Andvari - 01.01.2005, Síða 102
100
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
sagnagerð að þessum verkum frágengnum. Joyce tók til við sinn móderníska
Odysseif, en Laxness sneri sér að því að endumýja raunsæið í íslenskri sagna-
gerð með Sölku Völku og Sjálfstœðu fólki.
Skáldsögunni óx mjög fiskur um hrygg sem bókmenntagrein á Islandi
fyrir og um miðja 20. öld og átti Halldór Laxness ekki lítinn þátt í þeirri
þróun. Þar kemur þó einnig við sögu sá mikli kippur sem hljóp í þýðingar
og með þýddum sögum eflist tungutak borgarinnar í bókmenntunum. Margar
íslenskar skáldsögur fjölluðu um umskiptin sem fylgdu flutningi úr sveit í
þéttbýli en einnig fór að kræla á Reykjavíkursögum, verkum sem gerðu ráð
fyrir borginni sem uppvaxtarstað og jafnframt stað þar sem hvað helst mátti
skynja áhrif nútímavæðingar í ýmsum myndum.
Ein þessara Reykjavíkursagna er Vögguvísa eftir Elías Mar sem út kom
1950 og fjallar um ungt og eirðarlaust samtímafólk sem er undir áhrifum
bandarískrar dægurmenningar og jafnframt endurómar sagan talanda þessa
unga fólks, m.a. ný slanguryrði. Athyglisverðast við málheim sögunnar, og
einkar nýstárlegt í íslensku samhengi, er þó að hún endar á rúmlega þriggja
blaðsíðna hugflæði eða vitundarflæði (e. „stream of consciousness“) aðalper-
sónunnar, Bambínó, þar sem hann liggur á gangstétt eftir að hafa verið fleygt
út af skemmtistað. Það vekur furðu að í þeim ritdómum sem upprunalega
birtust um bókina skuli ekki vera rætt um þessa tækni sem hlýtur að minna á
hinn fræga lokakafla Ulysses, vitundarflæði Mollýar Bloom, þó svo að texti
Elíasar sé skipulagðari í sniðum. Þótt ekki sé hér með beinu orðalagi vísað
til Mollýar eða Joyce, má segja að með þessum tjáningarhætti í sögulok
lyfti Elías Mar hatti sínum í átt til hins írska höfundar og bjóði jafnvel upp
á umræðu um tengsl nútímalífs og vitundarmiðlunar í skáldskap.7 Islenskir
ritdómarar veltu því hinsvegar einkum fyrir sér hversu vel lukkuð þjóðfélags-
gagnrýni þessarar skáldsögu væri - og voru reyndar ekki á einu máli um það
- en hún er semsé lesin eins og saga í hefðbundnu formi þjóðfélagsraunsæis
og aðrir þættir hennar þaggaðir ef svo má segja - þ.á m. sá þáttur sem kalla
má joycískan.8
IV
Þögn þarf ekki að þýða að vitund skorti um höfund og verk hans. Það er
ljóst að frá og með þriðja áratugnum voru ýmsir íslenskir bókmenntamenn
sér meðvitandi um róttækar nútímahræringar í evrópskum bókmenntum - og
Joyce var orðinn fyrirferðarmikill á þeim sjóndeildarhring. Hérlendis sáu
sumir módernismann sem ógn við hin hefðbundnu gildi sveitasamfélagsins
sem þeir vildu framlengja inn í borgaralegt samfélag, en aðrir litu svo á að
módemisminn væri einmitt hámark hinnar borgaralegu nútímamenningar
sem drepa bæri hendi við.