Iðunn : nýr flokkur - 01.07.1928, Blaðsíða 35
IÐUNN
Hneyksliö.
229
»Ungfrú Gunnfríður, þér hafið að líkindum misskilið
mig. Eg elska yður; ég er hingað kominn til að biðja
yður að verða konan mín. Og ef erindi mitt fær þær
lyktir, sem ég vona, og sem, — ég leyfi mér að segja —
sem guð vill, þá má allur heimurinn vita þær málalyktir
þegar í stað«.
»Eg veit ekki hvað guð vill. En ég ætti að vita hvað
sjálfri mér líður. — Eg er yður auðvitað þakklát, kæri
prestur, fyrir þá virðingu, sem þér sýnið mér með erindi
yðar; og mér finst þér eigið heimtingu á að ég svari
yður í fullri hreinskilni. En það er — það er ugglaust
sérvizka, þrákelkni eða eitthvað enn verra, en ég er
svoleiðis gerð, að ég gæti aldrei átt annan en þann,
sem mér litist vel á, — alveg ljómandi vel«.
»Nei, nei, það er engin von«, greip presturinn fram
í. »Ef yður lízt ekki á mig, þa er varla von, — ekki
von —«.
»Ég hefi ef til vill móðgað yður, prestur. Það er illa
farið. En ég átti ekki aðallega við fríðleiksmann, — ja
náttúrlega meðfram fríðleiksmann, í mínum augum —
auðvitað. Sá maður, sem ég ætti að geta átt eða elskað,
mundi að líkindum gagnhrífa mig í einu vetfangi, sterkur,
ítur, glæsilegur, öðru vísi en allir aðrir. í augum hans
mundi ég sjá alla framtíðina, hamingjuna, gleðina, —
lífið. En slíkan mann sé ég ugglaust aldrei í veruleik-
anum. — Tómur heilaspuni, skiljið þér«.
»]á, slíkan mann — með alla framtíðina í augunum,
— svoleiðis mann. Það getur dregist, að þér sjáið
hann«, sagði presturinn. Honum var sem hann hlustaði
á fossnið fjarstæðnanna og fataðist því í svipinn að orða
veigamikil svör. Hann athugaði víggirðingarnar um stund
og bjó sig til nýrrar atlögu, með nýjum orðum. En á
meðan á því stóð, greip Gunnfríður tækifærið:
Iðunn XII.
15