Uppeldi og menntun - 01.01.2002, Qupperneq 76
MARKVISST LEIKSKÓLASTARF í FJÖLMENNINGARLEGU SAMFÉLAGI
munalega sviðinu. Menningarhóparnir halda þá sérkennum sínum á sama tíma og
þeir tileinka sér menningu meirihlutans (Rannveig Þórisdóttir, Sigurlaug Hrund
Svavarsdóttir og Jón Gunnar Bernburg, 1997). Þessi leið er í samræmi við 8. grein 1. í
Barnasáttmálanum sem nefnd er hér á undan varðandi það að virða rétt barns til að
viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þar með töldu ríkisfangi sínu, nafni
og fjöldskyldutengslum eins og viðurkennt er með lögum, án ólögmætra afskipta, en
einnig 14. grein 1. sem fjallar um frelsi til að láta í ljós trú eða skoðun, einungis háð
þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í lögum og eru nauðsynlegar til að gæta
öryggis almennings, allsherjarreglu, heilsu almennings eða siðgæðis, eða grundvall-
arréttinda og frelsis annarra.
Þegar kemur að samskiptum fólks af mismunandi menningarhópum er ljóst að á-
byrgðin hlýtUr að liggja hjá báðum. Eriksen og Sorheim (1999) fjalla um samskipti
menningarhópa. Rætt er um mikilvægi þess að skilaboð og skilningur sé skýr milli
menningarhópa. Þau ræða einnig um erfiðleika samfara því að virða menningu ann-
arra, þar sem það stangast oft á við ríkjandi gildi (meirihlutamenningu) í fjölmenn-
ingarlegu samfélagi. Enn fremur tala þau um hvernig staðarmenning í Noregi hefur
áhrif á hvers konar samskipti verða ríkjandi milli menningarhópanna, aðkomufólks
og þess fólks sem fyrir er. Þá fjalla þau nokkuð um hvar ábyrgðin liggur hvað varð-
ar móttöku fólks af erlendum uppruna, hversu langt stjórnvöld eiga að ganga í að-
stoð, hvaða aðilar taka þá við og hver sé ábyrgð fólksins sjálfs. Allt eru þetta þættir
sem mikilvægt er að hafa í huga þegar hugað er að samskiptum fólks af ólíkum
menningarhópum. Staðhættir í bæjum, þorpum og sveitum á íslandi eru mismun-
andi og aðstæður fólks einnig. Þá á hver staður sína sérstöku sögu og menningu sem
litar mannlífið þar á sinn hátt. Að auki búa á hverjum stað einstaklingar sem hafa sín
áhrif á samfélagið. Allt hefur þetta áhrif á hvernig staðarmenning mótast og hvernig
samskipti verða ríkjandi. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar staða barna af er-
lendum uppruna er skoðuð. Gagnkvæm þekking og skilningur á aðstæðum, menn-
ingu og sögu auðveldar samskipti. Reglan að viðurkenna og virða hlýtur að vera
mikilvæg í þessu samhengi. Hvað trúarbrögð varðar er stundum sagt að við getum
kynnt okkur, reynt að skilja og virða ólík trúarbrögð, en það þýðir ekki endilega að
við þurfum að aðhyllast þau. Það sama gildir um menningu. Hið sama má segja um
mismunandi uppeldisaðferðir. Þá má geta þess að uppeldisaðferðir Islendinga eru
einnig mjög fjölbreyttar og má þar t.d. nefna þætti svo sem svefnvenjur barna og
brjóstagjöf. Þar sýnist sitt hverjum.
Rauði kross Islands hefur séð um móttöku flóttamanna um árabil. Vel skipulagt
starf fulltrúa RKI með fulltrúum stofnana er dæmi um hvernig aðstoða má aðkomu-
fólk við að ná fótfestu í nýju samfélagi og um leið hjálpa því til sjálfshjálpar. Að geta
staðið á eigin fótum, stundað vinnu og þekkja það sem þarf til að bjarga sér í samfé-
laginu hlýtur að vera mikilvægt fyrir fólk sem kemur frá stríðshrjáðum löndum og
hefur margt misst allt sitt. í móttöku flóttamanna eru stjórnvöld og sveitarfélög ábyrg
fyrir velferð fólksins í upphafi, en miðað er að því að á stuttum tíma öðlist það næga
fótfestu til að geta séð um sig og sína sjálft. í langflestum tilvikum á sl. árum hefur
þetta gengið vel. Tungumálanám og þekking á samfélagslegum aðstæðum er þarna
74