Hugur - 01.01.1991, Page 86
84
Hlutur ímyndunar í þekkingu
HUGUR
heimurinn myndi eina reglubundna heild en í heimspeki Kants er sú
staðreynd það sem helst þarfnast skýringar.
Til að komast að því að eldur og hiti fylgist að verð ég fyrst að
skynja eldinn sem einhvem hlut með eiginleika og ég verð að hafa
reynslu af því að þessi hlutur hefur ákveðna áfstöðu í tíma og rúmi til
þess fyrirbæris sem ég kalla „hita“ og ég hef ástæðu til að ætla að
hitinn sé eiginleiki eldsins. En eldurinn er samsettur úr mörgum
pörtum, hann getur verið stór eða lítill, náð yfir stutt eða langt tímabil
og þessvegna getur skynjun mín á honum verið með ýmsu móti. Hina
mismunandi parta sem mæta okkur þegar við skoðum heiminn kallar
Kant mergð fyrirbæranna. Þegar við höfum reynslu af eldinum sem
einum hlut og köllum hann einu nafni þá er þar komin sameining
(Synthesis — eining í mergð fyrirbæranna). Og þetta gerist í allri
reynslu. Mergð fyrirbæranna er í sjálfri sér sunduriaus og ef hún væri
öll sagan þá gætum við ekki haft reynslu af neinu samhengi, við
gætum ekki einu sinni skynjað eitthvað sem mætir okkur á mismun-
andi tímum sem einn og sama hlutinn eða að hlutir fylgist að.
Kant telur skýringuna á því að við getum yfirleitt orðið vör við
eitthvert samhengi í heiminum vera þá að til sé ímyndunarafl sem
móti alla reynslu með „forskilvitlegri sameiningu".12 „Forskilvitlegt“
þýðir að þessi sameining í mergð allra fyrirbæra er skilyrði reynslu,
þannig að þessa sameiningu er að finna í allri reynslu og ef til er
eitthvað sem ekki fellur undir þessa sameiningu þá getur það ekki
verið reynsla.
Forskilvitleg sameining ímyndunaraflsins
Hugsum okkur að við sjáum kúlu velta eftir knattborði. Hún skellur á
annarri kúlu og sú veltur af stað. Þetta er dæmi sem Hume notaði til
að lýsa því að skilningarvitin gefi ekki neina hugmynd um orsaka-
tengsl (Kant myndi segja að orsakatengsl séu ekki gefin í skoðun) og
orsök geti þessvegna ekki verið þekkingaratriði. Það eina sem við
sjáum er að fyrst veltur önnur kúlan og svo hin, tengsl þar á milli er
ekki hægt að sjá þannig að þegar við segjum að hreyfing annarrar
kúlunnar sé orsök fyrir hreyfingu hinnar þá erum við strangt til tekið
ekki að lýsa þekkingu, heldur erum við samkvæmt Hume að lýsa trú.
12 „Transzendentale Synthcsis der Einbildungskraft“, sjá t.d. Gagnrýni hreinnar
skynsemi AlOl og B151.