Andvari - 01.01.2000, Side 78
76
GUNNAR KRISTJÁNSSON
ANDVARI
aðra svo dæmi séu tekin. Efni samræðnanna var síðan efni ritsins. Vöktu
þessar ráðstefnur í Skálholti verðskuldaða athygli. Á sama tíma má greina í
ályktunum prestastefnu hvernig íslenska þjóðkirkjan gerir tilraunir til að
taka þátt í hinni almennu þjóðmálaumræðu. Einn þeirra manna sem stóðu
að baki þessum breytingum var prófessor Þórir Kr. Þórðarson (1924-1995).
I kennslu sinni innleiddi hann ný viðhorf í guðfræði frá Bandaríkjunum þar
sem nöfnin Reinhold Niebuhr (1892-1971) og Paul Tillich voru oft nefnd.
Þótt Kirkjuritið hafi á þessum tíma gert heiðarlega tilraun til að innleiða
framsækna guðfræðiumræðu í kirkjunni er erfitt að meta áhrifin. Mörgum
ungum guðfræðingum og leikmönnum, m. a. meðal þeirra sem tóku þátt í
„tilrauninni“, fannst áhrifin á kirkjuna ekki skila sér sem skyldi. Aftur leit-
aði í sama far og áður hafði verið. Um ástæður skal ekki fjölyrt hér, ef til
vill eiga hinar breyttu áherslur í starfi kirkjunnar þátt í því: stofnun sem
einbeitir sér að helgiathöfnum og fjölbreytilegu safnaðarstarfi telur sig ekki
í þörf fyrir mikla fræðilega umræðu.
Imynd prestsins hefur smám saman tekið breytingum eins og ímynd
kirkjunnar í heild. Presturinn hefur lagað sig að nýju hlutverki í breyttu
samfélagi líkt og kirkjan. Staða prestsins, sem var svo samofin þjóðlífinu í
upphafi aldarinnar, tekur verulegum breytingum þegar líður á seinni hluta
aldarinnar. Almenn þátttaka presta í menningar- og félagsmálum virðist
ekki vera eins sjálfsögð og fyrr á öldinni þegar þeir gerðu sér far um að
vera virkir á sem flestum sviðum þjóðlífsins, þeir virðast einnig fjarlægjast
sífellt meir heim bókmennta og fræða þar sem þeir höfðu verið vel heima
alla tíð. Nú er fjölþætt safnaðarstarfsemi komin á dagskrá, sálgæsla er til
umræðu, sorgarhópar, áfallahjálp, einnig kyrrðarstundir og mömmumorgn-
ar svo eitthvað sé nefnt.
Safnaðarheimilið, einkum í þéttbýli, hefur að ýmsu leyti tekið við því
hlutverki sem prestssetrið gegndi áður. Einstakir prestar hafa staðið fyrir
fjölþættri safnaðarstarfsemi í sóknum sínum og virkjað í því sambandi
fjölda leikmanna til starfa. Þetta er vissulega jákvæð þróun. Hún stendur
þó í takmörkuðu sambandi við þá guðfræði sem er ráðandi í starfi kirkj-
unnar, allt eins mætti líta á hana sem tímanna tákn í starfi kirkjunnar um
víða veröld, hingað komin vegna kynna margra presta af kirkjustarfi er-
lendis.
Fjölbreytni í kirkjustarfi er góð svo langt sem hún nær en hún má ekki
verða fálm út í loftið. Orð séra Sigurðar Sigurðarsonar í Kirkjuritinu árið
1984 eru umhugsunarverð er hann segir að kirkjan sé „ómarkviss í starfs-
háttum og innra skipulagi, oft stefnulaus í boðun sinni, kærulaus um stöðu
sína í þjóðfélaginu og yfirleitt ekki framsækin. Hún er veil í vitundinni um
sjálfa sig.“16
Líkt og um síðustu aldamót urðu mikilvægar breytingar á löggjöf kirkj-