Prestafélagsritið - 01.01.1927, Side 32
24
Ásmundur Guðmundsson:
Prestafélagsritiö,
una, að hún bjó að þeim jafnan upp frá því. Stundum töluðu
þau öll saman um trúmál og Pascal fékk að láni hjá þeim
andleg rit. Hann fann það fyrstur, að hann var staddur frammi
fyrir augliti Guðs og átti að velja um hann sjálfan eða ver-
aldargæðin og nautnirnar. Hann heyrði glaum jarðlífsins og
gleði alstaðar í kringum sig, en framundan honum blasti eilífð-
arheimurinn, þar sem niður tímans myndi deyja út eins og
»dimmur drafnarómur í dalaskjóli langt frá sjá«. Heiður og
frægð með mönnum annars vegar — Guð hins vegar. Pascal
hikaði hvergi. Hann lét hjartað velja. Hann breiddi faðminn
móti Guði og heimi hins góða: Þig kýs eg að eilífu og tek
glaður öllum afleiðingum af því vali. Eg vil byrja algerlega
nýtt líf. Öll bönd, sem áður hafa bundið mig við þennan heim,
mega bresta og eiga að bresta.
Jafnskjótt sem Pascal hafði tekið þessa ákvörðun, fór hann
að reyna að vekja sama ásetning hjá ástvinum sínum. Það
kostaði hann mikla baráttu. Loks gat hann hneigt huga yngri
systur sinnar að trúnni, og nefndi hún Pascal síðan andlegan
föður sinn. I sál hennar lifnaði nú miklu heitari eldur en
brann þá bróður hennar í brjósti, og varð æfi hennar heilög
og björt af þeim loga. Líf þeirra systkina varð svo föður
þeirra og systur hvöt til þess að gefast Guði fyrir fult og alt.
Þrátt fyrir val sitt lifði Pascal enn um hríð eins og í tveim-
ur heimum, vísindaheiminum og trúarheiminum. Honum óx
alhliða þroski. Alt var í gróandi, laugað nýfallinni dögg. Hann
eignaðist í ríkara mæli en áður skapandi afl á sviði vísind-
anna. Hann vinnur mestu vísindaafrek sín. Hann verður fræg-
ur um allan hinn mentaða heim fyrir athuganir sínar og
uppgötvanir, og enn þykir honum í rauninni vænst um vísindin.
Hann metur skynsemina mest. Hún leiði til sannleikans, og
það sé hann, sem ríði á að finna, sannleikann sjálfan, er æðri
sé öllum hugmyndum um hann. Hið sama gildi einnig um
sannleikann í trúarefnum, skynsemin greiði trúnni veg. Hann
leiðir rök að því, að mennirnir eigi að trúa. Þannig heldur
áfram að leika um hann sama andrúmsloftið sem fyr, eins og
ð líkindum mátti ráða. Tvíveðrungur er í andlegu lífi hans.