Morgunn - 01.12.1969, Qupperneq 44
124
MORGUNN
unnar virði. Listamaður gefur málverkinu sál. Ef það hefur
ekki tekizt, er það einskis virði, hversu íburðarmikla um-
gerð, sem við kaupum utan um það. Þannig mætti lengi
telja. Svipað gildir einnig um hina hversdagslegustu hluti í
eigu okkar. Við þurfum að hafa gefið þeim einhvern hluta
af sál okkar, ef þeir eiga að geta orðið okkur dýrmætir og
einhvers virði.
Það þarf meira að segja að vera sál í matnum, og ekki sízt
jólamatnum. Það eitt nægir ekki, að hann sé ljúffengur og
góður á bragðið, og hafi kostað of fjár í búðinni. Það þarf
að vera einhver sá sérstaki blær og fegurð yfir jólaborðinu,
sem orkar á hugann. Og þá verður það ekki bara maginn,
sem nýtur jólaréttanna og jólaborðhaldsins, heldur einnig
sál okkar. Og þá fyrst verður okkur blessaður jólamatur-
inn verulega að góðu.
Og heimilið okkar. Það er ekki bara safn af dauðum hús-
gögnum, með útvarpstæki og sjónvarpi, síma, grammófón,
legubekk, stólum og píanói og hvað það nú heitir allt saman,
sem nú þykir vera þar ómissandi og allir keppast um að
eignast. Nei, heimilið þarf fyrst og fremst að eiga sína sál,
sín sérkenni, sitt samræmi og hlýja lifandi blæ. Og það er
þetta, sem hin góða, umhyggjusama og smekklega húsfreyja
gefur heimili sínu, ekki aðeins á jólunum, heldur alla daga
ársins.
Gildi hlutanna er fyrst og fremst fólgið í sál þeirra, en
ekki í búðarverðinu. Það liggur að verulegu leyti í þeim
minningum, sem við þær eru bundnar og í viðhorfi og rækt-
arsemi okkar sjálfra til þeirra. Heimagerðum hlut höfum
við jafnan gefið eitthvað af okkur sjálfum, einhvern hluta
af sál okkar. Þess vegna setja oft slíkir hlutir framar öðrum
sinn persónulega blæ á heimilið. Þess vegna má þá í raun
og veru allra sízt vanta. Satt að segja eigum við aldrei neitt
í sönnum skilningi þess orðs, nema það, sem okkur þykir
vænt um, og á meðan að okkur þykir vænt um það. Gildi
heimilisins er ekki fólgið í veglegum húsakynnum eða fok-
dýrum aðkeyptum hlutum, sem þar er hrúgað saman meira