Prestafélagsritið - 01.01.1927, Side 151
Prestafélagsritiö.
Gandhi.
143
óðara kominn með Hindúa sína til vígstöðvanna, og veitti
þar alla þá líkn og hjálp sem auðið var.
Arið 1904 kom upp ógurleg drepsótt í námabænum Jóns-
borg (Johannisburg). Það er stærsta borgin í Búa-löndum, í
grend við auðugar gullnámur. Þá bauð Gandhi enn hjálp
sína; kom upp stóru sjúkrahúsi, sem landar hans starfræktu.
Gandhi virtist vera óþreytandi. Ekkert erfiði né þrautir of-
bauð honum. Enga hættu kunni hann að hræðast. Ekkert
verk var svo auðvirðilegt, að hann leysti það ekki glaður af
hendi, með sjálfs sín höndum, fyrir hverja sem áttu í hlut,
hvort sem þeir voru fylgismenn hans eða andstæðingar.
En ekkert sýndist þó verða ágengt um aðal-áhugamál hans.
Enn þá magnaðist útlendingahatrið. Ofsóknirnar gegn Hindú-
um urðu aldrei eins æðisgengnar og eftir 1907. Þá var hert
á lögunum gegn Asíuþjóðunum. En Gandhi svaraði þeim
harðýðgislögum með því að kalla Hindúa saman á fund í
Jónsborg. Og þeir komu afarfjölmennir. Þar sóru þeir þess
dýran eið, að fylgja bardaga-aðferð Gandhis (non-resistens),
sitja við sinn keip, en hreyfa ekki hönd né fót til mótspyrnu,
heldur þola alt og láta ekki bugast. Það voru ekki Hindúar
einir, sem í það bandalag gengu, heldur margar aðrar að-
komuþjóðir, sem áttu við sömu ókjör að búa. Meðal þeirra
var sérstaklega fjöldi Kínverja. Allir höfðu þeir fengið sömu
mætur á Gandhi, og voru fúsir að hlíta forustu hans.
Nú leizt landsstjórninni ekki á blikuna, og færðist í aukana.
Þeir sem eiðana höfðu unnið, voru hneptir í varðhald, þús-
undum saman. Fangelsin rúmuðu þá ekki. Þá voru tekin til
afnota námugöngin miklu hjá Jónsborg og höfð fyrir dýflissur.
Þar voru þúsundir manna byrgðar inni. — Gandhi var dæmd-
ur í betrunarhús, hvað eftir annað, og til þrælavinnu. Og
þegar honum þess í milli var slept út, ætlaði skríllinn að rífa
hann kvikan í sundur. Einu sinni var gengið svo frá honum,
að hann lá eftir á götunni og menn hugðu hann dauðan. En
hann raknaði við, og var jafnötull eftir sem áður. Og nú voru
fylgismenn hans orðnir svo gagnteknir af hugsunarhætti hans,
að þeim óx einnig seigla og hugrekki við hverja þraut, og