Prestafélagsritið - 01.01.1927, Page 134
126
Magnús Jónsson:
Prestafélagsritið.
af höfuðklerkum landsins á sinni tíð sakir gáfna og skörungs-
skapar. Hann var og sálmaskáld gott. Hafði Brynjólfur bisk-
up miklar mætur á séra Jóni. Annar sonur hans var séra Þor-
steinn Jónsson í Holti undir Eyjafjöllum afi Jóns biskups Ví-
dalíns. Þriðji sonurinn sýnist ekki hafa verið miður gefinn en
hinir, en örlög hans urðu alt önnur. Hann var barn að aldri
er Tyrkir rændu, og tóku þeir hann. Hann komst til vegs
þar syðra og nefndist Jón Vestmann. Varð hann skipherra.
Komst hann síðar til Danmerkur og var búist við því að
hann ætti glæsilega framtíð sakir afburða gáfna, hugvits og
herkænsku, en hann andaðist rúmlega hálffertugur. Kona séra
Jóns var Margrét, dóttir Jóns Péturssonar og Margrétar Jóns-
dóttur prests Einarssonar í Reykholti, hins yngra.
Séra Jón orkti mjög mikið og var bæði þektur og vinsæll
fyrir sálmakveðskap. Ekki var þó neitt af sálmum hans prent-
að að honum lifandi, en þeir dreifðust víða í handritum, og er
mjög mikið til enn af þessum handritum af sálmum séra Jóns.
Mörg af beztu skáldum landsins dáðust að ljóðum hans og
dásömuðu þau í kvæðum og kveðlingum. Sýnir það vel, að
skáldafrægð séra Jóns var engan veginn sprottin af samúð
þeirri, er líflát hans vakti, þó að auðvitað sé ekki fyrir það
að synja, að vinsældir sálma hans hafi enn aukist við þann
geislabaug píslarvættisins, sem höfundur þeirra hlaut.
Vinsældir þessara sálma sýna það vel, hve sitt hæfir hverri
kynslóð. Nú mundu sálmar þessir hvergi þykja boðlegir, enda
er enginn þeirra í sálmabók vorri. Þeir eru yfirleitt mjög
stirðir og fullir af útlenzkuslettum og alls konar rímklúðri.
En á hinn bóginn er í þeim til einlægni og hlýja, sem finna
má með því að leita svo að segja undir urðinni, sem ofan á
liggur.
Mestu ljóðabálkarnir eftir séra Jón eru Davíðssálmar og
Genesissálmar. Genesissálmar eru nálega ekkert annað en
rímuð biblíusaga, og hún víða stirt rímuð, enda er efnið ekki
altaf vel þjált í meðförum, eins og t. d. niðjatal, enda kvart-
ar höfundurinn beinlínis undan því. Hefir hann snúið hverjum