Alcan hér á landi um miðjan
desember síðastliðinn og ræddu við
stjórnvöld um mögulega stækkun
álversins.
Alcan ræðir við OR um kaup
á orku vegna stækkunar
Eftir Hjálmar Jónsson
hjalmar@mbl.is
Í STARFSREGLUM ríkislögreglustjóra
um málaskrá lögreglu segir að notendum
sé óheimilt að veita óviðkomandi aðilum
upplýsingar eða fletta upp á málum og ein-
staklingum sem tengjast ekki málum sem
þeir vinna að. Hægt er að rekja hverjir hafa
flett upp á einstaklingum eða málum í
málaskránni og getur viðkomandi átt von á
að verða spurður um hvaða ástæðu hann
hafði til þess, að sögn Steinars Adolfssonar,
lögfræðings hjá ríkislögreglustjóra.
Í síðustu viku úrskurðaði Persónuvernd
að Tollstjóranum í Reykjavík hefði ekki
verið heimilt að leita upplýsinga úr mála-
skrá lögreglu um konu sem sótti um tiltekið
starf hjá Tollstjóranum.
Steinar segir að með því að skrá hverjir
fletta upp á tilteknum upplýsingum sé verið
að fyrirbyggja að menn noti málaskrána af
forvitni einni saman. Röng notkun á mála-
skránni geti leitt til viðurlaga en honum var
ókunnugt um hvort slíkum viðurlögum
hefði verið beitt.
Um tugur manna hefur nú óskað eftir því
að vita hvaða upplýsingar eru skráðar um
þá í málaskrána. Steinar segir að slík erindi
verði að berast með skriflegum hætti og
ríkislögreglustjóri muni svara þeim á sama
hátt. Þeir sem þess óska geta fengið allar
upplýsingar úr málaskránni en vilji þeir fá
nánari útskýringar á hvers vegna þeir voru
skráðir verða þeir að leita til viðkomandi
lögregluembættis, að sögn Steinars.
Morgunblaðið/Golli
Notendur
málaskrár
lögreglu eru
skráðir
♦♦♦