Skírnir - 01.01.1926, Side 194
180 Nokkurar athugasemdir um bókmentir siðskiftaaldar. [Skírnir
Nauðvörn er með vissu ort eftir Tyrkjaránið, en líklega
ekki fyrr en vorið 1628. Gæti því Árgalinn verið ortur
haustið 1627, þó að orðalagið bendi fremur til þess, að
þar hafi verið ort um aðrar og eldri plágur. En að fullu
getur kvæðið Sálmavottur1) eftir síra Jón Þorsteinsson
skorið úr þessu máli. Þar eru 9 erindi um síra Ólaf Ein-
arsson og skáldskap hans, og þetta m. a.:
Árgalann og annað fleira
þá yngisfólkið heyri eg syngja,
kemst eg við og kenni eymstra,
kltíknar brjóst, en augun vökna.
Nú var síra Jón einmitt veginn af Tyrkjum 1627. Úr því
að hann talar um Árgalann, og það jafnvel sem víðkunn-
ugt kvæði, hlýtur kvæðið að vera mörgum árum eldra en
Tyrkjaránið. Ef fylgt er ársetningunni í AM 181 4to, verður
alt ljóst í kvæðinu. Plága sú, sem því er framar öllu móti
stefnt, er bólan, sem gekk utn land syðra, vestra og nyrðra
1616, en kom á Austurland 1617. Ránskapur sá, sem vikið
er að, er rán erlendra kaupmanna og fiskimanna (í Vest-
mannaeyjum 1614, á Djúpavogi sama ár, Spánverja vestra
1616). Heimildir eru að visu ekki um Heklugos á árunum
fyrir 1617, en af orðalaginu má ráða, að það hafi verið
lítið gos (heyrðust brestir í Heklu snjallir | hún þá logan-
um úr sér spjó). Myndi sira Ólafur hafa haft fleiri og
stærri ummæli um gosið 1619, ef kvæðið væri ort eftir
þann tíma.
Mér hefur þótt til vinnandi að gera þennan útúrdúr til
þess að eyða efa þeim, er hefur getað leikið á um dánar-
ár síra Einars, og til þess að árfæra réttar en áður hefur
verið gert eitt allra merkasta kvæði siðskiftaaldar. Nú skal
1) Um Sálmavott og handrit þau, sem kvæðið hafa að geyma,
sjá M. og m. IV, 650, 654. Síra Jón telur þar sálmaskáld fram á sína
daga. Mætti ef til vill í sumum atriðum gefa því kvæði frekara
gaum en gert hefur verið. Það er t. d. einkennilegt, að Olafur bisk-
up Hjaltason er ekki nefndur á nafn. Síra Jóni Þorsteinssyni hefur
því a. m. k. verið alókunnugt um, að hann hafi ort (eða þýtt) sálrna.