Tímarit lögfræðinga


Tímarit lögfræðinga - 01.11.1996, Page 3

Tímarit lögfræðinga - 01.11.1996, Page 3
LÖGFRÆÐINGA 3. HEFTI 46. ÁRGANGUR NÓVEMBER 1996 NÝTT DÓMHÚS HÆSTARÉTTAR ÍSLANDS Fimmtudaginn 5. september síðastliðinn var tekið formlega í notkun nýtt og glæsilegt dómhús Hæstaréttar með hátíðlegri athöfn. Þetta var gleðilegur atburður fyrir margra hluta sakir, en þó fyrst og fremst fyrir það, að um árabil hafði nánast öll starfsaðstaða Hæstaréttar verið réttinum ósamboðin svo ekki sé fastar að orði kveðið, en nú hafði verið úr því bætt. Sú bygging þar sem Hæstiréttur var til húsa var reist á árunum 1946-1948 og átti að vera dómhús réttarins til bráðabirgða. Hugmynd Guðjóns Samúelssonar húsameistara mun hafa verið sú að þessi bygging yrði miðja og aðalinngangur Stjórnarráðsins, sem síðan átti að bæta álmu við inn með Lindargötu. Hæstiréttur hafði hins vegar aðsetur þarna í nærri hálfa öld við síversnandi starfsskilyrði, bæði vegna fjölgunar dómara og starfsfólks réttarins og eins vegna lélegs viðhalds hússins. Bágborin starfsaðstaða Hæstaréttar var ekki síst áberandi vegna þess að við aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði árið 1992 fengu velflestir héraðsdómstólanna viðunandi aðstöðu og sumir ágæta, sem þeir höfðu fæstir áður. Húsnæðismál íslenskra dómstóla eru nú í mun betra horfi en nokkru sinni fyrr þótt bæta þurfi um á stöku stað. Nú er svo komið að íslenskir dómstólar ættu að geta staðist samanburð við dómstóla í nágrannalöndunum að því er húsnæði varðar að minnsta kosti. Þótt á sínum tíma væri nokkuð deilt um staðsetningu dómhúss Hæstaréttar þá urðu það hvorki harðar deilur né langvinnar og ekki verður annað séð en þeir sem voru á móti því að húsið risi þar sem það nú stendur virðist hvorki sárir né móðir. Það skiptir nokkru máli að menn uni bærilega sínum hlut að þessu leyti, enda þótt alvanalegt sé að deilur rísi um það hvar hús skuli standa ekki síst opinberar byggingar. Er þar skemmst að minnast deilna um staðsetningu húss Seðlabanka Islands og Ráðhúss Reykjavíkur. 153

x

Tímarit lögfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit lögfræðinga
https://timarit.is/publication/586

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.