Uppeldi og menntun - 01.01.2002, Page 86
FÁTT E R REYNSLUNNI FRÓÐARA
endur fyrr. Þeir eru opnari fyrir því að læra hvernig eigi að verða góður kennari,
sækjast eftir leiðsögn og finnst spennandi að vera í kennaranámi. Rannsókn deBlois
(1993) gefur einnig til kynna að munur sé á væntingum eldri og yngri kennaranema
og áhyggjum tengdum kennarastarfinu. í ljós kom að nemendur 30 ára og eldri voru
áberandi öruggastir í samskiptum við samkennara og stjórnendur og þeir virtust
hafa raunhæfust viðhorf til vinnuaðstæðna. Þeir höfðu minni áhyggjur af því að þeir
næðu ekki sambandi við nemendur og viðhorf þeirra til kennslustarfsins benti til var-
kárni og ígrundunar.
Bent hefur verið á að eldri nemar búi yfir skilningi, innsýn og reynslu úr lífi og
starfi sem þeir geta nýtt sér í náminu (Martin og Johnson, 1999; Graham og Donald-
son, 1996). Með því að tengja námið við fyrri reynslu verður það merkingarbærara.
Eldri nemendur eru líka yfirleitt fjölskyldufólk sem tekur þátt í samfélaginu og
vinnumarkaðinum. Reynsla þeirra og líf er ekki einangrað við skólann. Þetta gefur
þeim tækifæri til að tengja námið á merkingarbæran hátt við raunverulega reynslu,
þ.e. við líf og starf og þátttöku í samfélaginu.
Komið hefur í ljós að í samskiptum við kennara taka eldri nemendur ráð kennara
og ráðgjafa mun alvarlegar en þeir sem yngri eru. Þeir hafa einnig meiri og óform-
legri samskipti við kennara sína en yngri nemendur (Bishop-Clark og Lynch, 1992;
Bradley og Graham, 2000; Graham og Donaldson, 1996). Eldri nemendur leggja hart
að sér í þeim námskeiðum sem þeir taka og leggja sig fram um að fá sem mest út úr
kennslustundunum. Bradley og Graham (2000) komust að því að virkni og þátttaka
fullorðinna nemenda í kennslustundum var áreiðanlegur mælikvarði á námsgengi
eldri nemenda í þeirra rannsókn. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að eldri háskólanem-
endur eru mun virkari í umræðum heldur en yngri nemendur. Howard, Short og
Clark (1996) skoðuðu tengsl aldurs háskólanema við virkni þeirra og þátttöku í um-
ræðum. Niðurstöður sýndu að mun fleiri eldri nemendur tóku þátt í umræðum og
eldri nemendur tóku einnig mun oftar til máls. Howard og Baird (2000) komust að
sambærilegri niðurstöðu. Mun hærra hlutfall eldri nema í rannsókn þeirra tók þátt í
umræðum í kennslustundum. Eldri nemendur voru tvisvar sinnum líklegri til að
taka til máls heldur en þeir sem yngri voru. Eldri kvennemendur voru virkastir í um-
ræðum. Nemendur sem voru ekki virkir í umræðum voru oft þakklátir hinum fyrir
að spyrja spurninga sem skýrðu það sem kennarinn var að tala um, en þeir létu
einnig í ljós óþolinmæði og gremju gagnvart þeim sem þeim fannst tala of mikið og
taka tíma frá kennaranum. Þeir nemendur sem ekki tóku til máls réttlættu það með
því að þeir væru neytendur menntunar sem legðu sig fram um að fá sem mestar upp-
lýsingar frá kennaranum. Þeir nemendur sem voru virkir í umræðum gerðu það af
því að þeim fannst það auðvelda þeim námið og auk þess töldu þeir sig hafa þekk-
ingu sem mikilvægt væri að koma til skila til bekkjarins. Howard og Baird (2000)
benda á að nám eigi sér stað við aðstæður þar sem nemendur eru virkir og sömuleið-
is örvist skapandi hugsun þegar nemendur eru virkir þátttakendur í náminu. Þar er
ef til vill ein skýring á því hvers vegna eldri nemendur standa sig jafn vel eða betur
þrátt fyrir að lengra sé síðan þeir voru í námi og aðstæður þeirra til að stunda nám
séu oft erfiðari en þeirra sem yngri eru.
84