Andvari - 01.01.2000, Qupperneq 155
ANDVARI
SKÁLDSKAPUR OG SAGA
153
hús evrópskra bókmennta og goðsagna að fornu og nýju. Ef til vill munu
einhverjir segja að þar sé módernistinn og skáldið Svava Jakobsdóttir á
heimavelli, enda njóta skyggnigáfa hennar og frumleiki sín vel. Hitt dylst
samt ekki hversu vel lesin Svava er í rómantískum skáldskaparfræðum og
þeirri heimspeki sem kennd er við þá stefnu.
Að hætti margra bókmenntafræðinga 20. aldar, m. a. þeirra sem aðhyll-
ast nýrýni, lítur Svava svo á að allur góður skáldskapur sé í eðli sínu erfiður
vegna þess hve hlaðinn merkingu hann er. Af þessum sökum telur hún Iíka
að verk Jónasar Hallgrímssonar krefjist «sérstaks lesháttar» (247), og sjálf
lýsir hún í inngangsorðum sínum hvernig beri að nálgast þau (10). Ljóst
virðist að ritskýring hennar byggist að hluta til á þeirri túlkunaraðferð sem
guðfræðingar hafa beitt frá alda öðli, þ. e. að leggja textana út orð fyrir orð
og setningu fyrir setningu og benda á hvernig megi skilja þá á fleiri en einn
hátt sem allir komi þó til greina. Hér gengur hún að breyttu breytanda
sama veg og sænski bókmenntafræðingurinn Horace Engdahl sem heldur
því fram að rómantískt skáldverk verði einungis krufið með tvísærri sögu-
ritun, þ. e. með því að skoða það frá mörgum og mismunandi sjónarhorn-
um.k Ummæli hennar um kvæðið «FerðaIok» lýsa þessari afstöðu vel:
Nánast hvert orð er margföld tilvísun í munni skáldsins sem yrkir. Þær ber að lesa all-
ar en ekki að velja á milli þeirra. Sama orðið vísar í ólík svið eða stig tilverunnar
vegna samsvörunar heimanna. Bókmenntagreinarnar, sem vísað er í, eru rómantísk
fagurfræði, fornar íslenskar bókmenntir og Biblían. (142)
I þessu samhengi er einnig athyglisverð sú skoðun Svövu að skáldverk
Jónasar séu «margradda» í þeim skilningi að þau tjái mismunandi sjónar-
mið og raddir sem séu ekki alltaf höfundarins (262). Jafnframt heldur hún
því fram að útstrikanir og aðrar breytingar Jónasar á textum sínum séu
«ekki leiðréttingar heldur hluti af textanum sem ábendingar um margræða
túlkun» (153). Hún nefnir t. d. að með þremur mismunandi hugmyndum að
heiti «Ferðaloka», þ. e. «Ástin mín», «GömuI saga» og «Ferðalok», sé engu
líkara en skáldið vísi í «þrjú mismunandi svið» kvæðisins: «hið fyrsta gæti
bent til þess að kvæðið væri ástarkvæði, heitið Gömul saga gæti verið vísun
í goðsögu eða fornsögu og ætti þá við hugsjónasviðið. En orðið ferðalok
jafngildir kvæðislokum í þeim skilningi að mótsagnir hinna sviðanna
tveggja, raunsæis og hugsjónar, eru upphafnar» (156). Að dómi Svövu eru
«Ferðalok» því langt í frá «létt kvæði» og «til þess fallin að lesa þau einu
sinni fyrir nemendur», eins og Sigurður Nordal hélt fram á sínum tíma þeg-
ar hann ræddi um val sitt á textum í íslenzka lestrarbók.9 Þvert á móti séu
þau afar flókinn texti sem einungis verði skilinn til hlítar með nákvæmum
og margendurteknum lestri.
Sveinn Yngvi Egilsson gerir textarýnina einnig að snörum þætti í bók