Uppeldi og menntun - 01.01.2002, Síða 175
ANNA ÞÓRA BALDURSDÓTTIR
skjólstæðinga sína, draga sig í hlé og gerast „áhorfandi" fremur en þátttakandi á
vinnustað sínum. í þriðja þætti líkansins, minnkandi starfsárangur, verður sú tilfinn-
ing ríkjandi hjá viðkomandi að það sem hann leggur af mörkum skipti engu máli. Trú
hans á eigin hæfni og getu til þess að sinna starfi sínu á faglegan hátt fer minnkandi
(Maslach 1993, Maslach og Jackson 1981).
Maslach telur að það séu einkenni og aðstæður á vinnustað, svo sem hlutverk og
vinnuálag, sem ráði mestu um það hvort einstaklingar eigi á hættu að brenna út í
starfi, eins og stundum er sagt, og að kulnun komi til sem viðbrögð við langvarandi
streitu fremur en sem viðbrögð við kreppuástandi sem varir ef til vill í styttri tíma.
Maslach leggur áherslu á að kulnun sé ekki einfalt og afmarkað fyrirbæri heldur beri
að líta á það sem samsetta hugsmíð þriggja aðgreindra þátta sem þó tengjast náið
(Bryne 1999, Gold og Roth 1993, Maslach 1993).
Hvers vegna er áhugavert að rannsaka kulnun hjá kennurum?
Margvíslegar ástæður eru fyrir því að áhugavert er að rannsaka hvort kulnunar gæti
hjá kennurum. Verða hér raktar nokkrar þeirra.
Grunnskólakennarar eru mikilvæg starfsstétt vegna þess að þeir eiga að hlúa að og
hafa áhrif á uppvaxandi kynslóðir. Skólamálaumræða síðustu ára hefur kristallast í
auknum kröfum af þjóðfélagsins hálfu um að skólinn, og þar með kennarar, taki að
meira eða minna leyti við því uppeldishlutverki sem heimilin hafa lengstum haft
með höndum. Foreldrar eiga nú rétt á meiri upplýsingum um skólastarf og þeim er
ætlað að hafa meiri áhrif þar á, meðal annars í krafti ákvæða í nýjum lögum um
grunnskóla (Lög um grunnskóla nr. 66/1995). Því hefur lengi verið haldið fram í ræðu
og riti að laun kennara væru of lág. Kennarar hafa því oft tekið að sér mikla kennslu
þannig að kennsluálag hefur lengst af verið mikið. Hugsanlegt er að við slíkar að-
stæður sé hætt við að kennarar leiti í önnur störf einkum þegar næga aðra atvinnu er
að hafa (Eiríkur Jónsson 1998, Morgunblaðið 1998, Kennarablaðið 1998). Einnig getur
það verið vegna álags og þess að þeim þykja möguleikar sínir til þróunar í starfi ekki
nægilega miklir. Vegna þess starfstíma sem ákveðinn er fyrir skólastarf er kennurum
gert að skila ársvinnuframlagi sínu á styttri tíma en öðrum launþegum. Bekkir eru oft
taldir of stórir og í samfélaginu virðist bera á virðingarleysi fyrir kennarastarfinu og
sum störf sem kennurum er ætlað að sinna eru e.t.v. ekki alltaf nægilega vel skil-
greind. Slíkt getur valdið togstreitu og öryggisleysi í starfi (Eiríkur Jónsson 1998,
Morgunblaðið 1998, Kennarnblaðið 1998, Macdonald 1999, Travers og Cooper 1996,
Farber 1991).
I rannsókninni sem hér er kynnt var mest áhersla lögð á að skoða þætti í starfsum-
hverfinu sem gætu leitt til kulnunar. Með því að kanna og komast að hvaða þættir á
vinnustað og í starfinu sjálfu leiða helst til kulnunar, er hægt að rannsaka hvernig
megi draga úr áhrifum liennar meðal kennara. Ef ástæða er til þess að ætla að kuln-
unar í starfi gæti hjá hluta grunnskólakennara og leiðbeinenda, er áríðandi að reyna
að grafast fyrir um hve algeng hún sé og hverjar ástæður séu og reyna að fyrirbyggja
kulnun meðal þeirra. Ætla mætti að langvarandi einkenni af því tagi hjá hluta starfs-
stéttarinnar geti haft veruleg áhrif á kennsluhætti hennar, skólastarfið í heild og nem-
endur.
173