Prestafélagsritið - 01.01.1927, Síða 171
Prestafélagsritið.
Ferðaprestsstarfið.
163
samt fyrirlestri um kvöldið. Var hún haldin kl. 8—10. Seyðisfjarðar-
kirkja er stór og vegleg, en mest þykir mér þó um það vert, hve fagur
vottur hún er um áhuga og fórnfýsi seyðfirzkra kvenna. Þær hafa unnið
það þrekvirki að koma henni upp, og mun ötullega haldið áfram að
afla henni þess, er hún þarf enn, t. d. hitunartækja og góðs harmóníums.
Alstaðar þar sem konur vinna að safnaðarmálum og kirkjumálum, þar er
góðs árangurs að vænta. Skömmu eftir guðsþjónustuna tókum við okkur
fari með Goðafossi norður um land, og var ferðinni heitið til Akureyrar.
Þar hafðí Geir vígslubiskup Sæmundsson boðað til prestafundar í sam-
ráði við norðlenzka prófasta og óskað þess, að við kæmum þangað.
Fundurinn hófst 20. júlí, og sóttu hann 10 prestvígðir menn. Fyrst var
guðsþjónusta í kirkjunni og prédikaði ég út af Mark. 8, 27.—29., en vígslu-
biskup þjónaði fyrir altari og söng lítaníuna. Var mjög hátíðlegt að hlýða
á tónið hans fagra, og er annar söngur einnig góður í Akureyrarkirkju.
Að Iokinni messu fórum við til fundarhalda í þinghúsi bæjarins, og tal-
aði ég þar nokkur minningarorð um Guðbrand biskup Þorláksson, er
300 ár voru liðin þennan dag frá andláti hans. Mintust fundarmenn hans
með því að standa upp.
Fundarmál voru mörg hin sömu sem á Eiðafundinum, t. d. skýrsla
formanns Prestafélagsins um starf þess, viðbætir sálmabókar, kristindóms-
fræðsla barna, ferðaprestsstarf og viðhorf við trúmálaágreiningi í land-
inu. Hnigu umræður í líka átt og þar, og urðu samskonar tillögur sam-
þyktar. Fundinum var einnig hagað á svipaðan hátf, störf byrjuð með
bæn á morgnana og þeim lokið svo á kvöldin.
Fyrstu tvö fundarkvöldin voru flutt erindi fyrir almenning í kirkjunni,
Sigurður prófessor talaði um kristilega festu og ég um trúarlíf Pascals.
Aðsókn var mjög góð að fyrirlestrunum.
Um kristindóm og stjórnmál urðu fjörugar umræður, og tóku margir
til máls. Tillaga var samin í líkum anda og sú á Eiðafundinum, en já-
kvæðari. Var hún á þessa leið og samþykt í einu hljóði:
„Fundurinn heitir á presta og aðra þá, er kristindóminum vilja vinna,
að hefja samtök um það, að í stjórnmálum vorum megi ríkja meiri kær-
leikur og sannleiksást".
Breytingar á prestskosningalögunum þótti rétt að gera. Voru samþykt-
ar tvær sömu tillögurnar sem á Eiðum og hin þriðja að auki, svolátandi:
„Fundurinn skorar á kirkjustjórnina að hlutast til um, að breytt sé
svo lögum um kosningu presta, að prestskosning taki eigi svo langan
tíma sem nú á sér stað, einkum í þeim héruðum landsins, sem fjarri
eru Reykjavík. Virðist fundinum, að umsóknartími mætti vera styttri og
upplestur kjörseðla fari fram heima í héraði".
Veittist auðvelt að sýna með dæmum fram á réttmæti þeirrar tillögu,
og er ekki minni ástæða til að lesa upp kjörseðla við prestskosningar
heima í héraði en við alþingiskosningar.