Prestafélagsritið - 01.01.1927, Síða 34
26
Ásmundur Guðmundsson:
Prestafélagsritiö.
Sortaský dauðans dregur saman yfir höfði Pascal. Veldi hans
færist nær. Þetta eru endalokin — jafnvel á því lífi, sem
fegurst er og glæsilegast. Dauðinn stendur við stokkinn. Svo
deyr faðir hans um þessar mundir. En það rofar til. Skuggar
dauðans hörfa frá jörðinni, sól Guðs rennur upp fyrir handan
grafirnar, hans sem er í senn upphaf alheimsins og takmark.
Pascal skrifar eldri systur sinni til huggunar og jafnframt
sjálfum sér til svölunar í sorginni: »]esús hjálpar okkur til
þess að skilja dauðann. Öll æfi kristins manns á að vera eins
og líf hans ein fórn, sem fullkomnast í dauðanum. Án Krists
er dauðinn skelfilegur, en með honum Ijúfur og heilagur. Sá
sem dáinn er hættir ekki að lifa, heldur fer nú fyrst í sann-
leika að lifa. Mönnum er það ofvaxið að harma ekki missinn,
það er englum líkt. En sorg án vonar er að hætti heiðingj-
anna. Kristinn maður syrgir og vonar í senn«. Svo biður
Pascal Guð þess, að kærleiki sinn til systur sinnar verði enn
heitari, ef unt sé, og hjörtu þeirra verði eitt, svo að þau geti
fundið til nálægðar föður síns í anda, eins og trúir lærisvein-
ar eigi Krist mitt á meðal sín.
En þótt þroski Pascals væri slíkur, þá leið óðum að því,
að trúarheimurinn fölnaði í augum hans. Skoðanirnar endur-
fæddu frá dögum Ágústínusar fullnægðu honum ekki einar til
lengdar. Hann hlaut að ganga veginn á enda. Hann varð
einnig að öðlast líka trúarreynslu og Ágústínus, og beið hún
hans á sama hátt fyrir handan hrösun og sálarstríð.
* * * * * *
* * *
Meðan heilsa Pascals var veikust, dvaldi hann í París,
heimsborginni miklu, undir hendi beztu lækna. Þeir töldu
sjúkdóm hans stafa af andlegri ofraun, réðu honum að forð-
ast hana mjög og leita heldur huganum afþreyingar og skemt-
unar. Honum var í fyrstu mjög óljúft að fara að orðum þeirra,
en það breyttist. Gáfaðir og glæsilegir veraldarmenn söfnuðust
um hann, höfðu þeir notið mikillar mentunar eins og hann og
voru honum að því leyti andlega skyldir, þó lífsskoðun þeirra
væri ólík í mörgu. Þeir lifðu aðeins í þessum heimi, vildu