Tímarit lögfræðinga - 01.11.1978, Side 26
Árni Kolbeinsson deildarstjóri:
NÝJU SKATTALÖGIN
Ný lög um tekjuskatt og eignarskatt voru samþykkt á Alþingi s.l.
vor. Lög þessi nr. 40/1978 öðlast gildi hinn 1. janúar n.k. og koma til
framkvæmda við álagningu tekju- og eignarskatts á árinu 1980. Hér er
um mjög viðamikinn lagabálk að ræða. Tekjuskattlagning og þar
með lög um tekjuskatt og eignarskatt eru uppistaða í heilli fræðigrein
lögfræðinnar, skattaréttinum, og því liggur í augum uppi, að efninu
verða engin fullnægjandi skil gerð í stuttu máli, hvað þá að tækifæri
gefist hér til vísindalegrar umfjöllunar um einstök atriði. Ég tek því
þann kost að reyna að gefa stutt yfirlit yfir meginbreytingar, sem í
hinum nýju lögum felast, og staldra aðeins við mikilvægustu atriðin.
Frumvarp það, sem síðar varð lítið breytt að 1 .nr. 40/1978, var flutt
í framhaldi af flutningi frumvarps um sama efni á fyrra þingi, og var,
hvað efnisskipun varðar, að mestu byggt á fyrra frumvarpi, þó að
ýmsar efnisbreytingar væru gerðar á einstökum ákvæðum.
Við samningu þessara frumvarpa var tekinn sá kostur að víkja frá
uppbyggingu og greinaröð þágildandi laga. Lög þau, sem hér eru til
umræðu, eru því ný frá rótum, og hefur slík grundvallarbreyting á
þessu sviði ekki verið gerð síðan 1921, en þá voru í lög leidd fyrstu al-
mennu tekjuskattslögin, nr. 74/1921. Það hefur vissulega bæði kosti
og galla að víkja svo mjög frá uppbyggingu gömlu laganna. Þeir sem
að skattamálum vinna eru gjörkunnugir gömlu efnisröðuninni og úr-
skurðir hafa gengið og framkvæmdavenjur myndast um mörg atriði.
Hefur þessi háttur því í för með sér, að erfiðara er að átta sig á því,
hvaða efnislegar breytingar felast í hinum nýju lögum. Hins vegar eru
kostir þess að mínu mati yfirgnæfandi. Unnt er að byggja lögin upp