Andvari - 01.01.2005, Qupperneq 99
andvari
RITHÖFUNDAR í ÚTLÖNDUM
97
ljóslega ákveðið „menningarauðmagn“ í þýðingum. Þetta staðfestir orð sem
Walter Benjamin lét falla í þekktri ritgerð um að þýðingar væru nátengdar
frægð (þ. ,,Ruhm“). Ritverk eru ekki orðin raunverulega „fræg“ (en það orð
er á íslensku tengt því að fregna, sbr. þá sem fregnir fara af, í þessu tilviki: þá
sem fara til annarra tungumála) fyrr en þau eru þýdd. Þýðingar tryggja lang-
lífi og „þroska“ eða það sem Benjamin kallar „eftirþroska" (,,Nachreife“).3
Gildi og lífsmagn bókmenntaverka, og þarmeð tilkall þeirra til að teljast
heimsbókmenntir, er ekki fullreynt fyrr en en verkið hefur verið þýtt á önnur
mál. Og þetta gildi þarf svo yfirleitt að staðfesta með nýjum þýðingum þegar
fram í sækir. Hið mikla átak sem fólst í nýlegum þýðingum íslendingasagna
á ensku er til vitnis um að ýmsum þykir tími til kominn að alþjóðlegt framlag
íslenskra miðaldabókmennta sé metið að verðleikum.
En jafnframt segir nærvera erlendra bókmennta ýmislegt um íslenskt bók-
menntalíf og menningu, um sjálfskilning hennar og staðsetningu gagnvart
öðrum menningarheimum.
II
Bókmenntaverk eru þýdd af ýmsum ástæðum og þýðingin ein og sér nægir
ekki til að tryggja sess í hefðarveldi bókmenntanna. Hér sný ég því aftur að
upphaflegri spumingu minni: Hvernig má bera kennsl á, og leggja mat á, nær-
veru og stöðu útlendra rithöfunda í bókmenntalífinu, þ.e. í hverju einstöku
bókmenntakerfi, eins og því íslenska? Ég tel að fjórir meginþættir skipti þar
mestu og að þeim verði að gæta:
1. Þýðingar á verkum hins erlenda höfundar.
2. Fræðileg, gagnrýnin eða önnur skipuleg umræða um erlenda höfund-
inn og verk hans, þ.m.t. formálar, eftirmálar eða aðrar umsagnir sem fylgja
Þýðingunni, ritdómar um þýðinguna og umfjöllun um verk höfundarins í
skólum þar sem verkin eru lesin.
3. Almennt umtal eða vísanir til höfundarins eða verkanna, þ.e. skírskot-
anir sem gefa til kynna eða staðfesta nærveru hans í menningunni, nærveru
sem hægt er að „virkja" með snöggri ábendingu, jafnvel aðeins nafni höfund-
arins, ljósmynd, osfrv.
4. Áhrif hins erlenda höfundar á hlutaðeigandi bókmenntir eða annars-
konar textatengsl, þar sem verk/texti höfundarins birtist sem efniviður í
sköpunarferli annars höfundar.
Þessir þættir eru augljóslega innbyrðis tengdir á ýmsan hátt. Þegar einn höf-
undur tengir sig við annan með áicveðnu orðalagi (og það getur verið til að
hylla hann eða skopstæla, eða bara til að ítreka „almælt tíðindi“), þá getur