Prestafélagsritið - 01.01.1927, Side 152
144
Kjartan Helgason:
Prestafélagsritiö.
trú þeirra á sigurinn styrktist því meir sem meira krepti að
þeim. — Þó kom hitt fyrir, að Gandhi átti fult í fangi að
fá þá til að fylgja sér. Þeim ofbauð stundum, hve mikla sjálfs-
afneitun hann heimtaði af þeim.
Allri þessari baráttu Gandhis í Afríku var furðanlega lítill
gaumur gefinn með öðrum þjóðum á þeim árum. Það er ekki
fyr en löngu síðar, þegar Gandhi var orðinn frægur fyrir
starf sitt heima á Indlandi, að farið var að rifja upp þessa
sögu. Einn var þó sá maður í Evrópu, sem fylgdist með
jafnóðum og hafði vakandi auga á öllu starfi hans í Afríku.
Það var spekingurinn rússneski, Leo Tolstoi. Hann hafði
trú á því, að aðferð Gandhis væri hin eina rétta bardaga-
aðferð. Þeir skrifuðust á, og Tolstoi hvatti Gandhi, eggjaði
hann fast, að halda áfram og gefast ekki upp. Það er líklega
eina uppörfunin, sem Gandhi hefir fengið á fyrri starfsárum
sínum af vandalausum mönnum. En hann átti konu. Þau
höfðu gifzt mjög ung. I því sem ég hefi lesið um Gandhi er
hennar að litlu getið. Hún hefir sennilega haft sig lítt frammi,
eins og títt er um konur á Austurlöndum. En ég hefi séð
nokkur ummæli Gandhis sjálfs um hjónaband hans og konu;
má af því ráða, hve mikils virði honum hefir verið aðstoð
hennar. Hún hefir fylgt honum gegnum þykt og þunt, og
þau verið sem einn maður.
Smátt og smátt tóku fleiri og fleiri að veita Gandhi athygli.
Einkum voru það enskir stjórnmálamenn. Nokkrir þeirra lögðu
honum liðsyrði og tóku málstað hans við stjórnarvöld Búa.
Og þar kom, að stjórnin fór að linast. Árið 1913 lét hún til-
leiðast að samþykkja, að nefnd væri skipuð til að rannsaka
málstað Gandhis frá rótum. Englendingar höfðu hlutast til
um það. Og þegar nefndarálitið kom, var það alt Gandhi í
vil. Árið 1914 voru þvingunarlögin numin úr gildi, og Hindú-
um þar með veitt jafnrétti við aðra íbúa landsins. Sigurinn
var unnin eftir 20 ára látlausa baráttu. Og þau undur höfðu
við borið, að þeir sem valdið höfðu létu undan hinum valda-
lausu. Ofbeldið beygði að lokum kné sín fyrir hógværðinni.
(Sbr. Sælir eru hógværir, því að þeir munu landið erfa).