Tímarit lögfræðinga - 01.09.2000, Blaðsíða 11
starfstöð á erlendri grund eru skattskyldar á íslandi, sbr. upphafsákvæði 1. og 2.
gr. tskl. Skattlagning fastra starfstöðva ræðst nánar af tvísköttunarsamningum
þar sem þeir eru fyrir hendi. Skattlagning fastrar starfstöðvar erlendra aðila á
Islandi fer eftir svokallaðri „beinni aðferð“, þar sem litið er á hina föstu
starfstöð sem sjálfstætt fyrirtæki með eigin tekjur og gjöld. Gert er ráð fyrir því
að hin fasta starfstöð hafi sjálfstætt bókhald sem haldi utan um rekstur
stöðvarinnar aðskilið frá bókhaldi höfuðstöðvanna.7 8 í 2. mgr. 3. tl. 71. gr. tskl.
er að finna undantekningu frá þessari reglu þar sem mælt er fyrir um óbeint
uppgjör á skattskyldum tekjum erlendra vátryggingarfélaga hér á landi.
Samkvæmt flestöllum tvísköttunarsamningum sem Island hefur gert við
önnur lönd er heimild til skattlagningar hagnaðar fastrar atvinnustöðvar fyrir-
tækis í því rrki þar sem starfsemin fer fram. Samkvæmt 5. gr., sbr. 7. gr. samn-
ingsins við Sviss frá 3. júní 1988, t.d., má skattleggja hagnað útibús íslensks
félags í Sviss þar í landi. I 2. mgr. 7. gr. svissneska samningsins er að finna
ákvæði um „beina aðferð“ þar sem mælt er fyrir um að í hvoru samningsríki
fyrir sig skuli hinni föstu atvinnustöð talinn sá hagnaður sem búast hefði mátt
við að hún hefði aflað ef hún hefði verið óháð, aðskilið fyrirtæki sem hefði haft
með höndum sömu eða svipaða starfsemi og með sömu eða svipuðum skil-
málum og höndlað algerlega sjálfstætt við fyrirtækið sem hún er atvinnustöð
fyrir. Samkvæmt þessu skal hagnaðarskiptingin milli fyrirtækis á íslandi annars
vegar (höfuðstöðvanna) og hinnar föstu atvinnustöðvar í Sviss hins vegar
(útibúsins) fundin með hliðsjón af því hvemig sú skipting hefði verið í við-
skiptum milli óháðra, óskyldra aðila. Samkvæmt 23. gr. sama samnings skal
slíkur hagnaður undanþeginn skattlagningu á íslandi.
1.4 Málamynda- og sniðgöngusjónarmið
Milliverðsreglan sem byggir á armslengdareglunni, sem m.a. má finna í 1.
mgr. 58. gr. tskl. og í 2. mgr. 7. gr. og 9. gr. tvísköttunarsamninga, byggir á því
að um fullgilda og löglega samninga og samingskjör sé að ræða í viðskiptum
milli aðila. Reglan lýtur einungis að því að finna „rétt verð“ í gildum lögskipt-
um milli aðila og kemur svokölluðum málamynda- og sniðgöngusjónarmiðum
ekkert við.9 Málamynda- og sniðgöngusjónarmið fjalla fyrst og fremst um þau
tilvik þar sem ráðstöfun eða ráðstafanir eru færðar í annan lagalegan búning en
7 Sbr. Stefán Már Stefánsson: Hlutafélög og einkahlutafélög. 1995, bls. 43.
8 Samkvæmt Handbók ríkisskattstjóra um tekjuskatt og eignarskatt, mars 1996, bls. 32, er við mat
á því hvað telst föst starfstöð tekið mið af athugasemdum með samningsfyrirmynd OECD.
9 Sjá Jan Pedersen: Transfer pricing, bls. 15: „Det er væsentlig at gpre sig klart, at transfer pricing
princippet ikke involverer ipvrigt civil- eller skatteretligt ulovlige dispositioner. Princippet retter
sig alene mod gyldige og retskraftige aftalevilkaar, som korrigeres under anvendelsen af arms-
længde princippet. For saa vidt foreligger der i givet fald en skatteunddragelse, idet transfer pricing
princippet regulerer den skatteretlige lovlighed af intemomsætningen. Princippet maa imidlertid
holdes adskilt fra pvrige- og væsensforskellige- skatteretlige normer, som regulerer proforma- og
omgaaelsestilfælde“.
79