Prestafélagsritið - 01.01.1927, Page 28
Prestafélagsritið.
TRÚARLÍF PASCALS.
Erindi flutt í Eiðahólma og víðar.
Eftir séra Ásmund Guðmundsson skólastjóra.
»Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá í óljósri mynd, en þá
augliti til auglitis*. Hafið þér hugsað um dýpt þessara orða?
Það er Guð sjálfur, sem birtist oss svo. Líkt og fegurð sól-
arinnar endurspeglast hér á jörð með óendanlega mörgu móti,
þannig leiftra guðdómsgeislar inn í öll djúp tilverunnar, og
hverfur ekkert skini þeirra. »011 jörðin er full af hans dýrð«,
eins og sjáarinn mælti, og sólin sjálf og allur sjónarheimurinn
út fyrir yztu stjörnur er brot af þeirri skuggsjá — en aðeins
lítið brot. Andlegir heimar rísa á efnisgrunninum hærra og
hærra og auðugri og auðugri að vegsemd Guðs. Þeir lykja
um oss og gagntaka sál vora. Vér eigum eitthvað af þeim í
hjartanu. Og á helgustu stundum æfinnar opnast þeir oss svo,
að engin tunga kann að lýsa unaði þeirra né veldi. Getur
birt af þeim í morgunroða fyrir fæðingu vora og blánað af
sumarlöndum þeirra handan við gröf og dauða. Alt er þetta
skuggsjá dýrðar hins mikla Guðs, sem önd vor þráir einan í
dýpstum skilningi. En sjálfur býr hann í því ljósi, sem enginn
fær til komist og ekkert dauðlegt auga horfir inn í, og himn-
ar himnanna taka hann ekki. Þessvegna horfum vér á end-
urskinið frá honum, þar sem ljósið hans fellur bjartast inn í
andlegt líf vor mannanna, og viljum krjúpa þar með lotningu
og tilbeiðslu:
„Qeti’ eg krafti’ af guðdóms hreinum
geisla þínum staöist einum,
sonur Guðs, ó, send mér hann“.