Andvari - 01.01.1982, Blaðsíða 48
46
JÓN IINEFILL AÐALSTEINSSON
ANDVARI
Það er okkur íslendingum hins vegar lán, að einn af helztu forvígismönn-
um þjóðfræði á Norðurlöndum, Dag Strömbáck, fyrrum prófessor í Uppsölum,
var mjög handgenginn íslenzkum fræðum og stór hluti af merkum verkum hans
á vettvangi þjóðfræðinnar fjallar einmitt um íslenzk efni. Við Islendingar stönd-
um fyrir þessar sakir í mikilli þakkarskuld við Dag Strömbáck og verk hans
hafa um of legið í þagnargildi hér á landi.
Dag Strömbáck hafði aflað sér yfirgripsmikillar menntunar eins og títt var
um marga þekkta fræðimenn af gamla skólanum. Sérsvið hans var norræn
textafræði (fílólógía) og trúarbragðasaga, en auk þess var hann vel heima í
klassískum málum og heimspeki. I hópi Norðurlandafræðimanna hafði hann
einnig sérstöðu hvað íslenzkuna snerti, því að hann hafði engu síður gott vald á
nútímaíslenzku en fornmálinu. Á þessum trausta grunni haslaði hann sér völl
sem sérfræðingur í þjóðfræði og textafræði, en þessar tvær greinar voru honum
einkum hugleiknar.
Um miðjan þriðja áratuginn dvaldist Dag Strömbáck um skeið hér á Is-
landi og flutti fyrirlestra um sænskar bókmenntir við Háskóla íslands. Um
tíma sótti hann þá fyrirlestra hjá Sigurði Nordal prófessor og varð það upphaf
langra kynna og vináttu sem entist meðan báðir lifðu." Hér kynntist Dag
Strömbáck einnig þeim Jóni Helgasyni og Einari Ol. Sveinssyni og urðu þau
lcynni einnig langæ. Finni Jónssyni prófessor í Kaupmannahöfn var hann einnig
gagnkunnugur um þessar mundir og árið 1928 ritaði hann grein í afmælisrit
Finns, er hét ,,Lýtir - sænskur fornguS
Störf Dag Strömbácks við Háskóla íslands og samstarf hans við forystu-
menn íslenzkra fræða þar höfðu drjúg og varanleg áhrif á ævistarf hans og
rannsóknir. Þetta kemur fram þegar í doktorsritgerð hans, Sejd (Seiður), er hann
varði við Uppsalaháskóla árið 1935.4 í fyrsta kafla þeirrar ritgerðar gerir Dag
Strömbáck grein fyrir heimildargildi ýmissa norrænna rita og rekur í því sam-
bandi skoðanaskipti fræðimanna um Islendingasögur, einkum í ljósi andstæðra
kenninga um „bókfestu“ og ,,sagnfestu“, sem um þessar mundir voru ofarlega
á baugi. í framhaldi af ýtarlegri umfjöllun um þessi efni segir síðan:
,,Á allra síðustu árum hefur verið lagður fram mikilsverður skerfur til lausn-
ar vanda ,,bókfestu“ og „sagnfestu“, í þetta skipti af Islendingum sjálfum.
Er þar um að ræða formála Sigurðar Nordals að Egils sögu í 2. bindi Islenzkra
fornrita (1933).“ö Dag Strömbáck rekur síðan nánar skoðanir Sigurðar Nordals
á því, að íslendingasögur séu bókmenntaverk og höfundar þeirra hafi í senn
haft vald á sagnaauði samtíðar sinnar og fortíðar og bókmenntum aldarinnar.
Og svo litríkar og listilega gerðar séu margar Islendingasagna, að þar hljóti
skáldgáfa höfundar að felast að baki, höfundar, sem gat mótað efni sitt að
geðþótta. Að lokinni umfjöllun um þessar kenningar Sigurðar Nordals, þar sem
þróunin er rakin frá „strangfræðilegu yfirlitsriti“ Ara fróða og allt til ýkjusagna
og samsteypurita 14. aldar, segir Dag Strömbáck: „Þau viðhorf sem nú hafa