Andvari - 01.01.1982, Side 91
ANDVARI
FRANSKA BYLTINGIN
89
náð á nokkrum mannsöldrum verður þjóðfélagið ekki aðeins félag lifenda,
heldur félag þeirra sem eru á lífi, þeirra sem eru liðnir og þeirra sem eru
óbornir.“4
Þjóðfélagsbreytingar eru því aðeins réttlætanlegar að þær virði líftaug kyn-
slóðanna og varðveiti; nýjungin verður að laga sig eftir hinu hefðbundna
sniði þjóðfélagsins ef hún á að geta kallast umbót. I samræmi við þetta
grundvallarviðhorf íhaldsstefnunnar túlkaði Burke hina „frækilegu byltingu“
forfeðra sinna 1688. Þá byltingu kvað hann hafa verið gerða til að varð-
veita „hin fornu, óvefengjanlegu lög vor og réttindi“ og í þeim skilningi
hefði byltingin verið miklu fremur endurreisn arfleifðar en afneitund
Frönsku byltinguna taldi Burke af allt öðrum toga. I mannréttinda-
yfirlýsingu hennar fælist gagnger afneitun á öllu því sem fortíðin, með
hefðum sínum og guðstrú, hefði skilað nútíðinni, s.s. fullveldi konungdómsins,
helgum eignum kirkju og aðals, fjölskyldunni og þeim forréttindum sem hefðu
notið virðingar svo lengi sem menn mundu. Eða hvaða merkingu gæti sú yfir-
lýsing haft að allir menn séu fæddir jafnir og frjálsir. Burke áleit að hin svo-
kölluðu náttúruréttindi væru einskær hugarburður og ættu sér enga stoð í
veruleikanum. Hann neitaði því að hægt væri að tala um frelsið í almennri
merkingu; það hefði mismunandi merkingu eftir stað og stund:
„Ætti maður, vegna þess að frelsi í sértækum skilningi má telja til guðs-
gjafa mannkynsins, að samfagna stigamanni og morðingja sem hefur brotið
af sér hlekkina með endurheimt náttúrlegra réttinda hans?“fi
Frelsi sem sértækt hugtak væri augljós merkingarleysa. Fyrirbærin yrðu
yfirleitt ekki skoðuð og metin skynsamlega nema með hliðsjón af kringum-
stæðunum:
„Kringumstæðurnar (sem ýmsir meta einskis) Ijá í raun og veru hverri
stjórnmálareglu sinn sérstaka blæ og skera úr um áhrif hennar. Eftir
kringumstæðunum fer það hvort félagsleg eða pólitísk áform reynast
gagnleg eða skaðsamleg mannkyninu.“'
Með slíkum röksemdum hjó Burke að hugmyndastoðum frönsku bylting-
arinnar, sjálfum náttúruréttinum. Hann hafnar afdráttarlaust þeim skilningi
Lockes og Rousseaus að náttúrlegt megi það kallast sem er ígróið mannlegri
náttúru, óháð stað og stund. Frá sjónarmiði Burkes er hið náttúrlega þvert á
móti afsprengi langrar sögulegrar þróunar og venju. Og þar sem hvert land
hefur þróast á sinn sérstaka hátt er hið náttúrlega einstaklingslegt og sérstætt
í sínu eðli. Því er fásinna að ætla sér, að hætti byltingarmannanna frönsku, að
byggja algilda reglu á hinu náttúrlega burtséð frá kringumstæðum lands og