Andvari - 01.01.1982, Side 114
112
GÍSLI BRYNJÓLFSSON
ANDVARI
urinn, prófastur Jón Þórðarson á Auðkúlu, eitthvert mesta ljúfmenni, sem ég
fyrirhitti í bernsku. Til marks um lítillæti hans og góðvild við mig má geta
þess, að eitt sinn, er ég var 13 ára, varð ég svo hrifinn af kirkjuræðu hans á
2. sd. eftir páska (þá er guðspjallið: Jesús er góður hirðir Jóh. 10.), að ég
dirfðist að biðja hann að lána mér ræðuna að lesa, og gerði hann það.“
Um þennan atburð má segja það, að hér var því frækorni sáð í hjarta
þessa unga drengs, sem átti eftir að bera ríkulegan ávöxt í íslenzkri kristni,
þegar tímar liðu.
Svo er að sjá á bréfum sr. Jóns síðustu æviárin, að honum hafi lítt geðjazt
að breytingum í trúar- og kirkjulífi, sem þá voru að gera vart við sig. Um
þær er hann harðorður: „Margt hefur tíminn í skauti sínu. Þó hræðist ég
ekkert eins og trúleysið hjá hinni yngri kynslóð. Það er ótrúlegt, hvað það
gengur hnarreist. . . . Eg er svo intolerant, að ég vil kasta öllum Guðleysingj-
um í hin yztu myrkur, því þeir eru það engir af sannfæringu. - Það er ómögu-
legt, heldur af monti.“
Við þessi ummæli rifjast upp það, sem Kolka segir í Föðurtúnum (bls.
264): „Kristileg auðmýkt hefur aldrei verið ein af höfuðdyggðum Húnvetn-
inga.“
I skýrslu um embættisfærslu presta í Húnavatnsprófastsdæmi, sem próf.
sr. Eiríkur Briem í Steinnesi samdi 31. jan. 1878, segir svo um sr. Jón Þórðar-
son, að ,,hann má heita prýði stéttar sinnar, hvort sem litið er til hans sem
kennimanns, barnafræðara eða heimilisstjóra. Með alúð og ástundun rækir
hann köllun sína í öllu, og hið guðrækna og alvörugefna hugarfar hans lýsir
sér hvar sem hann kemur fram, hvort heldur er innan kirkju eða utan, heima
hjá sér eða annars staðar.“
Prófasturinn.
Þegar sr. Jón Þórðarson hafði verið prestur í sex ár, var hann valinn
prófastur í Húnavatnsprófastsdæmi. Ekki var það að hans vilja, heldur honum
mjög á móti skapi að gangast undir þær leiðu og oft erfiðu skyldur, sem þessu
starfi fylgdu, t. d. í sambandi við úttektir á prestsetrum við prestaskipti. Þá
er og þess að geta, hve sr. Jón var ákaflega heimakær og lítið fyrir ferðalög
gefinn, leið beinlínis illa þegar hann var af bæ og þráði að komast heim sem
fyrst. Hann var líka lítill reiðmaður, ,,gerði hvern hest að letingja“, hversu
góður sem hann var að upplagi.
Þegar sr. Ólafur Pálsson dómkirkjuprestur fluttist norður að Melstað,
fékk sr. Jón tækifæri til að losa sig við prófastsembættið, en hlaut að taka við
því á ný, þegar sr. Eiríkur Briem fór suður frá Steinnesi árið 1880 - og gegndi
því til dauðadags. - Stærsti viðburður í prófaststíð sr. Jóns var eflaust presta-
fundur á Auðkúlu 12. ágúst 1864 undir forsæti biskups. Þar komu saman
13 prestar auk biskups og fylgdarliðs hans. Er þess getið í samtímaheimild-