Prestafélagsritið - 01.01.1927, Síða 110
102
Sveinbjörn Högnason:
Prestafélagsritið.
efni að nokkru draga líkingu milli farfugla vorra og vor,
sem oft er líkt við þá. í trausti til eðlishvata sinna leggja
þeir öruggir og óhikandi út á hin ómældu, ólgandi höf í leit
að nýjum sólskins og sumarlöndum, — og þeim hefir enn
ekki brugðist, að þau lönd voru framundan bak við höfin
breið, — enda þótt þeir hafi oft lent í hafvillum, — komist
á villustigu. — Þannig tilheyrir trúin insta eðli anda vors, og
frá alda öðli hefir mannsandinn óhikað í trausti hennar lagt
út á hin miklu ráðgátuhöf lífsins, — og mun enn gera um
ókomnar aldir. Vér vitum, að á þeim höfum hefir mannsand-
inn oft lent í villum, — farið afvega; en oss mun samt ó-
hætt að trúa því, að honum skjátlist ekki heldur í því, að
bak við þessi höf liggi þau framtíðarlönd, er hann leiíar að,
samkvæmt insta eðli sínu og dýpstu þrá. Það mun óhætt að
treysta því, að bak við þau höf leynist þau sólskins- og sum-
arlönd, sem mannsandinn, af hvötum trúar og í trausti til
hennar, hefir stefnt að um undanfarnar aldir og mun enn
gera um ókomin ár. — Og öllum öðrum fremur álítum vér,
að Jesús Kristur hafi stefnt þar rétta leið, því að með því að
feta í fótspor hans sem bezt hefir fjöldi manna öðlast nýtt
líf og nýjan þrótt; — hefir öðlast þau verðmæti, sem bezt
hafa reynst í lífi þeirra og annara, — þau verðmæti, sem
samkvæmt reynslunni sýna, að þau hljóta að vera sprottin frá
hinum dýpstu sannleikslindum lífsins á jörðu.
Enginn hefir betur og ljósar lýst þessu gildi guðlegrar trú-
ar en danska skáldið H. C. Andersen. Gerir hann það í hinu
hugljúfa æfintýri sínu »Klukkan«. Þar segir hann oss frá
börnum, sem heyra unaðarsamlega fagra klukkuhljóma í skóg-
inum. Þeir heilla allan huga þeirra og hjarta, og þau leggja
öll af stað að leita að klukkunni, sem sendi þessa töfraóma
frá sér. En í skóginum leyndust margar villugötur, — margir
refilstigir, — og brátt urðu þau ósammála um hvert halda
skyldi í leitinni. Skáldið lýsir svo nánar leit þessara barna.
Sumum heyrist hljómarnir fara mínkandi og dofna smátt og
smátt, — en önnur heyra þá æ betur og betur. Smám sam-
an fara þau að gefa sig að alt öðru, því að það er margt,