Viðar - 01.01.1938, Page 58
56
EIÐAHÓLMI
[Viðar
Hér munu eigi taldar fleiri tegundir þær, er vaxa í
Eiðahólma. En ærna fjölbreytni ilms og lita á gróðurinn
þar í fórum sínum. Mikils er og um það vert, að sumarið
er raunverulega lengra í skjóli skógarins en annars stað-
ar. Jurtir blómgast þar snemma vors og halda því áfram
þar til haustar. Þegar hinar snemmvöxnustu hafa fölnað,
koma aðrar í þeirra stað. Þannig koll af kolli. Hólminn
er því ekki klæddur sama búningi í júní sem maí. Júlí-
gróður hans er enn annar. Á síðsumardögum tjaldar hann
nýju skrúði. Og allir þekkja litaskraut fölnandi skóga.
Fegurstur þykir mér Eiðahólmi vera á kyrrum, heitum
sólskinsdögum hásumarsins, þegar allur gróður er hvað
safamestur og loftið er fyllt áfengum ilmi hans. Fiðrildi
svífa milli trjátoppanna og yfir lynginu iðar allt af suð-
andi lífi skordýra. Randaflugur og vespur leika sér á
sveipum hvannanna. Loftið titrar en fjöllin í fjarska og
ásar og stapar við vatnið spegla sig í sléttum fleti þess.
Fuglar setja líka svip á hólmann. Spörfuglar vagga sér
í trjágreinum. Endur og gæsir byggja stundum hreiður í
lynginu. Á vatninu synda lómar og himbrimar og rjúfa
stundum kyrrðina ásamt með öldugjálfri og þyt í skóg-
inum.
Eiðahólmi er einn af demöntunum í náttúru Fljótsdals-
héraðs og þótt víðar sé leitað. Hann er eyðiey, sem þó er
byggð miklu frjórra og gróskumeira lífi en landið i
grennd, þar sem mannshöndin og munnar sauðfjárins
hafa hjálpað eyðingaröflum eldgosa og vorkulda til að
halda vaxtarviðleitni gróðursins í skefjum með átakan-
legum árangri.
E. t. v. er það einmitt þetta, sem vekur mesta athygli
og jafnvel aðdáun á þessum litla stað. Allt hans græna,
fjölbreytta og ilmandi líf myndar svo sterka andstæðu
við vatnið, gráa mela og gróðurvana ása umhverfis það.
Gesturinn trúir varla sínum eigin augum né öðrum
skynjunum og spyr sjálfan sig: Getur þetta verið satt?
Hefir maðurinn farið slíkum eyðingareldi um ísland á