Prestafélagsritið - 01.01.1927, Qupperneq 146
138
Kjartan Helgason:
Prestafélagsritiö.
og að þar var hann ekki á réttri hillu. Hann tók ekki að
sér mál til sóknar né varnar, nema með því skilyrði, að hann
mætti hætta við málið, ef hann sannfærðist um, að málstað-
urinn væri ekki sem beztur. Þó hékk hann við þessi störf
nokkurn tíma.
Þá var það, að Gandhi komst í kynni við tvo merka landa
sína (Dadabhai og Gokhale), ágætismenn og spekinga að viti.
Báðir voru þeir logandi af ættjarðarást og þjóðrækni. Þeir
höfðu djúp áhrif á Gandhi. En eitt var þó mikilvægast af
öllu, sem hann lærði af þeim. Það var kenning, sem upp frá
því mótaði alt líf hans. Eg get ekki lýst þeirri kenningu með
öðru betur, en að hafa upp orð Jesú Krists: Elskið óvini
yðar; gerið þeim gott, sem hata yður; blessið þá, sem bölva
yður; biðjið fyrir þeim, sem sýna yður ójöfnuð. Þeim er slær
þig á aðra kinnina skaltu bjóða hina.
Það er eftirtektarvert, að þessa lífsreglu Jesú lærir Gandhi
— ekki af kristnum mönnum, heldur af Hindúum, sem við
erum vön að heyra nefnda heiðingja. Þessi regla brendi sig
inn í sál hans. Hann skildi það, að með þeirri aðferð mundi
mega sigrast á mörgu, sem annars væri ofurefli.
(Jpp frá því tók Gandhi að lesa Nýja-testamentið af kappi
og að kynna sér kenningu Krists. Síðan hafa fyrirmæli Fjall-
ræðunnar verið lífsregla hans. Kristinn er hann ekki talinn.
Hann heldur alt af fast við trú feðra sinna, Hindúatrú. En
honum finst hún koma svo vel heim við kenningu Krists, að
þar beri ekkert verulegt á milli, ef rétt er athugað.
Gandhi minnist oft með miklu þakklæti þeirra vina sinna,
sem fyrst opnuðu augu hans svo að hann sá það og skildi,
hve sigurvænlegt er í allri baráttu: að elska mótstöðumenn
sína, að þola mótgerðir með hógværð, og að beita góðu
einu móti því sem ilt er. Það er einmitt þessi starfs-aðferð
Gandhis, sem hefir gert hann að einhverjum hinum mikil-
virkasta afreksmanni, sem sögur fara af.
Á þessum árum var það enn alveg óséð, hvað úr Gandhi
mundi verða, eða hvað mundi verða viðfangsefni hans. Hann
hafði enga hugmynd um það sjálfur.