Dvöl - 01.04.1940, Side 21

Dvöl - 01.04.1940, Side 21
DVÖL 99 þekkti hana ekki og ætlaði að halda leiðar sinnar. — Það er naumast, að Geiri litli er „striks", sagði hún þá. Nú varð Geiri hissa og nam staðar. — Og roðnar eins og saklaust sveitabarn, hélt stúlkan áfram, skellihlæjandi og klappaði á grasið við hliðina á sér. Geiri færði sig eins og ósjálfrátt nær henni og sagði hikandi: — Ég man ekki eftir að við höfum sézt áður. — Nei, man hann ekki eftir því, sagði stúlkan hátíðlega og hermdi eftir honum vandræðasvipinn. — Svona, seztu hérna hjá mér. Ég hefi lengi séð þig í draumum mínum, og auk þess ekki haft af þér augun í allan dag, þó að þú hafir ekki séð mig. Geiri settist niður. Honum var sjóðheitt innvortis. Nú var hann ekki lengur ein- mana. Hérna var stúlka, sem var að hugsa um hann, og meira að segja fín stúlka úr Reykjavík. Ja, fín var hún reyndar ekki, þegar hann gætti betur að, í buxum og peysu eins og hún væri í draslvinnu. En það gerði ekkert til. Hún var mjög fölleit, og nefið og munnurinn eitthvað svo áber- andi í andlitinu. — Ertu nú búinn að skoða mig nóg? spurði stúlkan um leið og hún tók upp varalit og spegil og bætti á varirnar, þó að Geira þætti þær nógu sterkrauðar fyrir. — Heldurðu ekki, að varalitur með kampavínsbragði geti verið nógu lystugur? Það hafði Geiri enga hugmynd um, og hann vissi ekki, hvað hann átti að segja. — Það gerir ekkert til, góði. Þeir hafa vonandi smekk fyrir það, herrarnir í inn- flutningsnefndinni. Því skyldi maður ekki mega kyssa eins fínt hér og í Ameríku? Hún kveikti sér í sígarettu. — Heyrðu Geiri, sagði hún. Á ég að gefa þér eina litla, svona rétt til þess að þú uppljúkir þínum munni? Geiri roðnaði enn meira og tók við sígarettunni. — Þú ert alveg dásamlegur, sagði stúlk- an og veltist um að hlæja að því, hvað hann reykti viðvaningslega. —■ Hvernig veiztu annars, hvað ég heiti, spurði hann. — Hafðu engar áhyggjur af því, sagði hún. Ég er vön að sjá það á mönnum, og þar að auki hefi ég sæmilega heyrn. Hún færði sig nær honum. — Ertu ekki með eitthvað gott í vasan- um. Ég meina-------þú skilur, flónið þitt. En það var einmitt það, sem Geiri gerði ekki. — Svona, upp með pelann, sagði stúlkan óþolinmóð. Nú rann upp Ijós fyrir Geira, og hann tók pelann upp úr vasa sínum. Hvernig í dauðanum gat stúlkan vitað þetta? — Það getur þó ekki verið, að þú viljir drekka þennan óþverra, sagði hann. Hún þreif af honum pelann og bar hann upp að eldrauðum vörunum, og hann sá, að lítil og grönn höndin hristist. Hún saup stóran sopa, en gretti sig voðalega. — Satt er það, beiskur ertu drottinn minn, sagði hún, Geiri horfði á hana, bæði hræddur og hissa. — Ertu eitthvað veik, spurði hann. — Auðvitað er ég veik. Hver er ekki veikur nú á dögum? — Aldrei hefi ég verið veikur, svo að ég muni, sagði Geiri sakleysislega. — Þetta datt mér í hug, sagði stúlkan. Það er eitthvað guðdómlegt við þig allan, hátt og lágt. En súptu nú á lika. Þér veitir ekki af að hressa upp á karlmennskuna, og svo skulum við dansa, Hann leit á fötin hennar. — Hvað, finnst þér, að ég sé ekki nógu fín á þetta brekánsball ykkar. Nú, þá get- urðu fengið þér einhverja aðra, sama er mér. — Nei, nei. Geiri saup á pelanum. En ég kann svo lítið að dansa, sagði hann. — O, bull, þú kannt nóg. Hún saup á aftur og stóð upp, dálítið

x

Dvöl

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dvöl
https://timarit.is/publication/619

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.