Náttúrufræðingurinn - 1981, Page 36
og hveri, sem fyrir kæmu á landfræði-
lega afmörkuðu svæði og líkt hagaði til
um uppstreymisskilyrði, hitastig og
efnainnihald í vatninu. Það er álitamál,
hvort einskorða eigi hvert lághitasvæði
við aðeins eitt jarðhitakerfi, enda jafnan
látið liggja milli hluta. Víðátta jarð-
hitakerfis kemur yfirleitt ekki í ljós fyrr
en með borunum og vatnsvinnslu, sem
veldur lækkun grunnvatnsborðs i jarð-
hitakerfinu. Sem dæmi um lághitasvæði
má nefna undirlendið sunnan Esju. Þar
sýndi Gunnar 2 lághitalínur (Reyki og
Reykjavík). Nú er vitað þar um 4 jarð-
hitakerfi (Reyki, Laugarnes, Elliðaár og
Seltjarnarnes) og líkur á að þau séu fleiri
(Jens Tómasson o. fl. 1975). í Eyjafirði
leikur grunur á, að hvert laugasvæði
sem fylgir tilteknum gangi eða misgengi
sé eitt jarðhitakerfi og hafa boranir og
vatnsvinnsla til þessa stutt það álit.
Jarðfræðilega liggur beint við að telja
jarðhitann í Reykholtsdal og norðan
Hvítár í Borgarfirði sem eitt lághita-
svæði, en það er um 400 km2 að stærð
með um 30 lauga- og hverasvæðum.
Gunnar lýsti þessu svæði í greinum sín-
um (1960 og 1961), sem kerfi af lág-
hitalínum og hélt þannig þeirri spurn-
ingu opinni, hvort jarðhitakerfin væru
eitt eða mörg.
Heildarvatnsmagn á lághitasvæðum
landsins í hverum og laugum yfir 20°C
heitum, að hluta til mælt, en að hluta
áætlað, var fyrir boranir um 1800 1/s
(skv. gögnum Orkustofnunar) þar af
2/3 á þremur stærstu lághitasvæðum
landsins i Borgarfirði, Árnessýslu og
Mosfellssveit. Þetta er ekki hátt hlutfall
af heildarafrennsli landsins alls, sé þess
gætt að Elliðaárnar t. d. flytja næstum
þrefalt þetta vatnsmagn. Víða hefur
mátt auka vatnsvinnslu úr jarðhitakerf-
unum verulega með borun og dælingu,
stundum svo nemur tí- til tuttuguföldun
þess vatnsmagns sem upphaflega kom
fram á yfirborði. Sú spurning verður því
áleitin, hvort til staðar séu jarðhitakerfi,
sem lítt eða ekki verður vart á yfirborði.
Dæmi eru um að slik kerfi hafi fundist
við jarðhitaleit (Seltjarnarnes, Vind-
heimar í Ölfusi, Litlisandur í Hvalfirði),
og grunur leikur á að lághitavatn komi
fram á hafsbotni, en þar eru ekki þekkt
nema sárafá dæmi um jarðhita inni á
fjörðum (í Eyjafirði, í Breiðafirði, við
Inndjúp og með Sundum). Út frá hita-
stigli í berggrunni landsins mætti helst
vænta jarðhitakerfa næst gosbeltunum,
þar sem stigullinn er hæstur, en berg-
staflinn lítið rofinn. Þar sem svo hagar
til er þó víðast hvar hálendi og ekki að-
stæður til að nýta vatnið, þótt stungið
væri á því með borholum. Vinnsla
jarðhita hefur fram að þessu að mestu
verið bundin við þau svæði eða staði,
þar sem jarðhiti er fyrir á yfirborði.
Jarðhitaleit hefur nokkuð verið stunduð
á svæðum, sem liggja þar utan við, en
hún er bæði dýrari, tímafrekari og
óvissa um árangur meiri. Menn hafa því
hikað við að leggja í mikinn kostnað og
farið sér hægt. Full ástæða er samt til að
vinna áfram að slíkri jarðhitaleit og
fylgja eftir þeim vísbendingum, sem
þegar hafa fengist.
Meðal lághitasvæðanna má greina
mismunandi gerðir út frá jarðfræði-
legum aðstæðum. Enn eru þó fá
rennsliskerfi á lághitasvæðum svo vel
rannsökuð, að hægt sé að gefa tæmandi
lýsingu á því hvernig jarðfræðileg
bygging og brotlínumynstur stjórna rás
vatnsins. Einna mest rannsökuð eru
lághitasvæðin suðvestanlands, og í
Eyjafirði, en þó er þar ennþá ýmsum
178