Andvari - 01.01.2000, Qupperneq 110
108
GUNNAR KARLSSON
ANDVARI
ég frekar þau atriði sem mig greinir á um við Hjalta Hugason, höfund
fyrsta bindis kristnisögunnar, en þau sem ég er sammála honum um. Því er
rétt að taka fram í upphafi að ég er langtum sáttari við verk hans en grein
mín gefur tilefni til að halda.
I. Hin konunglega kristnitökuaðferð
Á sjöttu til tíundu öld eftir fæðingu höfundar síns breiddist kristni út og
varð að opinberum trúarbrögðum um mestalla Evrópu, þar sem hún var
ekki komin á áður. Þetta gerðist venjulega þannig að kristniboðar, stund-
um sendir af páfa, leituðu til konunga og töldu þá á að taka kristni. Kristn-
in breiddist síðan út til þegnanna fyrir kraft konungsvaldsins, sem jók um
leið tök sín á þegnunum.4 Meðal annars blasir þessi ferill við á Norðurlönd-
um austan Atlantshafs. Konungar gengust fyrir því að snúa þegnum sínum
til kristni og brutu þá um leið undir vald sitt, þannig að kristniboðstíminn
skildi eftir sig Skandinavíu í þremur konungsríkjum,5 sem eru raunar til á
okkar dögum, í Danmörku og Svíþjóð af því að þau hafa lifað svotil óslitið,
í Noregi af því að það var endurreist á 20. öld. Með þessu er ekki sagt að
kristnun Evrópu hafi eingöngu verið leikur í valdatafli konunga. Aftur á
móti má fullyrða að sú kristnitökuaðferð hefur reynst árangursríkust sem
þjónaði best hagsmunum valdhafa, eins þótt hún þjónaði jafnframt öðrum
hvötum og áhugamálum þeirra.
Ekki fer hjá því að konungar hafi oft kristnað þegna sína með miklu of-
beldi. í íslenskum sögum af Ólafi Tryggvasyni Noregskonungi er ekki dreg-
in fjöður yfir það. Elsta saga Ólafs er eftir íslenskan munk, Odd Snorrason
á Þingeyrum, skrifuð á latínu undir lok 12. aldar en aðeins varðveitt á nor-
rænu. Oddur hlýtur að vera um það bil hliðhollasti talsmaður konungs sem
völ er á, úr því að hann lagði á sig að skrifa sögu hans, svo ekki er hætta á
að hann geri hlut Ólafs verri en sagnirnar sem hann hafði fyrir sér gáfu til-
efni til. Að sögn Odds lét Ólafur konungur oftast sitja við að hóta þeim
mönnum útlegð eða bana sem ekki vildu taka kristni, eða sonum þeirra. Ef
menn létu ekki undan stóð hann við hótanir sínar og lét hengja menn eða
höggva.6
Þegar konungur komst að því að Þangbrandi trúboða hans hafði mistek-
ist að kristna Islendinga segir Oddur óvenjulega afdráttarlaust frá við-
brögðum hans:7 „Konungr varð við þetta reiðr mjök, ok lét taka íslenzka
menn ok lét suma ræna en suma drepa en suma meiða.“ Ari fróði gerir
minna úr þessu, segir aðeins að konungur „ætlaði at láta meiða eða drepa