Prestafélagsritið - 01.01.1927, Side 7
Prestafélagsritið.
Guðbrandur Þorláksson.
3
baki og flekklausan æfiferil. En því fór mjög fjarri, að séra
Sigurður í nokkurri grein léti verða vart nokkurrar þykkju til
hins unga biskups. Enda tókst með þeim skjótt vinátta mikil. í
Skagafirði var í fremstu presta röð séra Gottskálk Jónsson í
Glaumbæ, ágætismaður og fræðimaður mikill eftir því sem um
var að gera þá. Var með þeim biskupi og honum allsterk
vinátta. í Eyjafirði var séra Björn í Saurbæ Gíslason, bróðir
Arna sýslumanns á Hlíðarenda og því föðurbróðir Kristínar
konu Guðbrands, merkur maður og mikilsverður biskupi. í
Húnaþingi var séra Erlendur Pálsson á Breiðabólsstað, mágur
biskups, mikilsmetinn klerkur. Og fleiri mætti nefna. Alla
þessa presta gerði biskup sér að trúnaðarvinum og naut,
meðan til entust, stuðnings þeirra á marga lund við rekstur
embættis síns og um leið til að hafa áhrif á stéttarbræður
sína, þá er minni háttar voru. Því að þeir voru vitanlega ekki
fáir innan prestastéttarinnar norðanlands, sem leiðréttingar
þurftu og leiðbeiningar. Öllu öðru fremur háði fáfræðin þess-
um prestum, enda fær einn þeirra þann vitnisburð hjá biskupi
í bréfi til Páls Sjálandsbiskups, að hann hafi jafnvel ekki getað
lesið upp úr postillu og ekki kunnað utanbókar texta fræð-
anna. Þegar ofan á þetta bættist vanræksla í embættisrekstri,
er ekki að furða þótt biskup setti hann af embætti sem
óhæfan. Einnig var hegðun presta víða mjög ábótavant á
fyrstu biskupsárum Guðbrands. Dæmi eru þess, að biskup tví-
vegis varð að taka embætti af sama prestinum, er hann, eftir
að hafa verið tekinn í sátt, gerðist aftur brotlegur. Og að
biskup fór ekki í manngreinarálit, er auðsætt af því, að hann
víkur Jóni syni séra Gottskálks í Glaumbæ, vinar síns, frá
embætti fyrir ósæmilega framkomu hans, og (löngu síðar)
systursyni sínum, séra Ólafi Erlendssyni, sem annars var vel-
metinn klerkur, fyrir villukenningu (Kalvínsku).
Guðbrandi biskupi var það augljóst þegar frá upphafi, að
til þess að takast mætti að festa hina nýju trúarskoðun í með-
vitund manna, þyrfti að veita bæði kennimönnum og alþýðu
næga fræðslu um hin helgu sannindi trúarinnar eftir evangel-
iskri kenningu. Því að fáfræðin hér var erfiðasti þröskuldur-