Morgunn - 01.12.1969, Síða 14
Hafsteinn Björnsson:
Um sálarrannsóknir
☆
Svo sem getið var í síðasta hefti Morguns, flutti Hafsteinn Björns-
son, miðill, erindi um sálarrannsóknir í Háskóla Islands á vegum Stú-
dentafélags Háskólans. Þar sem telja má þetta merkan viðburð í sögu
sálarrannsóknanna hér á landi, fór ég þess á leit við Hafstein að mega
birta erindi hans í Morgni. Birtist það hér í heild. — Ritstj.
Ég vil hefja þetta erindi með því að færa Stúdentafélagi
Háskólans beztu þakkir fyrir þá sæmd, er það veitir mér og
málefni sálarrannsóknanna með því að bjóða mér að flytja
mál mitt hér í kvöld.
Ég vil taka það fram, að ég kem hér ekki fram sem vís-
indamaður um sálarrannsóknir, þar eð starf mitt fyrir mál-
efnið hefur verið á öðrum vettvangi, en ég mun stikla hér á
helztu atburðunum úr sögu sálarrannsóknanna og segja
ykkur nokkur dæmi þar um, þó að ég geri mér grein fyrir
því, að slíku stórmáli verði ekki gerð viðunandi skil á þeim
tíma, sem ég hef hér til umráða.
Hvað vitum við um framhaldslíf mannanna og annarra iíf-
vera á okkar jörð: Á spíritisminn svör við þeirri miklu gátu?
Spíritisminn, sem á íslenzku hefur verið nefndur sálar-
rannsóknir, hefur nú verið fræðilega ástundaður um alla
jörð. Réttilega ástundaðar eru sálarrannsóknirnar tilraunir.
1 fyrsta lagi: Til þess að afla þekkingar um manninn, sam-
setningu hans, sál hans og anda, hina eiginlegu innri verund
hans og dýpri, sem hefur forgengilegan líkama að bústað og
starfstæki á meðan hún dvelst í jarðvistinni.
f öðru lagi: Að afla raunsanninda og þekkingar og fullrar
vissu um framhaldslíf mannsins og sjálfstæðrar, persónu-
legrar tilvistar hans eftir líkamsdauðann.